Kostnaður við löggæslu á skemmtunum

77. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 11:09:30 (3250)

     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegur forseti. Í lögum um lögreglumenn frá 1972 segir svo í 8. gr., með leyfi forseta:
    ,,Lögreglustjóra er heimilt að binda skemmtanaleyfi því skilyrði að lögreglumenn verði á skemmtistað og skal leyfishafi greiða kostnað af þeirri löggæslu samkvæmt reglum sem ráðherra setur.``
    Í reglugerð sem sett var árið 1987 í framhaldi af þessari grein segir svo í 8. gr., með leyfi forseta:
    ,,Kostnaður vegna löggæslu á skemmtistað skv. 6. gr. greiðist úr ríkissjóði af viðkomandi lögreglustjóra. Sá sem fyrir skemmtun stendur skal endurgreiða lögreglustjóra þann kostnað er leiðir af aukinni löggæslu vegna skemmtunar umfram það sem eðlilegt má telja. Skal við það miðað að hverju sinni séu að jafnaði tiltækir tveir lögreglumenn við almenn löggæslustörf í nágrenni skemmtistaðar sem ríkissjóður ber allan kostnað af.``
    Í framhaldi af fsp. minni á þskj. 102 um löggæslu á skemmtunum kom svar frá hæstv. dómsmrh. á þskj. 132 og þar kemur í ljós að hlutirnir eru ekki framkvæmdir með samræmdum hætti yfir landið eftir lögregluumdæmum heldur afar mismunandi. Það kemur fram að í 11 lögregluumdæmum af 27 eru skemmtistaðir ekki krafðir um greiðslu vegna kostnaðar af löggæslu sem hlýst af starfsemi þeirra. Það er dálítið merkilegt að meðal þessara 11 lögregluumdæma þar sem skemmtistaðir eru ekki krafðir endurgreiðslu á kostnaði eru nánast allir stærstu staðir landsins. Hins vegar eru aðrir staðir í 16 lögregluumdæmum krafðir um endurgreiðslu á þessum kostnaði, eins og fram kemur í því svari, með allt upp í 3 millj. kr. á ári, t.d. Ísafjarðarumdæmi þar sem eru tveir til þrír skemmtistaðir, en í Reykjavík þar sem eru hátt í 200 skemmtistaðir er ekki um neina endurgreiðslu að ræða. Í framhaldi af þessu svari hef ég því leyft mér, virðulegi forseti, að bera fram til dómsmrh. fsp. á þskj. 398, svohljóðandi:
    ,,    Hvers vegna eru skemmtanaleyfi í 11 lögregluumdæmum af 27 ekki bundin því skilyrði að lögreglumenn verði á skemmtistað, sbr. svar dómsmálaráðherra við fyrirspurn um löggæslu á skemmtunum á þskj. 132?``