Kostnaður við löggæslu á skemmtunum

77. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 11:17:05 (3255)

     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég mótmæli því að fsp. hafi verið svarað. Ég vil í öðru lagi benda forseta á það að ég varð að nýta þann rétt sem ég hef til að taka tvisvar til máls til að bera fram fsp. Það var ekki fyrr en dómsmrh. hafði talað í síðara sinnið að það var hægt að svara einhverju og bregðast við í hans svari. Þannig að engin umræða gat farið fram um þetta mál.
    En ég vil segja varðandi það sem kom fram hjá hæstv. dómsmrh. að það var rangt. Það var rangt. Það eru skýrar reglur sem leggja lögreglustjórum fyrirmæli um það að þeim beri að innheimta kostnað vegna aukinnar löggæslu. Og ég trúi því ekki að það sé engin aukin löggæsla í Reykjavík vegna hátt í 200 skemmtistaða.