Efling Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðis sem miðstöðvar fræðslu á sviði sjávarútvegs

77. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 11:07:26 (3249)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég mun ræða hér um gæslu þingskapa og eiga orðastað við virðulegan forseta þar sem virðulegur forseti áminnti mig fyrir það áðan að ég hefði verið alveg á takmörkum þess sem umræður um að bera af sér sakir leyfa. Nú vil ég biðja virðulegan forseta að kynna sér það sem frá þeim sem

hér stendur hefur farið um skattlagningu og nauðsyn þess að færa byrðar af atvinnulífinu yfir á einstaklinga á undanförnum vikum og mánuðum, m.a. héðan úr þessum stól á hinu háa Alþingi --- ég get nefnt atvinnumálaumræðu í haust og fleiri skipti, ég get vitnað í blaðagreinar --- og bera það síðan saman, virðulegi forseti, við þá dæmalausu ræðu sem hæstv. sjútvrh. flutti hér áðan og þá er ég þess fullviss að forseti mun draga til baka þá viðvörun sem virðulegur forseti viðhafði hér áðan.
    Að lokum vil ég leyfa mér að fara eilítið út fyrir það sem kannski er heimilt í þessari umræðu og benda hæstv. sjútvrh. á að það eru ákveðnir hópar í okkar þjóðfélagi, kannski sérstaklega barnafólk með miðlungstekjur, sem hæstv. ríkisstjórn finnst hægt að leggja álögur á nánast takmarkalaust á meðan þeim hópum sem ég nefndi hér áðan er hlíft. Og ég vitna í orð hæstv. forsrh. sem sagði að þessi svokallaði hátekjuskattur væri sálfræðilegt ,,trikk`` og fyrst og fremst til málamynda.