Afgreiðsla fjárlagafrumvarps

74. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 14:24:21 (3201)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir það að hafa þó gert tilraun til þess að koma og veita einhver svör. Það er nú meira en hægt var að segja um hæstv. utanrrh. eins og fram kom hjá síðasta ræðumanni. Hins vegar var ræða hæstv. fjmrh. greinilega á þann veg að hann er í miklum vanda og það mátti lesa þar bæði í setningarnar og ég tala nú ekki um að lesa þar milli línanna. Það er alveg greinilegt á ræðu hæstv. fjmrh. að fjárlagafrv. er enn þá í uppnámi hjá ríkisstjórninni. Hún er töluvert langt frá því að vera búin að ná efnislegri lendingu í höfuðatriðum. Þess vegna er fjmrh. með þá fyrirvara hér að frv. geti tekið breytingum, jafnvel verulegum breytingum milli 2. og 3. umr.
    Hæstv. ráðherra sagðist ekki hafa heyrt töluna 8 milljarðar. Ég ætla í sjálfu sér ekki að spyrja að því nákvæmlega hvaða tölu hann hafi heyrt. Hann gæti hafa heyrt töluna 7,8 eða eitthvað annað. En það liggur þó alveg fyrir að hann treystir sér ekki til þess að svara þeirri spurningu sem ég bar fram við hæstv. utanrrh. og hæstv. utanrrh. treystir sér ekki heldur til þess að svara, en það var sú spurning hvort það lægi nú fyrir á vettvangi ríkisstjórnarinnar að fjárlagafrv. yrði við 2. umr. með minni halla en það var lagt fram með. Það var eitt af höfuðatriðunum í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar að afgreiða fjárlagafrv. með minni halla en var á frv. þegar það var lagt fram. Vegna þess að hvorki hæstv. utanrrh. né hæstv. fjmrh. hafa treyst sér til þess í dag að fullvissa þingið um það að nú standi vinnan þannig að horfur séu á að frv. sé nú með minni halla eftir efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar en það var þegar það var lagt fram þá má alveg draga af því þá ályktun að ríkisstjórninni hafi ekki enn þá tekist að koma fyrirheitum sínum í framkvæmd. Þá er auðvitað alveg fullkomið álitamál hvort það er ekki tímaeyðsla hér í þinginu að láta 2. umr. um fjárlagafrv. fara fram við þær aðstæður, hvort ekki er skynsamlegra og betri nýting á tíma þingmanna að nota morgundaginn í eitthvað annað og bíða þá með 2. umr. þar til ríkisstjórnin er tilbúin. Um þetta hljóta auðvitað fulltrúar þingflokkanna að ræða um og fjárln. síðar í dag.