Kostnaður við löggæslu á skemmtunum

77. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 11:21:43 (3260)

     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra var að gagnrýna það að þingmenn bæru fram spurningar í ræðum sínum. Hæstv. ráðherra hefur ekkert með það að gera hvað þingmenn kunna að bera fram í ræðum sínum. Hins vegar rétt að það er óþægilegt þegar sú staða kemur upp að sá sem þarf að svara hefur ekki möguleika til þess. Það hendir ráðherra en það hendir líka þingmenn mjög oft. Aðalvandi þessa kjörtímabils hefur eins og kunnugt er verið hæstv. forsrh. Hann hefur yfirleitt haft síðasta orðið í spurningalotum sem hafa farið fram á hann og yfirleitt hefur hann lokið þeim spurningalotum með þeim hætti að ráðast á fyrirspyrjendur alveg sérstaklega. Það er því rétt hjá hæstv. dómsmrh. að það þarf að taka á þessu vandamáli sem er hæstv. forsrh.