Fækkun stöðugilda hjá ríkinu

77. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 11:36:53 (3274)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Það er dálítið vandlifað í heiminum þessa dagana. Eins og hv. fyrirspyrjandi sagði, þá hefur hæstv. ríkisstjórn gengi fram með offorsi í niðurskurði eins og ég held að hv. þm. hafi sagt orðrétt. Síðan hafa þingmenn úr sama flokki komið og sagt að það væri offors í skatta- og tekjuöflun ríkissjóðs og meina það sjálfsagt líka. Svo í þriðja lagi er því haldið fram að hallinn sé alltaf að aukast og þeir meina það sjálfsagt líka þannig að það er nú dálítið vandlifað í þessum heimi þegar allt þetta fer saman en auðvitað eru skýringar á því.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er ekki sagt að stöðugildum hafi fækkað heldur að ársverkum hafi fækkað 1992 miðað við sama tímabil, 1991, og það er mælt í stöðugildum. Á þessu er að sjálfsögðu töluverður munur. Ársverk er vinnumagnsmæling þar sem launaeiningar tiltekinna launategunda eru umreiknaðar í ársverk. Stöðugildi táknar í venjulegum skilningi heimild til að ráða einn starfsmann í fullt eða 100% starf í ótiltekinn tíma. Af hálfu fjmrn. og Ríkisendurskoðunar hafa verið þróaðar ákveðnar aðferðir til að fylgjast með launakostnaði og vinnumagni ríkisstofnana. Vegna árstíðabundinna sveiflna í starfsmannahaldi ríkisins hafa þessir aðilar talið það gefa réttari mynd af stöðu starfsmannamála á tilteknu tímabili að ganga út frá ársverkum. Í þeim kafla skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem fyrirspyrjandi vitnar til, er verið að fjalla um hversu mikið vinnumagn liggur hjá ríkisstofnunum. Skýrslan segir því ekkert um það hvort starfsmönnum hafi fækkað eða fjölgað heldur að vinnumagn á þessum tíma hafi dregist saman. Ef skoðuð er skipting ársverka eftir uppruna kemur fram að fækkun ársverka kemur fyrst og fremst fram í samdrætti í yfirvinnu eins og hv. þm. giskaði reyndar sjálfur á.
    Þessu til viðbótar ber að geta þess að starfsmönnum sem slíkum, þ.e. hausunum, getur fjölgað og fækkað því að sumir vinna fullan vinnudag, aðrir eru í umsömdum hálfs dags störfum. Þetta sést kannski best í heilbrigðiskerfinu sem er afar fjölmennt kerfi opinberra starfsmanna.
    Með vísan til þess sem ég hér hef sagt er ekki hægt að svara því nákvæmlega sem kemur fram í 2. og 3. lið fsp. Ég hef séð við lauslega athugun að þessi yfirvinnusamdráttur kemur nokkuð jafnt yfir. Þó er það aðeins mismunandi eftir eðli vinnunnar eins og allir geta ímyndað sér. Í framhaldi af þessu vil ég einnig segja að ég hygg að það sé betra, og það hefur verið til athugunar hjá fjmrn., að hverfa frá stöðugildishugsunarhættinum en mæla frekar launaútgjöld í krónum og aurum. Þetta er eiginlega forsenda þess að við getum breytt um starfsmannastefnu og gefið viðkomandi stofnunum, fyrirtækjum og öðrum opinberum aðilum tækifæri til þess að ráða sjálfir nokkurn veginn hvernig þeir haga starfsmannastefnu sinni. Það sem auðvitað skiptir máli er sú þjónusta sem boðið er upp á, hin lögbundna opinbera þjónusta, en ekki endilega hvort hún er unnin af starfsmanni í hálfri stöðu, starfsmanni í fullri stöðu, starfsmanni sem tekur verulega yfirvinnu eða aðkeyptum starfsmanni. Þetta eru atriði sem ég held að við þurfum að hafa í huga í framtíðinni.
    Það er rangt sem ýjað var að hjá hv. þm. að ekki hafi átt sér stað uppstokkun. Á hverjum tíma er farið vandlega ofan í það hjá viðkomandi stofnunum að það sé stokkað sem mest upp og kerfisbundið reynt að leita ráða til þess að draga úr kostnaði, m.a. launakostnaði. Hagsýsla ríkisins vinnur að slíkum verkefnum. Auðvitað eru ekki allar stofnanir teknar í einu, en það er skylda fjmrn. að ná sem mestu þjónustumagni fyrir sem minnsta fjármuni hvort sem þeir fjármunir eru síðan notaðir til að greiða laun eða annan kostnað.
    Vona ég að þetta skýri málið af hálfu fjmrn. og skýri þann texta sem kom frá Ríkisendurskoðun og ég

skal viðurkenna að hann hefði mátt vera skýrari í framsetningu í viðkomandi skýrslu.