Almannatryggingar

76. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 00:26:13 (3227)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Þetta er náttúrlega gjörsamlega ósanngjörn krafa, virðulegi forseti, að áður en menn fá lagaheimildir í hendur geri þeir grein fyrir því í einstökum atriðum hvernig þeir hyggjast nota þær. Það eina sem ég hef þegar upplýst og það sem liggur fyrir er það að ég ætla ekki að standa þannig að málum að hlutur sjúklinga í lyfjakostnaði fari fram úr Evrópumeðaltalinu sem er 32--34%. Það verður ekki farið fram úr því og þess vegna eru allir útreikningar sem byggjast á forsendum sem menn gefa sér sjálfir og leiða til þess að hlutdeild sjúklinga verði 37,5%, eins og hagfræðingur Alþýðusambandsins hefur gert, slíkir útreikningar eru algjörlega út í hött því að hlutdeild sjúklinga verður ekki meiri en Evrópumeðaltalið 32--34%. Þessu hef ég lýst yfir og þetta stendur.