Kostnaður við löggæslu á skemmtunum

77. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 11:29:19 (3267)

     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Vandinn er auðvitað sá þegar hæstv. ráðherrar svara ekki fyrirspurnum með eðlilegum hætti þá fer þetta út í umræður í þingsköpum sem þingmenn hafa reyndar greinilega í þessum umræðum reynt að halda sér frá að fara út í almenn efnistriði nema hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, 3. þm. Vestf. Hann fór út í almennar umræður um þetta mál og ber að þakka honum það.
    Ég tel að það sé athyglisvert hins vegar sem fram kom í hans máli að það virðist vera þannig að hann sætti sig við það að það séu tvenn lög í landinu, hann sætti sig við það að það séu önnur lög hér en annars staðar eða framkvæmd laganna sé með mismunandi hætti. Það er afar fróðlegt að það skuli koma fram frá hv. þm. í þingskapaumræðu með þeim hætti sem það gerði mjög skýrt hér áðan að hann fallist á þá mismunun þegnanna sem birtist í því að sums staðar er löggæslukostnaður borinn uppi af almenningi en sums staðar ekki.