Fjárlög 1993

78. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 01:19:47 (3325)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það var ætlun mín þegar ég skráði mig á mælendaskrá fyrir allnokkru síðan, snemma dags þegar umræðan var að hefjast, að mæla fyrir nokkrum brtt. sem ég flyt ýmist einn eða ásamt fleiri þingmönnum. Í nokkrum tilvikum ætlaði ég að mæla fyrir tillögum sem ég er meðflm. að ásamt fleiri félögum mínum úr þingflokki Alþb.
    Einnig hafði ég hug á því að nefna lítillega ein tvö til þrjú málefni við fjárlagaafgreiðsluna, svo sem eitt sem heyrir undir hæstv. heilbrrh., sem var viðstaddur fyrr í kvöld, en ef hæstv. ráðherra er horfinn á braut og með tilliti til þess að það er nokkuð áliðið og hvíldartími manna af skornum skammti þá mun ég ekki gera kröfur um að hæstv. heilbrrh. verði ræstur út. Ég treysti því að hann noti tímann vel og hvílist og safni kröftum og komi vitrari til þingstarfa á nýjan leik, því ekki veitir af að hæstv. heilbrrh. haldi vel hugsun sinni þessa dagana ef marka má ýmislegt sem frá honum hefur komið.
    Ég ætlaði satt best að segja að ræða lítillega málefni Kristnesspítala og e.t.v. sakar ekki þótt hæstv. heilbrrh. sé fjarstaddur ef hæstv. fjmrh. er nærri, sem á að þekkja málefni þeirrar stofnunar sæmilega og fer að sjálfsögðu með fjárveitingar til þeirrar starfsemi eins og önnur fjárveitingamál ríkisins.
    Einnig er það svo, hæstv. forseti, að ég hefði gjarnan viljað segja fáein orð um málefni sem heyra undir hæstv. landb.- og samgrh., báða málaflokka hans. Annars vegar efndir hæstv. ríkisstjórnar á búvörusamningi, sem eru nokkuð í skötulíki, og sömuleiðis fáein orð um vegamál og tala þar jafnframt fyrir brtt. sem við þingmenn Alþb. flytjum í báðum þessum tilvikum.
    Með tilliti til aðstæðna mun ég stytta nokkuð mál mitt miðað við það sem hefði e.t.v. hefði ella orðið við hagstæðari aðstæður. Það er nokkuð umhendis að vera að ræða mikið við fjarstadda menn og 3. umr. fjárlaga eftir og má vel vera að þá gefist betra færi á því að ræða við þá sem ræða þarf við um þessi mál. Þó er það nokkur galli ef maður á að trúa því á annað borð að það hafi eitthvað upp á sig að rökræða þessi mál á hinu háa Alþingi að neyta ekki færis við 2. umr. því óneitanlega er það vinnulag betra að menn geti tekið sér tíma milli 2. og 3. umr. til að skoða álitamál, ef einhver minnsti vilji er fyrir hendi til þess að láta sjónarmið mætast varðandi fjárveitingamálefni. Sumt af því sem þingmenn bera fyrir brjósti eru ekki endilega stórfelld útgjaldamál, um getur verið að ræða minni háttar lagfæringar á smáliðum sem menn bera nokkuð fyrir brjósti. Í slíkum tilvikum verður mönnum stundum á að höfða til sanngirni og raka og manni liggur við að segja til betri manns þeirra sem viðstaddir eru.
    Fyrst, hæstv. forseti, vil ég nefna brtt. sem flutt er af okkur öllum hv. þm. Alþb. og er á þskj. 445 og varðar tvo stóra tekjuuöflunarliði fyrir ríkissjóð og einn útgjaldalið. Þar er á ferðinni útfærsla á tillögum okkar um sérstaka fjáröflun í ríkissjóð til að standa straum af átaki til atvinnuaukningar.
    Eitt af því sem hæstv. ríkisstjórn hefur í raun og veru gefist upp við og ekki varð að endingu í tillögum hæstv. ríkisstjórnar svo neinu marktæku næmi eru einhverjar raunhæfar aðgerðir til að taka á versnandi atvinnuástandi og skapa hér ný störf. Ríkisstjórnin kynnti að vísu fyrr á þessu hausti ákvarðanir um nokkuð auknar framkvæmdir í vegagerð sem reyndust þegar á daginn kom ekki ýkja mikil aukning því þær voru frá þeim mikla niðurskurði sem þá var þegar ákveðinn. Vissulega skapast við þetta einhver störf frá því sem ella hefði orðið en þau munu lítt duga til að leysa þann mikla aðsteðjandi vanda sem atvinnuleysið er.
    Við flytjum því á þskj. 445 brtt. um að lagður verði á sérstakur hátekjuskattur, samkvæmt tillögum sem við höfum útfært í okkar stefnu, sem gefi 1,6 milljarða kr. á næsta ári. Sömuleiðis verði fjármagnstekjur skattlagðar þannig að það skili 2.000 millj. í ríkissjóð og 3 milljarðar af þessu fé verði notaðir til atvinnuátaks. Það sem eftir stendur af tekjuaukningunni má þá jafna á móti þeim brtt. öðrum sem við flytjum, m.a. til þess að tryggja fullar efndir á búvörusamningnum og forða því stórslysi að hæstv. ríkisstjórn eða hv. Alþingi vanefni þannig búvörusamninginn að bótaskylda geti skapast hjá ríkinu af þeim sökum. Enginn vafi er á því að búvörusamningurinn er löggerningur af því tagi með staðfestingu á Alþingi að réttur bændanna sem ákveðið hafa að haga framleiðslu sinni í samræmi við ákvæði samningsins er ótvíræður og þess vegna er þörf á því að sjá fyrir fjármunum til að standa við samninginn.
    Tímans vegna hef ég ekki fleiri orð um þessa brtt. á þskj. 445 en taldi nauðsynlegt að byrja á henni þar sem hún er annars vegar sprottin af áherslum okkar í efnahags- og atvinnumálum sem við þingmenn Alþb. höfum kynnt og hins vegar er henni ætlað að fjármagna með þessum hætti þær útgjaldatillögur, sem eru nokkrar, sem við hv. þingmenn Alþb. flytjum. Á undanförnum árum höfum við sem stjórnarandstæðingar staðið að tillöguflutningi af þessu tagi, a.m.k. hin síðari ár, gert það með þeim ábyrga hætti að við höfum jafnt því að flytja tillögur til hækkunar, flutt tillögur til fjáröflunar á móti og mættu fleiri taka sér það til eftirbreytni.
    Ég vil þá fyrst, hæstv. forseti, víkja að tillögu okkar þingmanna Alþb. á þskj. 454 sem lýtur að því að efna búvörusamninginn. Fyrir liggja ótvíræð gögn sem sanna að núverandi fjárlagafrv. í óbreyttri mynd sinni dugar ekki til þess að uppfylla ákvæði þess samnings. Þar vantar verulega upp á og við höfum flutt tillögur til úrbóta á því þar sem eru á ferðinni nokkrir stærstu liðirnir, þó ekki þeir liðir þar sem álitamál má telja hvort í fjárlagafrv. sem slíku felist beinlínis vanefndir eða brot á samningnum.
    Fyrsta tillagan gengur út á það að talsvert verði lagt af mörkum til þess að uppfylla ákvæði bókunar um átak í landgræðslu og skógrækt sem hafi það sérstaklega að markmiði fyrir utan auðvitað úrbætur á þessu sviði að skapa bændum störf og fólki í sveitum landsins í tengslum við þann samdrátt í hefðbundinni framleiðslu sem nú stendur yfir. Við leggjum til að 150 millj. kr. komi á liðinn Skógrækt og landgræðsla, ýmis verkefni, sérmerkt þannig að það verði nýr liður: Til landgræðslu- og skógræktarverkefna samkvæmt bókun búvörusamnings. Er þá átt við samninginn frá vorinu 1991 og bókanir um þetta efni sem honum fylgja.
    Í öðru lagi þarf augljóslega að leggja Jarðasjóði til meira fé á fjárlögum næsta árs en frv. gerir ráð fyrir til þess að staðið verði við þau fyrirheit í búvörusamningi að sjóðurinn hafi nægilega fjármuni handa í millum til að kaupa jarðir bænda sem hætta vilja búskap og ekki eru seljanlegar með öðrum hætti. Við leggjum til að í stað 115 millj. undir liðnum Jarðasjóður og jarðeignir ríkisins komi 165 millj.
    Í þriðja lagi leggjum við til að uppfyllt verði ákvæði samningsins um 300 millj. kr. á ári í Framleiðnisjóð landbúnaðarins. Til þess þarf að hækka fjárveitingu samkvæmt frumvarpi um 50 millj. Hér er engu að síður um verulegan sparnað að ræða fyrir ríkissjóð frá því sem var á tíma fyrri búvörusamnings en þá hefðu runnið, miðað við þær viðmiðanir sem þá giltu, líklega milli 600 og 700 millj. kr. í Framleiðnisjóð ef fyrri samningi hefði verið fylgt. Það vantar 175 millj. kr. á liðinn Uppgjör birgða samkvæmt búvörusamningi að mati Ríkisendurskoðunar og við leggjum til að sú fjárhæð bætist við þann lið.
    Þá kem ég að síðasta tölulið brtt. á þskj. 454. Þar er fjallað um liðinn Sérstakar greiðslur í landbúnaði. Þau ótíðindi hafa gerst að ríkisstjórnin hefur komið illilega á bak þeim greinum landbúnaðar sem hafa ekki náð samningum við ríkisvaldið um framleiðslumál sín. Með því að stórlækka endurgreiðslur niður í 260 millj. er verið að leggja nær fullan virðisaukaskatt á framleiðslu nauta-, svína-, hrossa-, og alifuglaafurða. Matarskatturinn er kominn í um 20% miðað við þessar fjárveitingar samkvæmt frv. og mun enn aukast ef hæstv. ríkisstjórn lækkar enn þessa tölu eins og heyrst hefur að hæstv. landbrh. hafi fallist á. Þetta er auðvitað fullkomlega óþolandi útkoma, bæði sökum þess að verið er að raska mjög jafnvægi milli þessara greina sem a.m.k. þolanleg sátt hefur ríkt um á undanförnum árum. Þarna er verið að svíkja með öllu þau fyrirheit að skattlagning á helstu greinar innlendrar matvælaframleiðslu sé hófleg eða ekki meiri en 12--14% eins og verið hefur undanfarin ár. Sömuleiðis mun það vera áform hæstv. ríkisstjórnar að afnema með öllu greiðslur til lífeyrissjóðs bænda vegna þessara greina, þeirra sem ekki eru umsamdar samkvæmt búvörusamningum. Það hlýtur auðvitað að verða talsmönnum þessara greina landbúnaðarins ærið umhugsunarefni hvort þær eigi einar að axla niðurskurð hæstv. ríkisstjórnar eins og hann beinist að landbúnaðinum, sökum þess að búvörusamningar sem náðst hafa fyrir kindakjöts- og mjólkurframleiðsluna tryggja mun betur stöðu þeirra greina.
    Að mínu mati er þetta alveg forkostuleg aðgerð, óhemjuvitlaus aðgerð og ranglát, mun valda mikilli úlfúð innan landbúnaðargeirans, hlýtur nánast að kosta styrjaldarástand milli þessara búgreina og að mínu mati einnig óskynsamleg vegna þess að þetta eru þær greinar sem líklegastar myndu verða til þess að mæta samkeppni af ýmsu tagi við aðrar matvörur, bæði innlendar sem erlendar og yrðu þess vegna fyrstar til að verða fyrir barðinu á slíku. Það er alveg ljóst að á undanförnum árum hefur ekki síst verið horft til hagræðingar í þessari framleiðslu og möguleika á að lækka matvælaverð með hagræðingu og bættri framleiðni á þessu sviði landbúnaðarins. Með svona framgöngu af hálfu ríkisvaldsins er öll slík viðleitni gerð að engu.
    Ég held að alveg óhjákvæmilegt sé, hæstv. forseti, að minna menn á það að engin ein grein fjárlaganna, enginn einn fjárlagaliður færir ríkissjóði í þessu frv. jafnmikinn sparnað miðað við útgjöld fyrri ára og einmitt landbúnaðurinn. Það væri fróðlegt og hollt fyrir ýmsa hv. þm., ekki síst úr Alþfl., sem geisa mikið um útgjöld til landbúnaðarmála, að átta sig á því að það átak sem gert hefur verið í þessum efnum á undanförnum árum og sérstaklega í tíð fyrri ríkisstjórnar er nú að skila ríkissjóði upp undir þriggja milljarða sparnaði milli ára. ( Gripið fram í: Hvaða þingmenn eru þetta?) T.d. hæstv. utanrrh. sem lengi hefur haft lítið vit á landbúnaðarmálum eins og þjóðin veit. Enn er hæstv. utanrrh. að tala um þessi mál eins og útgjöld til landbúnaðarins séu sérstakt og vaxandi vandamál, en staðreyndin er sú að þarna er á ferðinni sú grein sem hefur tekið langmest á sig í formi niðurskurðar og samdráttar hvað ríkisútgjöldin snertir. Þess vegna kemur það auðvitað úr hörðustu átt og er fráleit pólitík, ef svo má að orði komast, hagsmunagæslumanna ríkissjóðs að standa þá ekki við sinn hlut af samningum sem á næsta ári og komandi árum er að skila ríkissjóði stórbættri stöðu í stórlækkuðum útgjöldum. Ég verð að segja alveg eins og er að gangi þessar vanefndir á búvörusamningnum eftir þá held ég að bændum sé engin önnur leið skilin eftir en að stefna ríkinu og sækja rétt sinn að lögum. Það hlýtur að enda þannig, þolinmæði bænda er að vísu mikil og þeir eru seinþreyttir til vandræða eins og reynslan sýnir og þoldu til að mynda við afgreiðslu fjárlaga á síðasta ári að vísir að þessari sömu aðferð, að brjóta samninginn, lét á sér kræla þegar fresta átti tveimur mánuðum af beingreiðslum bænda og færa þær yfir áramót. Að vísu var fallið frá því en þetta var engu að síður ætlunin samkvæmt gildandi fjárlögum, en ég hef enga trú á því að umbjóðenda sinna vegna gætu samtök bænda eða einstakir bændur þolað þessa framkomu ef hún gengur eftir og það hlytu að verða málaferli strax eftir áramótin þar sem annaðhvort samtök bænda með umboði frá einstökum þolendum eða bændur sem einstaklingar og þá í formi einkamáls stefndu ríkisvaldinu fyrir þessi svik.
    Þegar það liggur fyrir, bæði í áliti ríkislögmanns og í úttekt Ríkisendurskoðunar fyrir fram, að um brot á búvörusamningnum yrði að ræða þá er það með ólíkindum ef Alþingi ætlar að loka málinu þannig. Getur Alþingi Íslendinga látið sér sæma að loka fjárlagafrv. þannig að fyrir liggi lögfræðilegt álit ríkislögmanns og úttekt Ríkisendurskoðunar og hvort tveggja sé samdóma um það að afgreiðsla fjárlagafrv. með þessum hætti myndi brjóta samninginn, þann löggerning sem ríkið hefur gert, staðfest með undirskrift ráðherra, og leitað eftir samþykki á þingi og Alþingi sjálft hefur samþykkt? Í hvaða stöðu er Alþingi sem samþykkt hefur samninginn, ekki bara í einum lögum, heldur líklega í þrennum lögum á síðasta ári? Í hvaða stöðu er það að lenda ef það ákveður svo með eigin fjárlagafrv. að brjóta þennan bindandi löggerning? Ég held að það sé ákaflega neyðarleg staða og niðurlægjandi fyrir Alþingi svo ekki sé meira sagt. Ég vil því hvetja hv. þm. að hugsa þetta ekki bara út frá því að þetta sé vandi ríkisstjórnarinnar, það er auðvitað ekki svo, því miður. Þetta verður að áfalli og álitshnekki okkar alþingismanna allra ef þingið vinnur með þessum hætti að málinu. (Gripið fram í.) Það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þingflokksformanni Alþfl. að Ríkisendurskoðun er svo sem ekkert heilög stofnun og henni getur yfirsést eins og öðrum, en ég held að í þessu tilviki séu málin það skýr að það sé ósköp einfaldlega engin von til þess að önnur útkoma komi, hvorki úr skoðun hjá Ríkisendurskoðun, ríkislögmanni né annars staðar. Málið er gjörsamlega borðleggjandi fyrir hvaða dómstóli sem er. Ég held að íslenskir bændur gætu jafnvel ekki tapað þessu máli fyrir dómstólum í Tyrklandi, svo vitnað sé til réttarfarsins þar.
    Hæstv. forseti. Ég hef ræðu mína um búvörusamninginn ekki lengri. Á sínum tíma töluðu ýmsir, m.a. úr

þingliði stjórnarflokkanna, mikinn gegn búvörusamningnum og töldu óhjákvæmilegt að gera verulegar bætur á honum bændum í hag áður en hann yrði að löggjöf landbúnaðarins, en í tíð núverandi ríkisstjórnar er sótt að honum. Þannig hafa hlutverkaskiptin orðið, hæstv. forseti, eins og stundum vill verða í pólitíkinni. Ég er ekkert að lasta það. Helsta haldreipi hv. formanns landbn., 3. þm. Austurl., Egils Jónssonar, er búvörusamningurinn í vörninni fyrir landbúnaðinn sem hann mun ekki hafa farið um mjög hlýlegum orðum á framboðsfundum í Hornafjarðarhéraði vorið 1991. ( ÖS: Hver er skoðun varaformanns landbn.?) Nú veit ég ekki mikið um það hvernig þankagangur hv. varaformanns landbn. er. Það er að sönnu mikilvægt embætti og eru einhverjar mestu vegtyllur sem Alþfl. hefur lengi haft í landbúnaðarmálum og jafnvel frá upphafi vega fyrir utan það stutta tímabil sem þótti fréttnæmt meðan Bragi Sigurjónsson, hv. þáv. þm., varð landbrh. Man ég að ýmsum frændum mínum, framsóknarmönnum í Þingeyjarsýslum þóttu það allveruleg tíðindi þegar alþýðuflokksmaður var orðinn landbrh. En ég fer ekki nánar út í þá sálma af hlífðarsemi við hv. 17. þm. Reykv.
    Hæstv. forseti. Ég ætlaði þá næst að taka tillögu sem tengist þessum landbúnaðarmálum og er flutt af hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni ásamt mér, er á þskj. 455 og varðar fjárveitingar til skógræktarverkefnisins á Fljótsdalshéraði, sem nefnast Héraðsskógar. Því miður ætlar hæstv. ríkisstjórn ekki á þessu sviði frekar en svo mörgum öðrum að standa það sómasamlega að málum að hægt sé að segja að hún standi við gerða samninga. Héraðsskógaverkefnið byggir á sérstökum lögum sem samþykkt var einróma á Alþingi fyrir um þremur árum. Í þeim lögum er gert ráð fyrir bindandi samningum við bændur um þátttöku í því skógræktarverkefni. Tugir slíkra samninga hafa verið gerðir og ef ekki er séð fyrir nægjanlegum fjárveitingum stofnast þeir samningar í hættu. Það var mat skógræktarátaksins þegar sótt var um fjárveitingar á fjárlögum næsta árs, að um 58 millj. kr. þyrfti til að efna sómsamlega alla þá samninga sem gerðir höfðu verið eða í undirbúningi voru og fjármagna verkefnið að fullu. Í fjárlögafrv. er því miður ekki gert ráð fyrir nema 47 millj. og 600 þús. kr. Nú mun að vísu hv. meiri hluti fjárln. leggja til nokkurra milljón króna aukningu á þessum lið, en þó ekki nóg til þess að ná upp í þær 58 millj. sem til þarf. Mun þar vanta um 7 millj. upp á ef eingöngu brtt. meiri hlutans nær fram að ganga. Við leggjum þess vegna til að þetta verði hækkað í 58 millj. þannig að efna megi skuldbindingar og fyrirheit samkvæmt þessu verkefni sem ég held að að flestra dómi sem eitthvað til þekkja sé afar mikilvægt, er fyrsta alvöru skógræktarverkefnið á Íslandi sem er með því sniði og af þeirri stærðargráðu að hægt sé að kalla það eiginlegt nytjaskógaverkefni. Reynslan sýnir að á Fljótsdalshéraði eru skilyrði fyrir hendi til þess að rækta nytjaskóg, Guttormslundur stendur sem óhrekjandi vitnisburður um að það er hægt og miklar vonir eru bundnar við þetta verkefni, ekki bara af íbúum þessa svæðis heldur meðal skógræktaráhugafólks um allt land.
    Ég vil þá, hæstv. forseti, næst taka brtt. sem við flytjum þrír hv. þm. á þskj. 443, það er ásamt mér Hjörleifur Guttormsson og Jóhann Ársælsson. Brtt. er um að hækkaðar verði eða bætt við fjárveitingum til Ferðamálaráðs sem lúti að því að gera úrbætur á fjölsóttum ferðamannastöðum. Sömuleiðis fái Náttúruverndarráð hliðstæða aukningu til ráðstafana í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum og hækki því fjárveiting Náttúruverndarráðs úr 27 millj. og 700 þús. kr. í 33 millj. 700 þús. kr. Ferðamálaráð fái hins vegar nýjan lið upp á 10 millj. í þessu skyni.
    Ég held að öllum sem til þekkja beri saman um það að hreint neyðarástand ríkir á allmörgum stöðum sem vinsælir eru af ferðamönnum. Mætti þar nefna ýmsar perlur, svo sem jarðhitasvæðið á Hveravöllum og fleiri slík svæði.
    Því miður er svo að skipulag þessara mála er afar ófullkomið hjá okkur Íslendingum. Umsjón staðanna er í höndum mismunandi aðila, sums staðar eru það ferðafélögin, annars staðar Ferðamálaráð, í þriðja tilvikinu e.t.v. stjórnir þjóðgarða eða Náttúruverndarráð og í fjórða tilvikinu því miður enginn. Allmörg svæði hafa þannig orðið algjörlega út undan í þessu skipulagi, ef skipulag skyldi kalla. Dæmi um slíkan stað er umhverfi Dettifoss. Þar hefur ríkt hreinasta upplausn gagnvart því hver skuli sinna lágmarksgæslu og lágmarksúrbótum á því svæði og er varla hafandi eftir úr ræðustól á Alþingi það neyðarástand sem skapast hefur varðandi lágmarksumhirðu og hreinlætismál og annað því um líkt á þeim slóðum og því miður á fjölmörgum öðrum stöðum í landinu. Víða eiga í hlut fámennir afskekktir sveitahreppar sem ekkert bolmagn hafa til þess að taka við eða standa undir þjónustu við þúsundir ferðamanna sem e.t.v. streyma inn á slíka afskekkta en vinsæla staði yfir sumartímann. Þetta er hin argasta ómynd svo ekki sé meira sagt, hæstv. forseti, þegar haft er í huga að þessir staðir eru í mörgum tilvikum afar þýðingarmiklir í rekstri ferðaþjónustunnar yfir sumartímann sem eins og margtuggið er, bæði á Alþingi og annars staðar, er ein allra álitlegasta eða kannski segja sumir því miður eina álitlega vaxtargrein okkar í atvinnumálum sem stendur og skilar nú allmyndarlegum upphæðum í formi gjaldeyristekna í þjóðarbúið. Það er þess vegna með ólíkindum ef ekki er hægt að ná um það samstöðu á Alþingi að leggja, mér liggur við að segja, smáaura, tvo til þrjá tugi milljóna, af mörkum af hálfu hins opinbera til að sómasamlega sé hægt að ganga um þessar náttúruperlur, verja þær skemmdum og sjá svo um að ferðaþjónustan geti rekið starfsemi sína á þessum slóðum. Þetta er grein sem skilar 13 milljörðum kr. í hreinum gjaldeyristekjum inn í þjóðarbúið að talið er. Það er ekki mikil fjármálaspeki fyrir eina þjóð að standa svo báglega að málum, fyrir utan reisnina sem í því felst gagnvart umhverfi og náttúru. Við stærum okkur oft af því að hér sé hreint land og fagurt land og ómengað og allt það. Það er argasta öfugmæli því miður eins og nú orðið háttar til af mörgum þessum stöðum.

    Það má kannski ekki segja það upphátt en staðreyndin er sú að hér á þessum næturfundi hljóta menn að þola að heyra sannleikann. Ég tel mig þokkalega dómbæran á ástand þessara mála. Ég hef ferðast um hálendið og fylgst með því í 15--20 ár hvernig ákveðnar viðkvæmar náttúruperlur norðan heiða hafa verið að láta á sjá ár frá ári. (Gripið fram í.) Ég gerði talsvert í minni ráðherratíð, hv. framíkallandi, til þess að bæta úr þessu. Til að mynda hækkuðu fjárveitingar til Ferðamálaráðs verulega milli ára öll árin sem ræðumaður var samgrh. en svo dapurlegt er það nú að síðan þá hafa þær staðið í stað í krónutölu og eiga enn að gera samkvæmt fjárlagafrv. Ég þakka hv. formanni þingflokks Alþfl. fyrir framíkallið sem gaf mér tækifæri til að vekja athygli á góðri frammistöðu minni í þessum málum á sínum tíma. ( ÖS: Ævinlega tilbúinn að gera greiða.)
    Hæstv. forseti. Þá kemur ein lítil tillaga flutt af sömu hv. þm., Hjörleifi Guttormssyni, Jóhanni Ársælssyni og mér. Hún varðar fjárveitingar til Hafrannsóknastofnunar. Þar leggjum við til að nýr liður komi sem nefnist Rannsóknir á hrygningu og klaki þorsks og þar verði 10 millj. kr. fjárveiting lögð af mörkum. Svo ótrúlegt sem það nú er, lygilegt og furðulegt, þegar höfð er í huga öll umræðan um hrun þorskstofnsins og þá óskaplegu erfiðleika sem eru að ganga yfir íslenskt þjóðarbú vegna samdráttar í þorskveiðum, þá er það samt satt að Hafrannsóknastofnun hefur ekki fengið fjárveitingar til þess á undanförnum árum og er ekki ætlað samkvæmt fjárlagafrv. til þess að hrinda úr vör langþráðu verkefni um sérstakar rannsóknir á hrygningu og klaki þorsks. (Gripið fram í.) Þetta er auðvitað með ólíkindum og má kallast árás á hvern sem er, bæði núv. og fyrrv. hæstv. sjútvrh. og fjmrh. Það er auðvitað lygilegt þegar þetta er haft í huga. Hinn mikli spámaður John Pope, sem hæstv. núv. sjútvrh. gróf upp einhvers staðar úti í löndum og er sagður allra manna vitrastur um um þorskrannsóknir (Gripið fram í.) og var á þeirri stofnun sem reyndi á sínum tíma að troða einhverju viti hv. þm. Össur Skarphéðinsson á sviði fiskifræða og líffræði í Anglíu eða hvar það var á Englandi. Pope, þessi mikli páfi, fékk til endurmats allar rannsóknaniðurstöður Hafrannsóknastofnunar og staðfesti þær í grófum dráttum. Hann kom þó með ýmsar ábendingar og ein þeirra var sú að það væri ekki vansalaust hvað veikur fræðigrunnur stæði undir einum þætti í mati þorskstofnsins, afkomu hans. Það væri það sem gerðist á hrygningarslóðinni sjálfri. Það væri hrygning og klak þorsksins sem auðvitað skiptir afar miklu máli. Reyndar er það svo að þetta hafa ýmsir glöggir menn til sjávar talað mikið um á undanförnum árum. Menn furðuðu sig lengi á því t.d. að Hafrannsóknastofnun leit ekki á þá hrygningu þorsks á innfjörðum á Norðausturlandi og sums staðar á Austfjörðum sem heimamenn á þeim slóðum höfðu vitað af áratugum saman. Það var reynt ár eftir ár á mínum heimaslóðum að fá sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar til að koma og fylgjast með klakinu á vorin á víkum Þistilfjarðar en þar sást aldrei maður. Hvers vegna var það? Kenningin var sú að þarna væri engin hrygning og væri einhver hrygning þá skipti hún ekki máli því það kæmust engin seiði upp við þessar aðstæður. Þá spurðu þessir fávísu sjómenn: Hvers vegna er þorskurinn að hrygna þarna? Þeir höfðu þá þekkingu á náttúrufræði að þeir áttuðu sig á því að það var ekki líklegt að náttúran gerði þessi mistök ár eftir ár, áratug eftir áratug og öld eftir öld ef ekkert kæmi út úr því og ég held að þetta sé rétt. Nú loksins eru menn komnir af stað í þessum efnum og Hafrannsóknastofnun hefur mikinn áhuga á því að gera rannsóknir á þessu sviði en hefur ekki fengið til þess fjárveitingar. Hér er flutt tillaga um það. Hv. þm., t.d. hv. 17. þm. Reykv., sem hlýtur að taka mark á þessum merka háskóla sem uppfræddi hann á sínum tíma, gefst nú kostur á því að fylgja þessu áliti eftir.
    Þá vil ég, hæstv. forseti, nefna litla brtt. sem við flytjum, hv. þm. Jóhann Ársælsson og ég, og varðar málefni Vegagerðar ríkisins. Við leggjum til að uppsetningu á þeim lið verði breytt þannig að liðurinn Nýframkvæmdir, liður 10-211 610, hækki úr 2.260 millj. í 2.954 millj. eða um tæpar 700 millj. Þess í stað lækki liðurinn Framkvæmdaátak vegna atvinnumála um sömu upphæð, eða úr 1.800 millj. og niður í 1.106. Það kann í fljótu bragði að sýnast að þetta skipti ekki miklu máli, að Vegagerðin hafi úr sama fé að moða eftir sem áður. Það er rétt en það sem við erum að fara með þessu er að við viljum að Vegagerðin fái að halda sínu fé af sínum tekjustofnum á næsta ári og lántaka hennar lækki sem þessu nemur. Hér er þess vegna á ferðinni krafa um það að þær tæpar 700 millj. kr. sem ríkissjóður ætlar að stela af hinum mörkuðu tekjum Vegagerðarinnar, sem vegalögin kveða skýrt á um að skuli ganga til vegagerðar, fari í þau verkefni og lántökur Vegagerðarinnar lækki sem því nemur. Vanti ríkissjóð meira fé verður hann að taka það að láni en ekki stela því af Vegagerðinni. Það er furðulegt ef geðleysi hv. stjórnarþingmanna er orðið slíkt, manna sem margir hverjir ósköpuðust fyrir ekki mörgum árum út af mun minni skerðingu á tekjum Vegagerðarinnar sem gripið var til í eitt ár þegar við sérlega afbrigðilegar aðstæður var verið að reyna að koma saman fjárlögum rétt fyrir árslok 1988 eftir að ríkisstjórnin hafði liðast í sundur og önnur orðið að taka við. Þá var gripið til þess ráðs að hækka stórlega bensíngjald og ná þannig í viðbótarfé og hluta þess var varið til ríkisútgjalda á því ári. Við það fyrirheit var staðið að sú skerðing stóð aldrei nema þetta eina ár og árin þar á eftir naut Vegagerðin góðs af því að tekjustofnar hennar höfðu verið hækkaðir. Þá ósköpuðust margir hv. þm. Sjálfstfl. yfir þessari aðgerð og höfðu vond orð og mörg um þann sem hér stendur. Þau virðast öll gleymd. Nú á að fara út í miklu verri aðgerð og háskalegri vegna þess að ekki er bara verið að skerða tekjurnar um stórar fjárhæðir heldur verður Vegagerðin skuldsett á móti svo nemur miklum fjárhæðum, eða 1.800 millj. kr. á einu ári og svo á að ganga lengra á þeirri braut á árunum 1994 og 1995. Vita menn hver liðurinn Nýframkvæmdir er? Hann er 2,2 milljarðar. Með öðrum orðum verður skuld Vegagerðarinnar vegna þessa eina árs hátt í heilsársupphæð samkvæmt liðnum Nýframkvæmdir eins og hann

stendur núna í fjárlögunum. Þetta er hroðaleg útkoma fyrir Vegagerðina og þess vegna leggjum við til að þessu verði breytt.
    Hæstv. forseti. Þá vil ég nefna lítillega fremur litla brtt., sem mér er þó nokkuð hugfólgin, á þskj. 456. Þetta er brtt. við liðinn Hafnamál, að við sundurliðun þar og reyndar líka við niðurstöðutölu hafnarframkvæmdanna bætast 6 millj. kr. Sundurliðunin komi í sérstöku yfirliti eða bætist við hið sérstaka yfirlit og orðist svo: ,,12 Árneshreppur, hafnaraðstaða smábáta.``
    Hér er lagt til að varið verði á næsta ári 6 millj. kr. til að bæta hafnaraðstöðu smábáta í Árneshreppi á Ströndum.
    Það má spyrja af hverju þingmaður úr Norðurlandi eystra sé að flytja brtt. um auknar hafnarframkvæmdir í Vestfjarðakjördæmi og það af öllu stöðum í Árneshreppi á Ströndum. (Gripið fram í.) Nei, ástæðan er önnur, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Hún er nefnilega sú að ræðumaður fór í heimsókn í þennan hrepp sumarið 1990 sem þáverandi samgrh. og kynnti sér aðstæður í þar. Það þóttu veruleg tíðindi þar um slóðir. Það hafði ekki gerst alllengi að eintak af því tagi kæmi og gæfi sér tvo sólarhringa til að ferðast um og skoða aðstæður í þessum nyrsta og afskekktasta hreppi landsins að Grímsey frátalinni.
    Eitt af því sem stendur mönnum þar mjög fyrir þrifum er að sú smábátaútgerð sem er auðvitað algjör lífsnauðsyn í þessum hreppi og er uppistaða í tekjuöflun allmargra fjölskyldna og drýgir tekjur annarra býr við ótrúlega lélega hafnaraðstöðu. Sérstaklega á það við um Gjögur en einnig að nokkru leyti um Norðurfjörð og Djúpuvík. Frá þessum þremur stöðum er smábátaútgerð aðallega stunduð í Árneshreppi. Nú eru einstöku bæir þar kannski fyrir utan með sínar heimalendingar.
    Ég held að í því liggi ekki stórir fjármunir fyrir íslenska þjóðarbúið að aðstoða í litlu þessa byggð sem þarna verst og er býsna merkileg fyrir okkur Íslendinga og jafnvel þó víða væri leitað. Staðreyndin er sú að það má allt eins sjá það fyrir sér að hún geti átt allgóða framtíð. Þangað sækir aukinn straumur ferðamanna og smábátaútgerðin hefur dafnað þar vel á síðustu árum. Þar var mokfiskirí fyrir landi á síðasta sumri svo það komst í fréttirnar. Grásleppuútgerð hefur gefið nokkuð vel af sér sökum þess að sóknin er hófleg og þetta liggur allfjarri þeim ofnýttu miðum sem sums staðar annars staðar eru tekin að bila. Það kom mér mjög á óvart þegar ég heimsótti þessar slóðir á sínum tíma að átta mig á því að þangað höfðu nánast engar fjárveitingar af neinu tagi runnið frá hinu opinbera síðustu 10--20 ár eða a.m.k. sáralitlar. Til dæmis hafði þar varla sést vegagerðartæki á öllum þessum langa og lélega vegi svo áratugum skipti. Úr þessu varð nú ásetningur minn að reyna að bæta og ég gat beitt mér fyrir því á þessum tíma þegar sama sumar hófust nokkrar framkvæmdir eða lagfæringar á veginum þarna norður og í framhaldinu var gerð skýrsla á Hafnamálastofnun um hvað hægt væri að gera til að bæta hafnaraðstöðu smábáta. Einhverjar minni háttar fjárveitingar komust svo inn í fjárlög næsta ár þar á eftir sem ég hafði því miður ekki sömu aðstöðu lengur til að fylgja eftir. En nú sýnist mér að samkvæmt þeirri sundurliðun frá fjárln. um hafnarmannvirkin sem er komin að ekki sé ætlunin að veita einni einustu krónu til framkvæmda í þessum hreppi. Það finnst mér lélegt og ég vil því leyfa hv. þm. að eiga kost á því að bæta þarna úr. Ég held því fram að þetta mundi ekki setja ríkissjóð eða landið á hausinn þótt svolitlir aurar yrðu lagðir í þetta verkefni.
    Þá er að lokum, hæstv. forseti, brtt. á þskj. 451 sem ég flyt og varðar liðinn Sjávarútvegsmál, ýmis starfssemi, Sjóvinnukennsla, sjóvinnu- og rannsóknabátur. Sá liður hækki úr þeim 1.200 þús. kr. sem hann er í í frv. í 14 millj. Það er að mínu mati hinn argasti aumingjaskapur að gefast upp við að halda því verkefni úti. Tryggingafé mun vera til til þess að endurnýja þann bát sem með hörmulegum hætti tapaðist á sínum tíma. Á þessu verkefni og rekstri þessa báts hangir ýmislegt fleira svo sem rannsóknaverkefni í Eyjafirði sem báturinn var ætlaður til. Hæstv. fyrrv. sjútvrh. hafði tekið um það ákvörðun að báturinn skyldi vistaður á Akureyri eða á Eyjafjarðarsvæðinu og nýtast vaxandi starfsemi á sviði sjávarútvegsins þar. Ég tel þess vegna að ef menn vilja vera sjálfum sér samkvæmir og hv. Alþingi sem ályktað hefur um Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið sem miðstöð rannsóknar og fræðslu á sviði sjávarútvegs eigi þá að samþykkja þessa tillögu til að unnt sé að standa við þennan þátt þeirra verkefna.
    Hæstv. forseti. Þá er að lokum brtt. sem flutt er af hv. þm. Svavari Gestssyni og Guðmundi Bjarnasyni. Í sjálfu sér er það ekki hlutverk ræðumanns að mæla fyrir henni, það munu þeir annaðhvort þegar hafa gert eða eiga eftir að gera. Ég ætla að leyfa mér að nefna aðeins málefni Kristness því ég held að þar sé á ferðinni eitt af þessum ótrúlegu málum þar sem hæstv. heilbrrh. hefur gengið fram með býsna sérkennilegum hætti svo ekki sé meira sagt. Hæstv. heilbrrh. hefur að vísu þegar komið sér á spjöld sögunnar með þeim hætti að ég hygg að hans verði lengi minnst fyrir ótrúleg afrek liggur mér við að segja, t.d. þegar hæstv. ráðherra komst á sl. vetri að þeirri niðurstöðu að ein helsta okurstofnun landsins væri Hjálpartækjabankinn í eigu Öryrkjabandalagsins og Sjálfsbjargar. Hæstv. ráðherra réðst með offorsi að Hjálpartækjabankanum og skammaði hann fyrir okur. Það var helst á honum að skilja að þessi sjoppa, Hjálpartækjabankinn, hefði verið rekinn í svívirðilegu gróðaskyni um árabil. Hið sanna sem í ljós kom var auðvitað það að Öryrkjabandalagið og Sjálfsbjörg höfðu lagt þessari starfsemi til verulegt fé í upphafi, stutt hana af stað og aldrei tekið krónu út úr þeim rekstri. Ég tek þetta bara sem lítið dæmi, hæstv. forseti, um þau ótrúlegu ,,afrek`` sem hæstv. heilbrrh. hefur unnið í málflutningi af þessu tagi. Ég hygg að það sé leitun á öðru eins.
    Hæstv. heilbrrh. beitti á síðasta ári talsvert þeirri aðferð að ráðast með býsna ósvífnum hætti að einstökum stofnunum, jafnvel einstökum stéttum innan sinnar greinar. Allir muna árásir hæstv. heilbrrh. á Landakotsspítala og St. Jósefsspítala og það sem sigldi í kjölfarið. Nú hefur hæstv. heilbrrh. fundið sér á þessu

ári ný fórnarlömb og beitt sömu aðferðinni sem ég tel vera, hæstv. forseti, svo ég orði hlutina eins og ég meina þá en ekki í hálfkæringi, neðan við allar hellur. Ég hef aldrei síðan ég fór að fylgjast með stjórnmálum heyrt einn ráðherra beita þessari aðferð gagnvart aðilum innan sinnar greinar, þeirrar sem hann á að sjá fyrir samkvæmt lögum.
    Hæstv. heilbrrh. leyfir sér t.d. að misbeita aðstöðu sinni sem yfirmaður heilbrrn. til að koma á framfæri röngum og villandi upplýsingum til að klekkja á viðkomandi stofnun. Ég fullyrði þetta, hæstv. forseti, þó svo heilbrrh. sé farinn að sofa og hér séu ekki margir viðstaddir. ( Gripið fram í: Eigum við ekki að vekja ráðherrann?) Hæstv. heilbrrh. hefur nóg tækifæri til að svara mér og getur lesið þetta í þingtíðindunum. Það er hans sök en ekki mín að hann er ekki viðstaddur umræðuna.
    Ég fullyrði að hæstv. heilbrrh. eða ráðuneyti hans hefur með alveg gjörsamlega óþolandi hætti sent frá upplýsingar sem eru rangar, sem eru villandi, sem eru bersýnilega ósanngjarnar í garð Kristnesspítala að því er virðist til þess eins að veikja fyrir fram varnir þeirrar stofnunar og gera þeim sem vilja efla hag hennar erfitt um vik að verja sig fyrir þeim niðurskurðaráformum sem reyndust vera í farvatninu. Hæstv. ráðherra fór þannig að þessu með Kristnes að hann lét fyrst berast fréttir af því að þar væri óheyrilegur kostnaður á hvert rúm. Það voru sendar út frá ráðuneyti hans upplýsingar sem voru bersýnilega svo ósanngjarnar í garð starfseminnar þar að það getur ekki verið að menn sem eiga að þekkja sæmilega til í heilbrigðismálum hafi gerst sekir um slík mistök nema eitthvað meira en lítið sé að. Þar voru teknar viðmiðanir og settar fram fullyrðingar sem ekki fást staðist. Þegar betur er að gáð er kostnaður á Kristnesspítala eðlilegur með hliðsjón af eðli þeirrar starfsemi sem þar fer fram og þeim aðstæðum sem henni hafa verið skapaðar, m.a. ónógar stöðuveitingar til þess að fullmanna og fullnýta endurhæfingaraðstöðuna þar. Þar fengust skýringar sem meira en duga til þess að sýna að reksturinn á Kristnesspítala er að teknu tilliti til þessa alls síst dýrari en á fjölmörgum öðrum stofnunum. Samanburðurinn var á hinn bóginn gerður við stofnanir sem vegna ónógrar hækkunar á daggjöldum eru nú reknar með bullandi tapi. Það var engu að síður talið boðlegt af hálfu heilbrrn. að nota það sem samanburð til að sanna hversu dýr starfsemin á Kristnesi væri, hún væri þetta miklu dýrari en t.d. starfsemi á öðrum endurhæfingarstofnunum. En það var ekki látið fylgja með að þær væru reknar með miklu tapi. Nei. Menn áttu væntanlega að halda að þar gengi allt skínandi vel og væri bara í fínu lagi. Hvað eiga svona vinnubrögð að þýða? Til hvers eru þau annars en þess sem ég leyfi mér að fullyrða að hafi verið tilgangurinn, og bið menn þá að sanna annað, að brjóta fyrir fram niður varnir stofnunarinnar þannig að hún lægi vel við högginu þegar það kæmi. Þetta verð ég að segja að eru vinnubrögð sem ég tel að engum manni séu sæmandi, jafnvel ekki núv. hæstv. heilbrrh.
    Í raun og veru var nákvæmlega það sama sem hæstv. ráðherra gerði gagnvart SÁÁ. Hverjar voru fréttirnar sem hæstv. ráðherra byrjaði á gagnvart SÁÁ áður en umræðan fór í gang um fjárveitingar til áfengismeðferðarinnar? Hvað var það? Hæstv. ráðherra kom í fjölmiðla og sagði að mikil brögð væru að því að menn væru bara í hressingar- og hvíldardvöl inni á þessum stofnunum. Hver áttu hugrenningatengslin að vera önnur en þau að fá fólk til að hugsa: Það er eitthvað bogið við þessa starfsemi? Þetta er eitthvað skrýtið. Fólk er bara þarna eins og á fínum hótelum og er að hvíla sig. Til hvers er verið að svona löguðu? Ég segi eins og er: Þetta eru vinnubrögð sem ég tel að séu engum manni sæmandi, jafnvel ekki hæstv. núv. heilbrrh. Það er auðvitað sorglegt sem er að koma æ betur í ljós og var rækilega til umræðu á Alþingi í gær að hæstv. heilbrrh. nær engum árangri. Auðvitað ekki. Menn ná ekki árangri með svona vinnubrögðum.
    Ég vil svo að lokum, áður en ég segi skilið við heilbrigðismálin, geta þess að þegar farið er svo yfir málefni Kristnesspítala t.d. kemur í ljós það sem sannast svo víða í framgöngu hæstv. heilbrrh. Það er að hæstv. ráðherra er hvað faglegu hliðina snertir í raun og veru úti að aka. Það eru engin fagleg rök af neinu tagi fyrir hendi til þess að réttlæta þann niðurskurð eða samdrátt í starfseminni á Kristnesi sem fjárlagafrv. boðar. Það er brýn þörf fyrir öll þessi endurhæfingarrúm á Norðurlandi og þó fleiri væru. Staðreyndin er sú að á Norðurlandi, miðað við upptökusvæði Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, ættu að vera um 40 endurhæfingarrúm miðað við fjölda þeirra á suðvesturhorni landsins, þ.e. þegar lögð er saman endurhæfing á Reykjalundi, í Hveragerði og á Grensásdeild Borgarspítala. Þau eru 12 á Kristnesi í dag. Er þá skynsamlegt að leggja þau niður? Það mundu tillögur hæstv. heilbrrh. samkvæmt fjárlagafrv. gera ef ekki tækist að bjarga því við. Staðreyndin er líka sú að Norðurl. e. er fyrir það kjördæmi landsins sem er næst á eftir Reykjavík verst sett með langlegurúm og hjúkrunarrúm. Er þá skynsamlegt að fækka rúmunum þar? Ef Kristnesspítala yrði lokað yrði ástandið á Norðurl. e. verra en í Reykjvík. Hér er samkvæmt norrænum stöðlum neyðarástand hvað varðar fjölda hjúkrunarrýmis miðað við íbúatölu. Eru það faglegu rökin fyrir því að loka Kristnesspítala að það þurfi að skapa neyðarástand líka á Norðurlandi eystra? Hver er svo byggðapólitíkin í því að leggja niður einu endurhæfinguna sem er til utan höfuðborgarsvæðisins? Er það gáfuleg og réttlætanleg stefna? Ég segi nei. Þetta er auðvitað það sem ég tel að fyrir utan vinnubrögð og framgöngu hæstv. heilbrrh., sem öll þjóðin er hneyksluð á, sé verst en það er að hæstv. ráðherra hefur ekkert vit á heilbrigðismálum. Hann virðist ekki hafa hirt um að setja sig inn í grundvallaratriði í þessum málaflokki. Han veður þarna um eins og fíll í postulínsbúð, brýtur og bramlar, rífur niður og skemmir án nokkurrar faglegrar stefnumörkunar eða hugsunar. ( Gripið fram í: Það er gott að hann er sofandi núna.) Ég veit ekki hvernig hæstv. heilbrrh. dreymir en það er ekki mitt að hafa áhyggjur af því. Hæstv. ráðherra vissi að hér voru menn á mælendaskrá og mátti gefa sér það að einhverjir þeirra hefðu hug á að segja við hann

nokkur orð.
    Hæstv. forseti. Ég bind vonir við að þessari atlögu að Kristnesspítala verði hrint með einum eða öðrum hætti. Það er mikill vilji og mikill hugur í mönnum norðan heiða að gera það. Ég ætla þess vegna ekki og hef ekki hugsað mér að hreyfa málefnum spítalans með brtt. við 2. umr. fjárlaga. Ég vil í fyrsta lagi bíða og sjá hver verða afdrif brtt. þeirra hv. þm. Svavars Gestssonar og Guðmundar Bjarnasonar. Ég vil í öðru lagi bíða og sjá hvort eitthvert samkomulag kann að liggja fyrir áður en 3. umr. fer fram um fjárlög milli Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og Kristnesspítala eða Ríkisspítalanna um hugsanlega yfirtöku Fjórðungssjúkrahússins eða sameiningu Kristnesspítala og Fjórðungssjúkrahússins. En ég segi bara að ég mun seint sætta mig við það að fjárlögin verði afgreidd hér endanlega og 3. umr. ljúki án þess að einhver úrlausn fáist í þessu máli. Ég tel það gersamlega óþolandi framgöngu af hálfu hæstv. heilbrrh. og ég sé ekki hvernig í ósköpunum þingmenn sem á annað borð setja sig inn í þetta mál, ég tala ekki um þingmenn af viðkomandi svæði, Austurl., Norðurl. e. og Norðurl. v. sem búa á upptökusvæði Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri geta þolað það að fótunum verði að hluta til kippt undan starfsemi þessa eina deildaskipta og sérhæfða sjúkrahúss landsins utan höfuðborgarsvæðisins með þessum hætti. Auðvitað er ljóst að ef menn rústa þetta niður eru menn ekki bara að loka Kristnesi og hætta endurhæfingu þar. Það hrynur auðvitað grundvöllurinn undan bæklunarlækningadeild á Akureyri með því að engin endurhæfing verður fyrir hendi á svæðinu og það er ekki víst að atlagan stöðvist þar. Er það e.t.v. ætlun hæstv. heilbrrh. að fara þannig með Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri að fótunum verði kippt undan því sem sérhæfðu og deildaskiptu sjúkrahúsi, hinu einu sinnar tegundar utan höfuðborgarinnar og þar með kannski líka því hlutverki sem það hefur samkvæmt almannavörnum og skipulagi átt að gegna sem varasjúkrahús fyrir suðvesturhorn landsins. Ég held að það verði að ræða hlutina eins og þeir eru og í því samhengi sem þeir eru.
    Ég verð að segja eins og er að þó að ég hafi ekki gaman af því mun ég gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að koma í veg fyrir að þetta gangi fram. Ég segi það, hæstv. forseti, ég mun gera það. Það verður þá seint náð fullum sáttum við mig um afgreiðslu mála og lok þinghaldsins fyrir jólin ef þessi ósvinna á að ganga eftir. Það er allt í lagi að skila því til hæstv. heilbrrh. ( ÖS: Þá frestum við jólunum eins og Castro.) Castro bjargaði miklum verðmætum með því á sínum tíma með þjóð sinni að fresta jólunum og ná sykuruppskerunni í hús. Castro var góður bóndi. En sama verður ekki sagt um núv. heilbrrh. Hann hefur örugglega ekki meira vit á landbúnaði en hann hefur á heilbrigðismálum og það er ekki mikið.
    Hæstv. forseti. Ég held ég fari að láta þetta duga. Ég hef nokkurn veginn rakið mig í gegnum þær brtt. sem ég ætlaði að mæla fyrir og nefna þá málaflokka sem mér eru hugleiknir á sviði heilbrigðismála, landbúnaðar- og samgöngumála og nokkra aðra þætti. Auðvitað mætti margt segja um þessi fjárlagamál í almennu samhengi en ég ætla ekki að gera það tímans vegna. Mér sýnist ýmsir fara að verða nokkuð syfjulegir og framlágir eins og t.d. formaður þingflokks Alþfl. þó að hann megi eiga það að hann er nokkuð þaulsætinn við þingstörfin og sinnir sínum þinglegu skyldum betur en margir aðrir.
    Það er nokkurt umhugsunarefni, hæstv. forseti, við hvaða aðstæður fjárlagaumræðan fer fram. Ég var að hugsa um það áðan að það held ég að eigi að verða okkur öllum nokkurt umhugsunarefni, þátttakendunum í umræðunni, hæstv. forsetum, hæstv. ríkisstjórn og ekki síst hv. fjárln. hvernig þetta rekur sig hér í gegnum daginn, kvöldið og nóttina. Menn sem skrá sig á mælendaskrá kannski milli kl. 1 og 2 að deginum komast að þegar langt er liðið á nótt þegar ýmist enginn eða einn ráðherra, tilviljun hver, er viðstaddur, þegar enginn maður eða einn úr hv. fjárln. er í húsinu, hvorki varaformaður, formaður fjárln. né aðrir geta numið þau skilaboð sem hv. ræðumenn eru að flytja eru til þess að fylgjast með. Maður fer auðvitað að spyrja sig að því, til hvers er þá þessi umræða? Hvaða tilgangi þjónar hún? Er þetta kannski allt orðinn misskilningur að það hafi eitthvað upp á sig að flytja brtt., að mæla fyrir þeim, að reyna að færa rök fyrir sínum málstað?
    Ég tel, hæstv. forseti, að þetta eigi að verða okkur öllum nokkurt umhugsunarefni. Menn ættu að skoða hug sinn um það hvort ekki þurfi á komandi árum að tímasetja þetta með öðrum hætti. Þá á ég við bæði umræðuna sjálfa og hvernig henni er hagað og líka hvernig vinnutíma hv. fjárl. er hagað svo þeir menn séu ekki uppteknir á meðan umræðan fer fram og fleira. Ég beini þessu í allri vinsemd til hæstv. forseta og býð honum góða nótt.