Fjárlög 1993

78. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 00:12:10 (3307)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði hugsað mér að fara yfir þær brtt. sem ég flyt ásamt nokkrum öðrum þingmönnum Alþb. við 2. umr. fjárlaga og ætlaði kannski að ræða auk þess um þau mál sem fram hafa komið í umræðunni nú að undanförnu. Án þess að ég hefði hugsað mér það áður en þessi lota hófst finnst mér að ég komist eiginlega ekki hjá því að fara aðeins yfir þau. Síðan ætlaði ég að ræða svolítið við hæstv. heilbrrh. um þá þætti sem að honum snúa, einkum rekstur sjúkrahúsa. Ég vil nota tækifærið og þakka báðum hæstv. ráðherrunum fyrir að vera viðstaddir þessa fjárlagaumræðu.
    Það er fyrst rétt að víkja að því sem fram hefur komið síðustu mínúturnar varðandi skóla- og menntamálin. Það sem ég ætla að nefna fyrst áður en ég kem að þessum sérstöku tillögum okkar alþýðubandalagsmanna er að ég gerði það upp við mig að það væru nokkur svið þar sem ég vildi sjá til hvað kæmi frá fjárln. og ríkisstjórn við afgreiðslu málsins við 2. umr. Þess vegna kaus ég að flytja ekki brtt. við 2. umr. við þá þætti en áskil mér rétt til þess að flytja brtt. við 3. umr. Þeir eru eftirfarandi:
    1. Framlag til Lánasjóðs ísl. námsmanna.
    2. Menningarstarfsemi, m.a. áhugaleikfélög, Bandalag ísl. leikfélaga og atvinnuleikhóparnir.
    3. Námsgagnastofnun.
    Ég tók eftir því varðandi Námsgagnastofnun að á einhverju stigi málsins heyrði ég því fleygt að ætlunin væri að hækka aðeins framlagið til Námsgagnastofnunar, mig minnir um 10--15 millj kr., ég man ekki töluna nákvæmlega og auðvitað gladdist ég yfir því. Ég sá síðan að ætlunin er að nota þá peninga til að endurgreiða eða tryggja það að Námsgagnastofnun slyppi skaðlaus frá bókaskattinum, þeim sérstaka menningarskatti sem ætlunin er að leggja á á árinu 1993, og hefði auðvitað þurft að ræða ítarlega við þessa fjárlagaumræðu að núna er ætlunin að taka upp að nýju skatta á bækur hér. Ég vil samt láta það koma fram áður en ég vík að þessum einstöku brtt. að ég mun við 3. umr. málsins íhuga að flytja brtt. sérstaklega við þessa þætti frv.
    Ég vil síðan víkja lauslega að því sem fram hefur komið síðustu mínúturnar og þá kannski fyrst þessu með framhaldsskólann. Ég vil segja, virðulegi forseti, að ég held að það sé óhjákvæmilegt að mennn geri sér grein fyrir því að hér er tvímælalaust teflt á tæpasta vað í sambandi við það hvort það er löglegt að taka skólagjöld í rekstur framhaldsskólanna eins og verið er að gera. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ólöglegt. Ég hef skrifað um það nokkuð ítarlegar greinar sem birtust í blöðum sumarið 1991. Upp úr þeim hugmyndum og skrifum urðu miklar pólitískar deilur um málið og Alþfl. ákveða að beita sér gegn skólagjöldum í framhaldsskólum. Niðurstaðan varð sú að stjórnarandstaðan eða Alþfl., ef menn vilja orða það þannig, hafði sitt fram í málinu þannig að það voru ekki lögð á skólagjöld í framhaldsskólum samkvæmt fjárlögum ársins 1992.
    Nú er verið að smygla skólagjöldum inn með dálítið óheiðarlegum hætti. Það er farið bakdyramegin að þessum hlutum. Það er ekki fyrr en maður fær yfirlit frá ráðuneytinu sem heitir Sértekjur framhaldsskóla að maður áttar sig á því hvað hér er á ferðinni. Auðvitað er það svo að um langt árabil hafa verið innheimt skólagjöld eða einhvers konar gjöld í framhaldsskólum. Hæstv. ráðherra rakti mörg dæmi um það.

Hann nefndi tölu í einhverju tilviki sem var milli 40--50 þús. kr. minnir mig. Ég ímynda mér að það sé, ef ég man þetta rétt, matvælabraut Verkmenntaskólans á Akureyri. Mig minnir að hún hafi skagað upp úr öllu vegna þess að þar eru menn að taka það sem kallað er efnisgjald. Í þessu minnisblaði menntmrn. sem var lagt fyrir fjárln. segir að það séu um 200 millj. kr. sem eru teknar í alls konar gjöld af þessu tagi. Kennslugjöld, hlutur nemenda í öldungadeildum og meistaraskólum, eru þar af 55 millj. kr. og það dettur engum í hug að hrófla neitt við því. Það eru engar tillögur um það.
    Í öðru lagi eru svokölluð efnisgjöld eins og í iðnskólunum og í Verkmenntaskólanum á Akureyri og víðar. Það eru um 45 millj. Þetta eru um 100 millj. Síðan kemur til viðbótar t.d. heimavistargjöld, um 20 millj., mötuneytisgjöld koma þarna við sögu líka, ýmis akstursgjöld og jafnvel leigutekjur eru menn að taka inn í þessa ,,púllíu`` sem hluta af sértekjum framhaldsskólanna. Nú ætla ég ekki að gera lítið úr því að það er eðlilegt að reyna að taka utan um þessa hluti. Mér dettur auðvitað ekki í hug að gagnrýna ráðuneytið fyrir það. Auðvitað á ráðuneytið að hafa yfirlit yfir þessi mál, drottinn minn dýri. Hins vegar tel ég að ráðuneytið eigi ekki að skipta sér af félagsgjöldum skólafélaga. Ég tel að skólafélögin séu sjálfstæð félög sem hafi sín lög og reglur og það að skipta sér af félagsgjöldum skólafélaganna sé rétt eins og að skipta sér af félagsgjöldum verkalýðsfélaganna, kvenfélaganna eða yfirleitt annarra félaga í landinu. Ráðuneytinu kemur það ekkert við. Það er fyrir utan starfssvið ráðuneytisins. Síðan koma í frv., samkvæmt greinargerð menntmrn., 50 millj. kr., 3.000 kr. á nemanda sem eru tekin í skólagjöld í framhaldsskólakerfið.
    Nú er manni auðvitað nokkur vandi á höndum í sambandi við mál af þessu tagi. Ég segi það eins og er að ég veit ekki hvernig á að snúa sér. Ég er nokkuð sannfærður um að þetta stenst ekki lög. Ég las rækilega umræðurnar sem fóru fram 1988 um framhaldsskólalögin sem voru sett áður en ég kom í menntmrn. Ég las rækilega t.d. ræðu þáv. hæstv. menntmrh. Birgis Ísl. Gunnarssonar. Ég las greinargerðina með frv. Ég las nefndarálitið. Ég sá engin rök fyrir því að það mætti taka skólagjöld í almennan rekstur í framhaldsskólum. En hvað á maður að gera? Ráðherrann heldur þessu fram og auðvitað getur Alþingi gert vilja hans að lögum. En það dugir ekki að setja það inn í fjárlög. Það verður þá að breyta efnislögunum sem þarna eru framhaldsskólalögin. Ég tel óhjákvæmilegt að það yrði kannað, ef þessi gjöld verða lögð á upp á 3.000 kr. á nemanda í framhaldsskólum, hvort ekki væri hugsanlegt og óhjákvæmilegt að stefna málinu til meðferðar í réttarkerfinu til þess að kanna það hvort þetta stenst lög. Allt tekur það langan tíma. Þetta leiðir auðvitað hugann að því hvort hér þyrfti ekki að vera til einhver lagastofnun til að leita til eða föst laganefnd. Auðvitað getur slík stofnun eða nefnd aldrei tekið völdin af Alþingi. Sem betur fer erum við með það kerfi að Alþingi ræður þessum hlutum og það getur enginn tekið völdin af Alþingi í þessum efnum. Mér finnst að mér sé skylt sem alþingismanni að benda á þetta og beita mér jafnvel fyrir því þar sem ég hef getu til og vit að fólk mótmæli þessu og reyni að knýja ríkisstjórnina til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera þetta löglegt með því að breyta framhaldsskólalögunum. Málið liggur einmitt þannig, og þar stendur hnífurinn í kúnni, að ríkisstjórnin hefur ekki til þess þingmeirihluta. Alþfl. hefur ekki viljað samþykkja breytingu á framhaldsskólalögum sem skapar möguleika til þess að leggja á skólagjöld. Þess vegna er þessu smyglað hér inn bakdyramegin inn í fjárlagafrv. Ég vil mótmæla því sem ekki heiðarlegum vinnubrögðum. Ég segi það alveg eins og er.
    Þetta vildi ég segja um framhaldsskólana og gæti sagt margt um þá að öðru leyti, m.a. í sambandi við orðaskipti hæstv. ráðherra og hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur um framhaldsskólann og grunnskólann. Ég kunni ekki að meta það hvernig menn höguðu orðum sínum þar en ég kann ekki við að þreyta þingmenn á löngum umræðum um grundvallaratriði eða einstök stefnuatriði í skólamálum um hánótt. Ég ætla að láta það liggja.
    Ég ætla hins vegar að víkja að öðru atriði sem fram kom í skoðanaskiptum hæstv. menntmrh. og hv. 3. þm. Norðurl. e. Það lýtur að Háskóla Íslands. Ég verð að játa að ég varð steinhissa á orðum ráðherrans í sambandi við Háskóla Íslands. Hæstv. ráðherra segist ekki skilja af hverju hlutirnir eru svona þar sem nemendum hafi fækkað og stöðum hafi ekki fjölgað o.s.frv. (Gripið fram í.) Ég ætla ekkert að gagnrýna ráðherrann fyrir það. Ráðherrar hafa auðvitað fulla heimild til þess að skilja ekki endilega alla hluti sem þeir eru að fást um. Það væri ósanngjarnt og beinlínis vitlaust að ætlast til að þeir kynnu skil á öllum þeim flóknu málum sem þeir eru að fjalla um. Má segja að það sé heiðarlegt af ráðherranum að segja þetta og það er þakkarvert.
    En þá vil ég spyrja hann að því í framhaldi af þessu og það er það sem veldur undrun minni: Hvar er samstarfsnefnd menntmrn. og háskólans? Er hún ekki til? Er hún ekki að störfum og er hún ekki að reyna að svara svona spurningum? Ég hygg að það sé tvímælalaust að háskólinn er í verulegum vandræðum. Það er tvímælalaust þannig að háskólinn hefur frestað fjölda námskeiða. Það liggur fyrir að hann hefur skorið niður fjöldann allan af námskeiðum. Við vitum að hann hefur þrengt svo að t.d. dæmatímum í verkfræði- og raunvísindadeild að nemendur eru sjálfir að borga dæmatíma í verk- og raungreinum. Þeir eru sjálfir að skjóta saman fyrir dæmatímum. Ég get nefnt ótal mörg fleiri dæmi af slíku tagi sem sýna að háskólinn er bersýnilega upp við vegg að því er varðar fjármuni til kennslu og rannsókna.
    Mér er ekki kunnugt um það að háskólinn sé að sóa og sólunda peningum í eitthvað annað. Ég kannast ekki við það. Þess vegna verð ég að segja eins og er að ég undrast þessa árás liggur mér við að segja á háskólann sem fram kom í máli hæstv. menntmrh. vegna þess að það er einu sinni skylda ráðherra, ekki einasta að skilja alla hluti heldur að reyna að skilja þá og reyna að fara í þá vinnu að setja sig inn í málin í smáatriðum. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Er þessi nefnd ekki til? Hefur hún ekki reynt að taka á málinu til þess að glæða skilning bæði ráðuneytisins og ráðherrans og ríkisstjórnarinnar annars vegar og svo háskólans hins vegar?
    Hæstv. menntmrh. sagði að í ríkisreikningnum 1991 og frv. 1993 væru nokkurn veginn sömu tölur ef ég skildi hann rétt. Ég næ því ekki vegna þess að í ríkisreikningnum 1991 fékk háskólinn 1.610,5 millj. kr. Í frv. fær hann hins vegar 1.518,5 millj. kr. og síðan er bætt við í brtt. fjárln. --- mig minnir að það séu nokkrir tugir millj. kr., ég þori ekki alveg að fara með það hvaða tala það er en það nær alla vega ekki þeirri tölu sem ég sé að er í ríkisreikningi 1991. Ég sé því ekki að þetta sé rétt hjá hæstv. ráðherra og vil biðja hann að skýra þetta aðeins betur fyrir mér. Að auki er þess að geta að inni í tölunni fyrir árið 1993 er tala sem ekki er í tölunni 1991 sem eru skólagjöldin. Framlag ríkissjóðs til háskólans að raunvirði á árinu 1993 er því tvímælalaust talsvert lægra en á árinu 1991, a.m.k. sem nemur skólagjöldunum. Þetta er atriði sem ég hefði gjarnan viljað heyra hæstv. ráðherra segja skoðun sína á því ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna hann setur tölurnar upp með þeim hætti sem hann gerði.
    Ég fór í það, hæstv. forseti, að reyna að átta mig á því hver þyrftu að vera framlögin til háskólans til að halda nokkurn veginn raunvirði ársins 1991 að meðtöldum skólagjöldunum. Ég sá ekki betur en það þyrfti í raun og veru að hækka framlagið til skólans á árinu 1993 frá því sem er í fjárlagafrv. um u.þ.b. 100 millj. kr. Mér sýndist það vera 107--108 millj. kr. eða þar um bil.
    Af þeirri ástæðu er það, virðulegi forseti, sem ég flyt hér tillögu á þskj. 447 um að hækka framlag til rekstrar háskólans samkvæmt ákvörðun háskólaráðs um 100 millj. kr. Ég treysti mér ekki til þess og fannst það ekki í mínum verkahring að gera tillögu um það hvernig þessi upphæð deildist niður á einstakar deildir og verkefni háskólans. Þess vegna er það orðað svo að þetta sé til rekstrar samkvæmt ákvörðun háskólaráðs og tilgangurinn er sá að tryggja það að háskólinn hafi nokkurn veginn svipað fé að raunvirði og hann hafði 1991.
    Þessa tillögu flyt ég ásamt hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og Önnu Kristínu Sigurðardóttur. Á sama þskj., og kem ég þá að þessum tillögum, flyt ég einnig tillögu með þeim um Rannsóknasjóðinn og ætla aðeins að koma að því.
    Undir fjmrn. eru peningar til rannsókna undir lið 09-481 690 Átak á sviði rannsókna og þróunarstarfsemi, 300 millj. kr. Þetta er hluti af útgjöldum samkvæmt heimildarákvæðum. Ég vil segja það fyrir mitt leyti að ég tel það fagnaðarefni að þessir fjármunir séu ákveðnir til rannsókna. Hvort þeir fást er allt annað mál verð ég að viðurkenna.
    Það sem ég er með tillögu um, virðulegi forseti, er ósköp einfaldlega að þessir fjármunir sem þarna eru færðir til gjalda í fjmrn. verði færðir til gjalda í menntmrn. af því að þeir eiga heima hjá hæstv. menntmrh. Þetta sýnir auðvitað að ég treysti honum betur en hæstv. fjmrh. til að fara með rannsóknir enda heyrir það undir menntmrn. samkvæmt stjórnarráðslögunum. Mér þætti vænt um að hæstv. menntmrh. segði eitthvað um þetta á eftir eða greiddi tillögunni atkvæði vegna þess að þessir peningar eiga hvergi annars staðar heima en hjá hæstv. menntmrh. Fjmrh. á ekki að vera að darka í rannsóknum. Hann hefur nóg með sitt eins og alþjóð veit og ég ætla ekki að fara nánar út í það. Þess vegna flyt ég tillögu um að þessir fjármunir, 300 millj., verði fluttir frá fjmrn. og yfir til menntmrn. Það er með öðrum orðum ekki króna í ný útgjöld heldur er þetta tilflutningur á fjármunum innan þess sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv.
    Loks flytjum við litla tillögu sem er þriðja tillagan á þskj. 447 frá okkur þremur þar sem við leggjum til að Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra hækki úr 7,6 millj. í 9,6 millj. Tilgangurinn með þessari tillögu er sá að leggja áherslu á að það fáist fjármunir til rannsókna og kennslu í táknmálstúlkun. Mér þætti afar vænt um það ef hv. fjárln. og hæstv. ráðherra vildu skoða þessa tillögu vegna þess að ég hef hugsað mér að draga hana til baka atkvæðagreiðsluna á morgun. Menn geta því velt því fyrir sér hvort ekki er hægt að laga þetta mál því þetta er úrslitaatriði til þess að táknmálstúlkunin komist af stað með eðlilegum hætti og rannsóknir á íslensku táknmáli geti haldið áfram.
    Þá vík ég þessu næst, virðulegi forseti, að einu atriði enn. Ég hef talað um háskólann og framhaldsskólann og ætla síðan að víkja aðeins að grunnskólunum og segja eins og er: Ég er undrandi á vinnubrögðum menntmrn. í einu tilteknu máli sem hefur legið fyrir í allt heila haust. Það hefur legið fyrir í allt heila haust að fjárlögin eða frv. geri ráð fyrir því að halda áfram að skera niður kennslu í grunnskólum. Það hefur legið fyrir í allt heila haust að fjárlagafrv. gerir ráð fyrir því að fækka tímum. Fjárlagafrv. gerir ráð fyrir því að fella niður skólamáltíðir eða taka þær ekki upp. Þrátt fyrir þetta, virðulegi forseti, gerist það fyrst 10. eða 11. des. að frv. kemur um breytingu á lögum um grunnskóla, um þetta sem hefur legið fyrir allan þennan tíma. Það hefði verið hægt að taka á þessu máli í lotu í október, nóvember þegar menn voru að fokka í svo að segja engu stundum dögum saman. Í staðinn eru menn að koma með þetta núna. Þetta eru ótæk vinnubrögð, verð ég að segja, virðulegi forseti, og vegna þess að það er auðvitað augljóst mál að bæði við þessar aðstæður og þó fyrr hefði verið flutt að þá kallar þetta mál á verulegar umræður. Tíminn til verulegra umræðna er óneitanlega talsvert minni núna en hann var t.d. fyrir fáeinum vikum, ég tala ekki um í upphafi haustþingsins eftir að hléi lauk í byrjun október.
    Á þskj. 446 flyt ég brtt. ásamt hv. þm. Ragnari Arnalds þar sem gert er ráð fyrir því að hanna húsnæði fyrir heimavist fyrir Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki og ljúka byggingarframkvæmdum á árinu 1993 þannig að það verði flutt í svokallað bóknámshús skólans það haust og byrjað jafnframt á heimavistarhúsnæði. Hér

er um afar stórt mál að ræða, þýðingarmikið hagsmunamál fyrir skólasamfélagið á Íslandi og auðvitað byggðarlagið, Sauðárkrók og Norðurland vestra. Ég legg á það mikla áherslu að tillagan verði skoðuð af fullri alvöru, einkum og sér í lagi það ákvæði hennar sem lýtur að spurningunni um að hefja hönnun á heimavistarhúsi fyrir þennan skóla.
    Á þskj. 448 flyt ég brtt. ásamt öllum öðrum þingmönnum Alþb. þar sem gert er ráð fyrir því að verja viðbótarupphæð til farskóla Kennaraháskóla Íslands. Mig minnir að í fjárlagafrv. séu 12 millj. kr. í þessu skyni. Út á það hafa verið teknir inn í farskólann nemendur en samkvæmt upplýsingum sem ég hef og komu fram í svari hæstv. ráðherra við fsp. minni fyrir nokkru, þá kostar kennsla hvers nemanda í þessum skóla aðeins 250 þús. kr. á ári eða á árinu 1993. Ég geri sem sagt tillögu um 5 millj. í viðbót í farskóla Kennarháskóla Íslands. Hér er um að ræða mjög mikilvægt hagsmunamál fyrir landið allt. Ekki bara fyrir landsbyggðina, eins og það er yfirleitt orðað, heldur fyrir landið allt og þjóðina í heild og væri vissulega mikill fengur að. Um leið vil ég nota tækifærið til að segja að ég fagna því að það hefjist kennaranám við háskólann á Akureyri næsta haust. Mér fundust þó dálítið skrýtnar fréttirnar af því í fjölmiðlum, sérstaklega þar sem var sagt að þarna ætti að kenna kennurum sem væru sérstaklega til þess fallnir að kenna á landsbyggðinni. Mér er satt að segja ekki kunnugt um að fólk sem er á landsbyggðinni þurfi aðra fræðslu en við í þéttbýlinu. Ég vil leggja á það áherslu um leið og ég fagna þessari ákvörðun. Ég er sannfærður um að hæstv. ráðherra er sammála mér um að kennaranám við Háskólann á Akureyri á ekki að vera neitt annars flokks nám, þetta á að vera fyrsta flokks nám. Þetta á ekki að vera annars flokks kennaranám af neinu tagi.
    Vík ég þá, virðulegi forseti, að tillögum sem ég flyt og lúta sérstaklega að heilbrrn. Þá fyrst á þskj. 441 sem ég flyt ásamt hv. 1. þm. Norðurl. e., Guðmundi Bjarnasyni, og snúa að rekstri Ríkisspítalanna.
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að það verði aukið við fjármagn til áfengismeðferðar á Vífilsstöðum svo sú starfsemi sem þar hefur verið geti haldið áfram óbreytt. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvort það er ekki rétt skilið hjá mér að þetta mál sé til meðferðar milli 2. og 3. umr. Upplýsingar sem ég hef um það eru úr nál. meiri hlutans í hv. fjárln. Það er mikilvægt að vita hvort ætlunin er að taka á þessu máli milli 2. og 3. umr. Hér er auðvitað um að ræða mikilvægt mál.
    Í öðru lagi flyt ég hér ásamt hv. þm. Guðmundi Bjarnasyni tillögu um að leggja 20 millj. kr. í viðbót í rekstur Kristness. Ég færi þá tillögu undir Ríkisspítalana. Það ber ekki að skilja þannig að ég hafi neitt að athuga við það að rekstur Kristness verði fluttur yfir á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sem samkomulagsdrög munu liggja fyrir um. Mér er ljóst að það verður mjög erfitt, svo ekki sé meira sagt, að tryggja það að rekstur Kristness fari yfir á Fjórðungssjúkrahúsið frá og með áramótum sem eru eftir 20 daga. Það er ljóst að þarna þarf að gera breytingar á vissum þáttum sem eru með þeim hætti að þær taka langan tíma. Þarna ber auðvitað að sýna öllu starfsfólki og hlutaðeigandi aðilum fulla virðingu. Það verður ekki gert nema með því að hlutirnir fái að taka eðlilegan tíma, nokkra mánuði inn á árið 1993. Hér er sem sagt gert ráð fyrir því að bæta þarna nokkru við í rekstrarfé. Mér er sagt að þeir Kristnesmenn telji að það þurfi talsvert miklu hærri upphæð í viðbót en hér er gerð tillaga um og ég skil það út af fyrir sig vel. Það er satt að segja dálítið umhugsunarefni hvernig að þessum málum hefur verið staðið í Kristnesi, ekki bara núna heldur um langt árabil. Menn hafa verið að byggja mikið upp, ekki bara hús heldur líka vonir. Þarna er gríðarlega myndarlega að hlutunum staðið og af miklum metnaði. Til þess að tryggja að svona hús séu starfrækt þarf auðvitað fé í rekstur. Þetta leiðir hugann að hinni almennu stefnumótun í heilbrigðismálum og öðrum málum þar sem menn ættu að hafa vit á því á Alþingi að koma sér upp þeirri vinnureglu og setja það í lög og skrá það í lögbókina að fjárlög, rammafjárlög, séu sett til nokkurra ára í senn, að menn séu ekki að breyta hlutum frá ári til árs, skapa stöðuga óvissu, vekja vonir sem ekki er hægt að standa við o.s.frv.
    Varðandi áfengismeðferðina hef ég tekið eftir því í fjölmiðlum að hæstv. heilbrrh. mun hafa gert eða er að gera samkomulag við SÁÁ um að SÁÁ taki við frá áramótum 1994, hefur mér skilist, rekstri þeirra heimila sem SÁÁ er með og SÁÁ beri á þeim fulla ábyrgð. Það getur auðvitað ekki verið að heilbrigðisþátturinn verði á ábyrgð neins annars en heilbrrn. en að reksturinn verði á ábyrgð SÁÁ. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvort það er rétt að svona samkomulag hafi verið gert. Ég vil segja það líka í þessu sambandi að ég tel að það kæmi vel til greina að gera svona samkomulag við fleiri ef sæmilega er að þessu staðið, t.d. við ríkisstofnanirnar líka. Af hverju mega t.d. ekki Ríkisspítalarnir taka að sér að veita tiltekna þjónustu fyrir tiltekna peninga og gera um það samning við heilbrrn. eða fjmrn. eða ríkisstjórnina eftir atvikum, rétt eins og gerður var samningur um fjölgun hjartaskurðaðgerða á þessu ári á Landspítalanum. Í tengslum við þetta SÁÁ-mál vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra: Er þá gert ráð fyrir því í þessum samningi að áfram verði rekin sú starfsemi í grófum dráttum sem nú er á vegum SÁÁ? Ég er kannski ekki síst að hugsa um meðferðarheimilið að Staðarfelli vegna þess að það munu hafa verið uppi hugmyndir um að leggja það niður og vegna þess að hér er flutt tillaga á þskj. 461 frá hv. þm. Ingibjörgu Pálmadóttur þar sem gert er ráð fyrir því að það verði heimilt að afhenda Samtökum áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann (SÁÁ) til eignar eftirtaldar eignir sem þau hafa nú til afnota að Staðarfelli í Dölum: Gamla skólahúsið, kennaraíbúðir, tvö hús, kyndi- og rafstöðvarhús. Ég er satt að segja þeirrar skoðunar að þessi tillaga sé algjörlega fráleit vegna þess fyrst og fremst að það er óeðlilegt með öllu að samtök af þessu tagi fari að yfirtaka þennan stað eða aðra slíka staði vegna þess að í slíkum samtökum geta auðvitað orðið breytingar, bæði rekstrarlegar og faglegar, og engin ástæða til að samtökin eigi þennan stað heldur er eðlilegt að gerður sé samningur við þau um rekstur á þessum stað, kannski til tíu ára í senn. Eignarhald og afhending er algjör fjarstæða að mínu mati.
    Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Er eitthvert samhengi á milli þessarar tillögu svo hann viti og þeirra hugmynda sem uppi voru um að leggja niður starfsemi meðferðarheimilisins að Staðarfelli í Dölum?
    Mér þykir leitt að þurfa að segja frá því að ég tel mig neyddan til þess að greiða atkvæði gegn þessari tillögu hv. þm., Ingibjargar Pálmadóttur, þegar hún kemur til atkvæða.
    Þá vil ég, virðulegi forseti, víkja að tillögu sem ég flyt ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, 14. þm. Reykv., þar sem gert er ráð fyrir því að leggja fé til að starfrækja á næsta ári hjúkrunarheimilið Eir í Grafarvogi. Það er merkilegt fyrirtæki, á sér merkilega sögu nú þegar, á bak við það er mikill hugur og jákvæður vilji hjá fjöldamörkum félagasamtökum. Kannski er ekki síst merkilegt við þetta heimili hvað það heitir og er fróðlegt að fylgjast með því hvernig mönnum gengur að beygja nafnið á hjúkrunarheimilinu Eir. Hef ég heyrt af því ýmsar útgáfur nú þegar sem mættu verða sérstakt rannsóknarefni fyrir íslenska málnefnd eða aðra væna menn við tækifæri. Hér geri ég ráð fyrir því að settar verði í almennan rekstur á hjúkrunarheimilinu Eir um 100 millj. kr. á næsta ári. Það jafngildir því að þar verði hægt að starfrækja allt árið 30--35 rúm. Af þessu tilefni viljum við í fyrsta lagi fara fram á það við hæstv. heilbrrh. að hann greiði þessari góðu tillögu atkvæði og í öðru lagi spyrja hann að því hvort eitthvað er inni á sjúkratryggingunum til þess að setja í hjúkrunarheimilið Eir eða er eitthvað sem ætlunin er að taka af Framkvæmdasjóði aldraðra til að setja í rekstur hjúkrunarheimilisins Eirar? Ef það er svo, þá hve mikið? Það hygg ég að hafi ekki verið upplýst í umræðunum enn þá og þess vegna tel ég óhjákvæmilegt að nefna þetta við hæstv. ráðherra.
    Ég ætla ekki að fara yfir, sem væri kannski full ástæða til, þann vanda sem blasir við öldruðu fólki á Reykjavíkursvæðinu. Það er hrikalegur vandi og þar sem við sem höfum auðvitað búið við stórfelldan hagvöxt satt að segja þangað til það allra síðasta, á hverju ári hirt happdrættisvinninga fyrir þjóðarbúið upp á milljarða og aftur milljarða skulum láta það um okkur spyrjast að staðan sé enn svo slæm að það séu 150--200 manns sem búi við það sem kallað er brýn þörf hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar fyrir hjúkrunarheimili. Það er okkur til skammar, þessu fólki sem höfum horft upp á hagvöxtinn undanfarin ár og áratugi. Um þetta vil ég sérstaklega spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh.
    Síðan ætla ég aðeins að lokum að nefna eitt, virðulegi forseti, út af því sem hér hefur komið fram í sambandi við framhaldsskólana í Reykjavík og á þéttbýlissvæðinu. Ég tel að það veiti ekki af því að setja fjármuni í það að byggja upp þessa skóla hér. Ég segi það alveg eins og er. Ég skora á þingmenn sem draga það í efa að heimsækja útibú t.d. Menntaskólans í Reykjavík eða koma t.d. eina morgunstund í kennslustund í Menntaskólanum við Sund. Það er of vægt til orða tekið að þar sé drepið í hverja smugu og það er næstum að segja of væg samlíking að tala um að þar sé fólk eins og síldar í tunnu. Það er satt að segja alveg ótrúlegt hvað fólk hefur verið útsjónarsamt og duglegt við að leysa úr flóknum verkefnum framhaldsskólanna í algerlega vonlausu húsnæði, liggur mér við að segja hér á þessu svæði. Ég vil fá að taka það fram, hæstv. forseti, að t.d. í Menntaskólanum á Akureyri er þetta afleitt líka, einkum í gamla skólahúsnæðinu en hér á þessu svæði er það einnig mjög, mjög slæmt og það er mjög brýnt að taka á því og ég tel að það beri ekki að gagnrýna menn fyrir það.
    Ég vil einnig segja að ég tel að það sé mikilvægt að tekist hafi samstarf við Bílgreinasambandið um þennan skóla í Grafarvogi. Það hefur lengi staðið til að koma upp slíkri samvinnu. Ég hef auðvitað áhyggjur af því hvernig það þróast frá almennu skólapólitísku og uppeldislegu sjónarmiði og ég segi það með fullri virðingu fyrir vinum mínum sem að þessu Bílgreinasambandi standa og Guðmundi Hilmarssyni og fleiri snillingum í Félagi bifvélavirkja að ég tel ekki að þessi samtök eigi endilega að ráða skólastarfinu í einstökum atriðum en það á auðvitað að virkja atvinnulífið með skólunum og það á að nota þetta tækifæri úr því að þeir bjóða fram hjálp í þeim efnum. Það á að nota þetta tækifæri og reyna að þróa þetta upp í eðlilega samvinnu skólanna og atvinnulífsins og mér sýnist satt að segja ekki af veita. Það er nauðsynlegt að gera það. Ég get nefnt mörg dæmi því til sannindamerkis en kannski er þing Alþýðusambands Íslands alveg sérstaklega glögg heimild um að menn þurfa að tala saman milli skóla og atvinnulífs og vil láta ræðu minni að sinni lokið um þau mál með því að hvetja til þess að áhugi Alþýðusambandsins í skólamálum verði einnig nýttur í þágu þeirra hér í framtíðinni.
    Virðulegi forseti. Ég hef lagt hér fram nokkrar fyrirspurnir til tveggja hæstv. ráðherra jafnframt því sem ég hef mælt fyrir brtt. sem ég flyt hér ásamt nokkrum öðrum þingmönnum Alþb.