Efling Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðis sem miðstöðvar fræðslu á sviði sjávarútvegs

77. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 11:02:36 (3246)

     Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Mér er eiginlega vandi á höndum en ég á óskaplega erfitt með að sætta mig við að umræðum ljúki með þeim hætti sem hér gerði áðan, að hæstv. sjútvrh. noti aðstöðu sína með þessum hætti. Þegar hann veit að við þingmenn sem þátt höfum tekið í umræðunni höfum fullnýtt okkar rétt til að tala þá nýtir hann seinni ræðu sína að hluta til þess að ráðast á okkur með óréttmætum ásökunum og í raun og veru að fara með rangt mál. Ég held að það hljóti að vera þannig að annaðhvort eigi menn þá þann rétt að bera af sér sakir og/eða að þeim heimilist að gera athugasemdir við þennan framgangsmáta hér í þinginu. Það má vera hvort heldur er í mínu tilviki. En ég neyðist til í fyrsta lagi að leiðrétta það að það kom hvergi fram í mínu máli að ég hneykslaðist á því að ekki væru fjárveitingar til þessara sérstöku verkefna sem ég nefndi varðandi rannsóknir, sjóvinnslukennslu og rekstur skólaskipsins. Ég lýsti vonbrigðum með að fyrir þeim þáttum væri ekki séð í fjárlagafrv. og leyfi mér að endurtaka það og óska eftir því að hæstv. ríkisstjórn eða öllu heldur Alþingi sem fer auðvitað með þau mál eftir að fjárlagafrv. er komið hér til meðhöndlunar, skoði þau mál á milli 2. og 3. umr. ef ekki gefst tími til þess fyrr.
    Það er sömuleiðis rangt, eins og reyndar var hrakið hér af síðasta ræðumanni, af hæstv. sjútvrh. og ómerkilegir útúrsnúningar sem eru ekki hæstv. ráðherra samboðnir, að einfalda málin svo mjög að stilla stjórnarandstöðunni allri upp eins og hann gerði að þar séu menn einfaldlega á móti allri tekjuöflun. Það er ekki lengra síðan en tveir dagar að hér voru til umræðu skattafrv. hæstv. ríkisstjórnar, þar sem ég bauð m.a. upp á að það yrði skoðað í efh.- og viðskn. að sú tekjuöflun yrði tekin til skoðunar og henni breytt þannig að byrðunum yrði dreift með öðrum hætti en útkoman yrði jöfn fyrir ríkissjóð, en horfið yrði frá þessari óréttlátu sértæku skattlagningu á barnafjölskyldur, meðlagsgreiðendur og aðra slíka. Það er því ómögulegt, hæstv. forseti, að hæstv. ráðherrar komist upp með að misnota svona aðstöðu sína. Það verður þá ósköp einfaldlega að taka hæstv. ráðherrana á námskeið og kenna þeim mannasiði hér í þinginu. Það hefur aldrei liðist svo lengi sem ég man eftir að menn gætu óátalið sem síðustu ræðumenn umræðu notað það tækifæri til að misbeita aðstöðu sinni gagnvart ræðumönnum sem þegar höfðu fullnýtt rétt sinn til að tala.