Almannatryggingar

76. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 00:21:04 (3224)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í 2. tölul. 6. gr. frv. stendur m.a.: ,,Af öðrum nauðsynlegum lyfjakostnaði greiðir sjúkratryggður gjald sem ákveðið skal með reglugerð.`` Það liggja engar upplýsingar fyrir um það hvert þetta lágmarksgjald eigi að vera. Í nefnd, lyfjamálahópi sem Alþýðusamband Íslands átti aðild að sl. sumar, var gert ráð fyrir því að þetta lágmarksgjald yrði 500 kr. og út frá þeim forsendum gekk hagfræðingur Alþýðusambands Íslands er það dæmi var reiknað. Nú kann það auðvitað að vera að hámarksgjaldið verði ákveðið með einhverjum hætti lægra eða hærra, um það veit enginn, og hæstv. ráðherra hefur ekkert sagt um það hvert lágmarksgjaldið verður. Hins vegar vil ég segja það hagfræðingi Alþýðusambandsins til málsbóta í þessu efni að upplýsingarnar sem benda til að þessi kjaraskerðing fylgi lyfjahækkuninni fékk hagfræðingurinn í heilbr.- og trmrn.
    Í öðru lagi fannst mér slæmt að það skyldi ekki koma fram í annars greinargóðri svarræðu hæstv. ráðherra að hann gerði grein fyrir þeirri stöðu sem nú er uppi varðandi þetta frv. Tveir þingmenn Sjálfstfl. hafa gert fyrirvara, annar fyrirvara sem kostaði 174 millj., hinn fyrirvara sem kostaði 150 millj. Samtals er þetta fyrirvari upp á 324 millj. Frá því dregst sparnaðurinn upp á 250 millj. Það sem eftir stendur eftir þetta kvöld, hæstv. ráðherra, er neikvæður sparnaður eða útgjaldaaukning upp á 74 millj. kr. Það er ekki mikið að hafa upp úr þessu krafsi, hæstv. ráðherra.