Fækkun stöðugilda hjá ríkinu

77. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 11:34:09 (3273)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Svo sem þingmönnum og þjóð er kunnugt hefur ríkisstjórnin gengið fram af miklu offorsi í niðurskurði ríkisútgjalda og hafa vaknað margar spurningar um afleiðingar niðurskurðarins. Í þeim plöggum, sem ríkisstjórnin hefur sent frá sér, í fjárlagafrv. og víðar, kemur fram að þeir eru harla kátir yfir þeim árangri sem þeir sjá á niðurskurðinum, en eins og ég nefndi þá hljóta margar spurningar að vakna um það hvar þessi niðurskurður hefur komið fram og þá ekki síst þegar í ljós kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga til septemberloka 1992, sem barst þingmönnum nýlega í hendur og var gefin út í nóvember 1992, en þar segir á bls. 4, með leyfi forseta:
    ,,Þróun starfsmannafjölda og launakostnaðar hjá A-hluta ríkissjóðs til loka septembermánaðar þessa árs í samanburði við sama tíma ársins 1991 gefur til kynna að reiknuðum ársverkum hafi fækkað um 200 stöðugildi. Það svarar til um 270 millj. kr. raunlækkunar launaútgjalda.`` Af þessu tilefni vil ég spyrja hæstv. fjmrh.:
  ,,1. Hvaða skýringar eru á því að stöðugildum hjá ríkinu hefur fækkað um 200 frá áramótum og fram til septemberloka 1992 ef marka má niðurstöður Ríkisendurskoðunar?
    2. Hvar hefur þessi fækkun á stöðugildum átt sér stað hjá ríkisstofnunum?
    3. Hvaða stöður er um að ræða?``
    Eins og ég nefndi í inngangi mínum, virðulegi forseti, spyr maður sig hvort þetta sé raunverulegur árangur hjá ríkisstjórninni. Hvað þýðir þessi fækkun í auknu vinnuálagi annarra ríkisstarfsmanna? Hafa verkefni breyst hjá ríkisstofnunum? Voru stöðugildin of mörg eða er þetta fyrst og fremst niðurskurður á yfirvinnu og hvaða áhrif hefur þetta á þjónustu ríkisins ef uppstokkun á sér ekki stað í leiðinni hjá hinum ýmsu ríkisstofnunum? Það hefur ekki bólað mikið á slíku. Því eru þessar spurningar fram lagðar, til að fá skýringar á þessu.