Fækkun stöðugilda hjá ríkinu

77. fundur
Fimmtudaginn 10. desember 1992, kl. 11:42:04 (3275)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Mér fannst það athyglisvert sem fram kom í svari hæstv. fjmrh. einkum og sér í lagi það sem fram kom hjá honum varðandi stöðugildin. Ég þakka honum fyrir hvað það var greinargott og þar með frábrugðið svörum dómsmrh. á þessum fundi. Ég sé ekki að það hafi í raun og veru orði veruleg fækkun í stöðugildum eða hæstv. ráðherra virðist ekki hafa handbærar tölur til að svara því. Ég hef þó einhvers staðar séð tölur um t.d. fækkun kennara milli skólaáranna 1991--1992 til 1992--1993 um, að mig minnir, um 70. En ég vil einnig af þessu tilefni taka undir það sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. að það er nauðsynlegt framfaramál að losa menn í þessari umræðu út úr stöðugildatalningunni. Þar hafa ríkisstofnanir hins vegar verið undir fargi fjmrn. Fjmrn. hefur sett ríkisstofnunum afar þröngar skorður í þessu efni og í staðinn fyrir að horfa á fjármunina sem stofnanirnar eru að eyða er einlægt verið að telja stöðugildi. Ég vil þess vegna fagna þessari yfirlýsingu hæstv. fjmrh. og ég er sannfærður um að forustumenn ríkisstofnana yfirleitt munu einnig fagna þessari yfirlýsingu. Ég vona að eitthvað verði gert í málinu þannig að menn hætti þessari þröngu stöðugildapólitík sem rekin hefur verið af fjmrn.