Efling Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðis sem miðstöðvar fræðslu á sviði sjávarútvegs

77. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 10:43:03 (3236)

     Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að leggja fyrir tvo hæstv. ráðherra, sjútvrh. og menntmrh., fsp. í framhaldi af ályktun sem gerð var á Alþingi sl. vetur um eflingu Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðisins sem miðstöðvar fræðslu og rannsókna á sviði sjávarútvegs. Þessi ályktun var afgreidd hér, ef ég man rétt, einróma á hinu háa Alþingi í vor. Till. fylgdi á sínum tíma ítarlegur rökstuðningur sem ég læt mér nægja að vísa til.
    Það er ljóst að miklar vonir eru bundnar við að með uppbyggingu Háskólans á Akureyri, sjávarútvegsbrautar þar, með starfsemi rannsóknastofnunar á svæðinu í tengslum við háskólann sem byggð hefur verið upp á síðustu árum með starfsemi sjávarútvegsbrautar á Dalvík og annarri tengdri starfsemi á þessu svæði sé að myndast umhverfi fyrir nauðsynlega faglega þekkingu og nauðsynlegar aðstæður til þess að unnt sé að sinna þessum málefnum fræðslu og rannsókna á sviði sjávarútvegs með myndarlegri hætti en gert hefur verið hingað til í landinu. Það er óþarfi að fara um það mörgum orðum að heimamenn á þessu svæði binda við þetta starf miklar vonir. En ég hygg að óhætt sé að fullyrða að ráðamenn í sjávarútvegi líti ekki síður til þess með hliðsjón af þróun atvinnugreinarinnar og sókn á komandi árum að starfi af þessu tagi verði myndarlega sinnt.
    Nú stendur svo á að ýmis verkefni bíða fyrirgreiðslu af hálfu stjórnvalda sem þessu tengjast. Má þar nefna líffræðirannsóknir í Eyjafirði, mjög merkar rannsóknir sem áætlun hefur verið gerð um og undirbúningur hefur farið fram en mun ráðast af fjárveitingum á næsta ári og næstu árum. Sama má segja um rekstur skóla- eða rannsóknabáts og einnig á það við um ýmsa uppbyggingu hjá Háskólanum á Akureyri, uppbyggingu rannsóknaraðstöðu þar og annað því um líkt.
    Mér þótti því eðlilegt að leggja þessa fsp. fyrir hæstv. ráðherra nú á þessu haustþingi áður en afgreiðslu fjárlaga lyki og vænti þess að við fáum að heyra í svörum hæstv. ráðherra að ríkisstjórnin hafi í framhaldi af ályktun Alþingis unnið að þessu máli og geti upplýst okkur um það hvernig því miði, hvar þess sjái stað í sérstökum fjárveitingum eða stjórnvaldsákvörðunum af einhverju tagi sem séu í samræmi við og í framhaldi af þessari áherslu Alþingis á að á þessu svæði verði byggð upp þessi miðstöð.