Kostnaður við löggæslu á skemmtunum

77. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 11:25:00 (3262)

     Dómsmálaráðherra: (Þorsteinn Pálsson) (um þingsköp) :
    Frú forseti. Ég vil mótmæla harðlega aðdróttunum af þessu tagi að þessari fsp. hafi ekki verið svarað eins og efni standa til. Það eru um þetta skýr ákvæði í lögum sem mæla fyrir um það að sýslumenn skuli innheimta kostnað vegna löggæslu í kringum skemmtistaði ef aukakostnaður leggst á. Það er á valdi sýslumanna á hverjum stað að meta þessar aðstæður og þær eru sannarlega mismunandi frá einum stað til annars. Um þetta gilda ein lög í landinu en aðstæður geta verið mismunandi og til þess var vísað í mínu svari og ég mótmæli því fullkomlega að það svar sé á einhvern hátt úr tengslum við raunveruleikann. Það er aðdróttun sem ég sætti mig ekki við.