Fjárlög 1993

78. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 02:26:04 (3330)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. fer nokkuð á kostum og maður sér það fyrir sér að ef hann væri nokkrum kílóum léttari væri hann efni í ballettdansara, svo fimlega fer hann hér stafnanna á milli í þessum málflutningi. Á annað borðið manar hann stjórnarandstöðuna og brýnir hana á því að hún sé alls ekki nógu hörð af sér og mæti ekki nógu vel og hvar sé nú andstaðan að hér séu ekki fleiri. Það liggur við að maður sjái hv. þm. þannig fyrir sér að hann vilji helst hafa hér umsátursástand. Menn berjist hér með vopnum nánast, a.m.k. með orðum.
    Í hinu orðinu talar hann svo um það að mikilvægar upplýsingar hafi komið fram sem hann þakkar fyrir og vil nú leita sátta og samstöðu um lagfæringar af þessu tagi. Þetta kalla ég skemmtilega fimi að vippa sér svona á milli borðanna. ( ÖS: Það er eðli þingmannsins.) Þetta er eðli þingmannsins upplýsir hv. þm. um sjálfan sig og vel er það.
    Ég get lofað hv. þm. því að ef sú ríkisstjórn sem hv. þm. styður enn, hygg ég, að verulegu leyti, þó ekki öllu frekar en hv. þm. Ingi Björn Albertsson sem hér er nefndur, heldur á spilunum svo sem horfir næstu sólarhringana, þá muni hv. þm. sjá að það er talsvert líf í stjórnarandstöðunni því allt stefnir þetta nú heldur í þá átt úr vondu í verra. Þá mun hv. þm. sjá að stjórnarandstaðan mun rækja sínar skyldur og veita það aðhald sem hv. þm. bað um. ( ÖS: Jafnt í svefni sem vöku.) Ég er út af fyrir sig þakklátur hv. þingflokksformanni Alþfl., og ég vil vekja athygli á því að hér er formaður annars þingflokks stjórnarliðsins að minna okkur í stjórnarandstöðunni á skyldur okkar og hvetja okkur til þess að draga ekki af okkur við það að veita ríkisstjórninni aðhald. Ég tel að starfsbræðrum hv. þm. í þingflokkum stjórnarliðsins hljóti að þykja þetta sömuleiðis þörf ummæli og góð og vel til þess fallin að þingstörfin megi nú ganga eðlilega fyrir sig.