Almannatryggingar

76. fundur
Miðvikudaginn 09. desember 1992, kl. 23:09:17 (3217)

     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er á dagskrá skiptist í tvo meginkafla og eiga þeir harla fátt sameiginlegt. Síðari kafli frv., þ.e. II. kafli, fjallar um stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Í þeim kafla er lagt til að ríkisstjórninni verði heimilað að leggja Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, þ.e. félagið sjálft ásamt öllum eignum þess og skuldbindingum, til nýs hlutafélags er beri heitið Samábyrgðin hf. --- vátryggingarfélag. Ég tel að áður en stefnt verði að því að lögfesta þennan hluta frv. þurfi að kanna það mjög ítarlega hvernig varið er eignarformi á þessu fyrirtæki, þ.e. Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, og hvort hæstv. ríkisstjórn hafi heimildir til þess að taka eignir þess fyrirtækis og ráðstafa þeim í hlutafélag sem síðan er meiningin að selja hlutabréf ríkisins í. Með þeim hætti mundi þá hæstv. ríkisstjórn taka til ríkisins andvirði þeirra eigna sem hér er um að ræða.
    Ég held að verulegur vafi sé á því hvernig þetta eignarform er. Ég vil taka það fram að á meðan það er ekki skýrt nánar þannig að allur vafi sé af tekinn um það efni, þá hef ég fullan fyrirvara varðandi þennan þátt málsins. Sömu sögu er að segja varðandi ýmsa aðra þingmenn Sjálfstfl.
    Nú er það svo að í greinargerð með frv. er viðurkennt að það séu skiptar skoðanir um hver eigi Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Eigi að síður er þar vitnað til lögfræðiálits Jóns Steinars Gunnlaugssonar hrl., sem er virtur lögmaður, þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að hæstv. ríkisstjórn hafi þær heimildir sem hún er að leita eftir. Þótt ég sé ekki lögmaður sýnist mér að sá kafli sem hér er birtur úr álitinu sé býsna einkennilegur því að helst er á honum að skilja að enginn eigi Samábyrgðina. Þar sé ekki um

að ræða eignarrétt í þeim skilningi sem það hugtak er notað venjulega og að ríkisvaldið geti t.d. ekki gert neinar þær ráðstafanir sem hefðbundinn eignarréttur heimilar eiganda eignar venjulega. Ég tel að þetta sé nokkuð sérkennileg niðurstaða ef enginn á Samábyrgðina en hæstv. ríkisstjórn geti tekið til sín eignir þessa fyrirtækis og ráðstafað þeim að vild sinni.
    Nú er það á almannavitorði að bátaábyrgðarfélögin kjósa menn í stjórn Samábyrgðarinnar. Það hlýtur því að teljast nokkuð einkennilegt ef bátaábyrgðarfélögin eiga ekkert í Samábyrgðinni hvers vegna þau séu þá að kjósa fulltrúa í stjórn Samábyrgðar. Á ýmsan máta sýnist mér að á þessu leiki mikill vafi og ég vil að það sé upplýst áður en þetta mál gengur lengra hvort þeim vafa hefur verið eytt því að ég vil hafa í heiðri þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem vernda eignarréttinn.
    Ég tel ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta efni en lýsi því að ég hef fyrirvara við þennan þátt málsins á grundvelli þess sem ég hef hér sagt og hið sama gildir um ýmsa aðra hv. þm. Sjálfstfl.