Efling Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðis sem miðstöðvar fræðslu á sviði sjávarútvegs

77. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 11:00:16 (3244)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að benda hæstv. sjútvrh. á það að gæðingar Sjálfstfl. hafa talið sér skylt að fara með mál fyrir æðstu dómstóla fyrir það eitt að vera sakaðir um skinhelgi. Ég vil biðja hæstv. ráðherra, sem ég þekki ekki af öðru en háttvísi og kurteisi, að vera nú þann mann að koma hér upp og biðjast afsökunar á þessum umælum sínum. Í öðru lagi vil ég minna hæstv. ráðherra á það að hefði ráðherrann setið undir umræðu um skattamál hér á öðrum degi talið til baka þá hefði hann getað vitað það

að sá sem hér stendur hefur aldrei sagt annað en að í þeim erfiðleikum sem við stöndum nú frammi fyrir þurfi að leggja álögur á almenning í landinu. En hæstv. ráðherra hefði þá líka heyrt þau orð mín að hæstv. núv. ríkisstjórn hefði fundið breiðu bökin. Hún fann þá sem hún vildi hlífa. Hún vildi hlífa hátekjufólkinu, hún vildi hlífa stóreignamönnunum, hún vildi hlífa þeim sem moka inn tekjum svo milljónum skiptir út á sína fjármagnseign án þess að borga nokkra skatta til okkar þjóðfélags. Og þegar hæstv. ráðherra leyfir sér að koma hér upp með slíkan málflutning sem hann gerði hér áðan þá hlýtur hverjum sómakærum manni að ofbjóða. Og ég hlýt að vona það eitt að þessi ummæli og þessi umræða komist nú rækilega til skila út í okkar þjóðfélag.