Almannatryggingar

76. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 00:23:02 (3225)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef einnig rætt við þann starfsmann heilbrrn. sem hagfræðingur Alþýðusambands Íslands telur sig hafa sínar heimildir frá. Það er deildarstjóri lyfjamáladeildar. Hann neitar því alfarið að hafa skýrt frá einu eða neinu efni í reglugerð sem ekki er búið að semja og ekki er búið að ganga frá. Hins vegar er það alveg rétt hjá hv. þm. að hagfræðingur Alþýðusambandsins gaf sér þær forsendur að menn væru að tala um einhvers konar lágmarksgjald í þá veru sem menn voru að tala um fyrir mörgum mánuðum, en það er bara einfaldlega ekki. Menn geta ekki gefið sér svona forsendur og reiknað sig síðan áfram eftir þeim, ekki bara varðandi líklega niðurstöðu til kostnaðaraukningar á ákvæðum 6. gr. í frv. heldur líka á framfærslukostnað í landinu. Það geta menn náttúrlega ekki og þetta vildi ég að fram kæmi hér.
    Um það sem hann fjallaði um að öðru leyti, þ.e. stöðu frv., ég hef þegar svarað því. Þetta er stjfrv.

sem ríkisstjórnin stendur öll að, hefur verið afgreitt í stjórnarflokkunum með eðlilegum og sjálfsögðum fyrirvörum sem alltaf eru þar gerðir, fyrirvörum um afstöðu einstakra þingmanna, sem geta auðvitað verið með ýmsum hætti eins og menn þekkja, og þeim eðlilega fyrirvara sem kom fram hjá hæstv. forseta. Það er náttúrlega eðlilegt að þingmenn vilji ganga úr skugga um hvort það standist lög sem lagt er til, eins og í þessu frv. er gert. Ríkisstjórnin telur sig hafa gengið úr skugga um að svo sé. Hún er búin að hafa málið miklu lengur en hv. þm. og það er náttúrlega eðlilegt að þeir vilji gera það. Ég hins vegar treysti því að þeir komist að sömu niðurstöðu og ríkisstjórnin hefur komist varðandi það mál.