Kostnaður við löggæslu á skemmtunum

77. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 11:27:28 (3265)

     Einar K. Guðfinnsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst nú að þessar umræður séu orðnar nokkuð tæmandi. Í svari hæstv. dómsmrh. liggur fyrir að þetta mál er á valdi hvers lögreglustjóra og hvers sýslumans að ákveða með hvaða hætti hann kýs að skipa þessum málum. Ég er að vísu eins og mjög margir fremur undrandi á því að það skuli vera mat lögreglustjórans í Reykjavík að ekki þurfi að efla löggæsluna og styrkja það mál, t.d. með því að rukka vínveitingahús hér á höfuðborgarsvæðinu um einhvers konar gjald eins og gert er í að ég hygg 16 umdæmum í landinu. Það er hins vegar mat viðkomandi lögreglustjóra og hann hlýtur að meta það svo. Ég er ekki að vísu mjög kunnugur nætur- og öldurhúsalífi höfuðborgarinnar þannig að ég ætla ekki að leggja dóm á það hvort þetta sé þannig hér í Reykjavík en það er væntanlega mat lögreglustjórans. Hins vegar kemur svolítið á óvart í ljósi fjölmiðlafrétta af öllu þessu og mér finnst að það væri rétt í lok þessarar umræðu sem hlýtur nú að fara brátt að ljúka vegna þess að spurningunni hefur nú verið skilmerkilega svarað og þess vegna væri rétt að fara að vekja athygli yfirvalda lögreglumála í Reykjavík á því að þarna er lítil matarhola sem þau gætu nýtt sér til þess að efla löggæsluna sem stundum hefur verið haft á

orði m.a. af lögreglustjóranum að mætti efla hér í Reykjavík.