Fjárlög 1993

78. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 00:00:48 (3302)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Okkur greinir einfaldlega á um það hvort þetta sé í samræmi við gildandi lög. Ég tel þetta vera í fullu samræmi við gildandi lög. Ég hef það því miður ekki hjá mér, en við létum athuga það sérstaklega í fyrra og höfum lögfræðilegt álit frá fleiri en einum og fleiri en tveimur lögmönnum um lögmæti þess að leggja á skólagjöld. Það er ótvíræð heimild í lögum um framhaldsskóla. Menn eiga ekki að þurfa að deila um það. Og menn eiga heldur ekki að þurfa að deila um að þessi skólagjöld verða ekki notuð til þess að greiða kennaralaun. Það verður ekki gert. Það er alveg . . .  ( GunnS: Þetta eru ekki skólagjöld.) Nei, menn hafa misjöfn orð um hvað þetta heitir. Innritunargjöld, skólagjöld, efnisgjöld, ýmislegt er þetta kallað og þetta er líka greint í lögunum. Hins vegar hefur aldrei verið sett reglugerð um innheimtu þessara gjalda sem lögin gera þó ráð fyrir að verði gert. Ég setti nefnd í það innan ráðuneytisins á sl. sumri að semja reglugerð um innheimtu þessara gjalda og ekki bara þessara heldur líka þeirra gjalda sem renna í nemendasjóðina. Það er full þörf á því vegna þess að þar er um að ræða tugi milljóna. Tugir milljóna króna eru innheimtar í framhaldsskólakerfinu til nemendasjóðanna. Það hefur alls enginn neitt eftirlit með því. Þetta mál er því í sérstakri athugun.
    Þá er það rangt hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að sú tillaga sem um getur í frv. brjóti í bága við niðurstöðu Alþingis í fyrra. Hún kom aldrei til atkvæða. Tillagan var dregin til baka.