Almannatryggingar

76. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 00:25:14 (3226)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta er því miður útúrsnúningur hjá hæstv. ráðherra vegna þess að þetta var ekki bara fyrirvari um eignarhald á Samábyrgðinni heldur var þetta fyrirvari um söluna á Samábyrgðinni sem slíkri sem kom fram hjá hv. þm. hér fyrr í kvöld. Það er aðalatriðið.
    Varðandi lyfin tel ég að að sé óhjákvæmilegt að vekja athygli á því að hæstv. ráðherra neitar enn þá að segja hvert lágmarksgjaldið á að verða. Breytingarnar eiga að taka gildi samkvæmt frv. 1. jan., eftir 21 dag. Við hljótum að geta krafist þess að ráðherra svari því hér og nú hvert lágmarksgjaldið fyrir lyf á að vera og hvert hlutfall sjúklinganna á að vera í lyfjagreiðslunum. Það er óboðlegt að ljúka þessari 1. umr. án þess að ráðherra svari þessu núna um báðar þessar tölur, bæði hlutfallið og fastagjaldið.