Fjárlög 1993

78. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 02:31:49 (3334)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki rétt að vekja hæstv. ráðherra þó full ástæða sé til að spyrja þá ýmissa spurninga og hv. 17. þm. Reykv. hafi verið að hvetja stjórnarandstöðu til þess. Ég held að það sé þjóðinni fyrir bestu að hæstv. ráðherrar sofi í hausana á sér og það er mitt framlag til forvarna á þessu kvöldi.
    Ég ætla að tala fyrir einni brtt. sem kostar ríkissjóð ekki eina krónu en áður en ég geri það mun ég fara nokkrum almennum orðum um það sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að gera.
    Allar þær mörgu óþægilegu og vitlitlu aðgerðir sem hæstv. ríkisstjórn stendur fyrir í þjóðfélaginu eru gerðar í nafni þess að bæta hér atvinnuástand. Þær kollsteypur sem ríkisstjórnin tók í fyrra á velferð og menntakerfinu voru líka gerðar í því sama tilefni að efla atvinnulífið. Nýir skattar á einstaklinga og fyrirtæki voru til að efla atvinnulífið, niðurskurður í menntakerfinu til að efla atvinnulífið, skattar á sjúklinga til að efla atvinnulífið, þjónustugjöld af öllu tagi voru til að efla atvinnulífið, skattar á sveitarfélög og skattar á sjómenn, allt var þetta til að efla atvinnulífið. Nú eru lagðir skattar á foreldra, sérstaklega einstæða foreldra, og það er örugglega allt til að efla atvinnulífið. Árangurinn sjá allir.
    Hér hefur verið lagt til að leggja 2 milljarða til vegagerðar til að efla atvinnulífið en nú eru komnar upp nýjar tillögur að taka a.m.k. 1 milljarð af þessum 2 út, eflaust líka til að efla atvinnulífið. Svo vitna menn hér til skiptist í ræðum sínum ýmist í litlu gulu hænuna eða Nóbelsskáldið okkar, Halldór Laxness. Það er eflaust líka til að efla atvinnulífið.
    Hv. formaður fjárln., sem er löngu farinn úr húsi, lýsti því yfir fyrr í dag að hann hefði verið í hlutverki litlu gulu hænunnar í fjárln. og trúlega þeir meirihlutamenn sem þar hafa unnið, eflaust til að styrkja og efla atvinnulífið. Menn fara í allra kvikinda líki til að örva og efla atvinnulífið.
    En hver er staðreyndin um atvinnuástandið? Því fer stöðugt hrakandi hér á landi. Því miður er ekkert í sjónmáli sem virðist ætla að breyta því vegna þess að hæstv. ríkisstjórn er sífellt að gera ráðstafanir sem deyfa frumkvæði einstaklinga með nýjum og nýjum uppátækjum sem lama í stað þess að styrkja og skapa. Menn vita aldrei frá degi til dags hvaða ný uppátæki verða á döfinni.
    Hæstv. ríkisstjórn heldur eflaust að virðisaukaskatturinn á bækur og tímarit efli atvinnulífið, efli prentiðnað sem hér er talinn vera með því besta sem þekkist í heiminum. Hæstv. fjmrh. heldur eflaust að hann fá meira í kassann þegar prentiðnaður flyst til útlanda í stórum stíl vegna skattpíningar innan lands. Hæstv. fjmrh., sem er sem betur fer löngu sofnaður, honum veitir ekki af, heldur eflaust að fleiri fái vinnu við blaða- og tímaritaútgáfu þegar kannski tvö dagblöð eru eftir og kannski ekkert tímarit vegna þess að tímarit verða eflaust bara innflutt því það er ekki virðisaukaskattur á þeim.
    Þessar aðgerðir efla ekki atvinnulífið. Íslenska bókaútgáfan mun ekki lifa af virðisaukaskattinn verði hann ekki tekinn í áföngum. --- Ég er mjög ánægð að hv. 17. þm. Reykv. skuli vera kominn hér inn til að hlýða á mál mitt. ( ÖS: Það er hann líka.) Þessar aðgerðir efla svo sannarlega ekki atvinnulífið.
    Hv. þm. hafa talað um í vetur að það þyrfti að auka notkun á innlendri orku og þeir harma að ljósavélar skulu vera í gangi í höfnum vegna þess að rafmagnið sé svo dýrt. Menn hafa harmað það að fyrirtæki kynda jafnvel upp með svartolíu. Það er eldað á gasi á veitingastöðum. Þessir sömu hv. þm. ætla að fara að samþykkja innan tíðar virðisaukaskatt á orku og þessir sömu hv. þm. hafa margsinnis talað um í þessum þingsal að orkuverð sé víðast hvar úti á landi fjórfalt hærra en í Stór-Reykjavíkursvæðinu. Samt á að auka enn á þennan mismun með virðisaukaskatti á orku. Það er sagt að það eigi að niðurgreiða orkukostnaðinn þar sem hann er hæstur en hversu mikið og hve lengi?
    Allar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar eru til mjög skamms tíma. Þeir eru alltaf að skipta um skoðun og alltaf skipta þeir um skoðun til að örva og efla atvinnulífið.
    Þessa dagana hefur hæstv. ríkisstjórn verið að selja aflaheimildir Hagræðingarsjóðs hæstbjóðendum í staðinn fyrir að standa við gefin loforð að bæta þeim upp sem hafa orðið fyrir mestum skerðingum vegna þorskbrestsins. Ef ríkisstjórnin væri að hugsa um að efla hér atvinnulífið, þá hefði hæstv. ríkisstjórn gert það að skilyrði að sá afli sem Hagræðingarsjóður er að selja væri unninn í íslenskum fiskvinnslustöðvum en það eru engin skilyrði þar að lútandi. Ég tel víst að meginþorri þessa afla fari beint út óunninn því að hæstv. ríkisstjórn er bara að hugsa um hámarksgróða og er ekki að hugsa um atvinnu þegar allt kemur til alls.
    Þó að hæstv. heilbrrh. sé löngu sofnaður, þá langar mig að fara nokkrum orðum um heilbrigðismál, enda skilst mér að hv. 17. þm. Reykv. og formaður Alþfl., Jafnaðarmannaflokks Íslands, svari öllum þeim spurningum sem beinast að hæstv. heilbrrh. (Gripið fram í.) Nú hef ég ofmetið hv. 17. þm. Reykv. og trúi ég því að það sé fyrirboði um enn meiri virðingarauka sem hv. þm. á eftir að njóta. Ég hef oft verið forspá. En ég verð að vera sanngjörn gagnvart hæstv. heilbrrh. og verð að viðurkenna að hann hefur eflt atvinnulífið nokkuð. (Gripið fram í.) Já, hann hefur gert það. Hann hefur látið gefa út 25--26 þúsund lyfjakort á mjög skömmum tíma og þessi lyfjakort hafa kostað 12--20 millj. kr. Núna er hann orðinn hundleiður á þessum lyfjakortum og ætlar að leggja þau niður. Og nú er hann að breyta öllu lyfjafyrirkomulaginu og er að finna út hvað eru bráðnauðsynleg lyf og hvað eru lífsnauðsynleg lyf. Ég tel að sé margra ára vinna að finna það út svo nátengd sem þau mál eru.
    Hann hefur gert meira í atvinnumálum. Það var til verulegs sóma sú mikla endurbygging og viðhaldsframkvæmdir sem áttu sér stað á Fæðingarheimili Reykjavíkur og ótaldir peningar sem fóru þar til endurbyggingar áður en hæstv. ráðherra lokaði síðan starfseminni. Mér vitandi fer engin starfsemi þar fram núna þó búið sé að kosta miklu til endurbyggingar. Það er auðvitað út af fyrir sig sorgarsaga en ég fagna því að Kvennalistinn er með tillögur á borðum þingmanna þar sem gert er ráð fyrir að endurreisa Fæðingarheimilið því sú krísa sem við búum við varðandi fæðingardeildina er óverjandi. Þar þrengir svo mikið að fæðandi mæðrum í dag að þær eru allar reknar út á fjórða degi nánast hvernig sem ástatt er fyrir þeim. Þetta kostar þjóðfélagið mikla peninga því að þær þurfa mikla sérfræðiþjónustu og ýmsar aukaverkanir sem af því hljótast að þær eru reknar út svo snemma. Þegar menn eru að tala um velferð á varanlegum grunni hljóta menn að endurskoða þetta sem er til vansa fyrir þjóðfélagið.
    Í fjárlagafrv. sem er til umræðu er alls staðar dregið verulega úr forvarnastarfi. Nægir þar að nefna tannverndina. Hún hefur hingað til verið ókeypis fyrir börn. Ríkið hefur borgað forvarnir í tannvernd fyrir skólabörn. Það verður ekki lengur. Það er að vísu kannski atvinnuskapandi því það verður auðvitað til þess að tannskemmdir aukast og meira verður að gera fyrir tannlækna þegar til lengri tíma er litið. ( Gripið fram í: Og tannsmiði.) Já, og tannsmiði. En af því að þingmaðurinn nefnir það er rétt að geta þess að það er líka verið að leggja auknar álögur á öryrkja og ellilífeyrisþega og þeir fá ekki lengur gervitennur greiddar í sama hlutfalli og áður. Ég tel að þeir hafi ekki efni á því lengur að láta smíða í sig gervitennur þannig að það dregur úr atvinnu líka. ( Gripið fram í: Og minnkar kjötneyslu.) Og minnkar kjötneyslu. Það er ekki spurning.
    Það er næstum ekki króna til íþróttamála og það er verið að draga svoleiðis úr Íþróttasjóði að 16 millj. eru eftir í sjóðnum. Það er margsinnis búið að ræða það hér að dregið er verulega úr fjármagni til áfengis- og vímuefnavarna og meðferðar. Ég ætla þó að þakka fyrir þær 15 millj. sem hafa bæst við til þessa málaflokks milli 1. og 2. umr. Ég tel að þessar 15 millj. verði kannski til þess að ekki þurfi að loka meðferðarheimilinu að Staðarfelli í Dölum en það heimili hefur verið rekið um nokkurra ára bil með frábærum árangri. ( Gripið fram í: Hefur þingmaðurinn reynslu?) Þingmaðurinn hefur ekki persónulega reynslu en hefur fylgst mjög náið með því. Það er líka mjög mikilvægt fyrir sveitina að nýta þau húsakynni sem eru að Staðarfelli í Dölum og áður voru húsakynni húsmæðraskólans sem fyrir löngu er búið að leggja niður. Milli þess sem húsmæðraskólinn var þar og meðferðarheimili SÁÁ var engin starfsemi og aðeins mýs í húsinu og húsið grotnaði niður. En núna hefur verið þar mjög öflug og myndarleg starfsemi og þess vegna leyfi ég mér, virðulegi forseti, að bera fram brtt. við fjárlagafrv. á þskj. 461. Hún er svohljóðandi:
    ,,Við 6. gr. Nýr liður:
    4.41 Að afhenda Samtökum áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann (SÁÁ) til eignar eftirtaldar eignir sem þau hafa nú til afnota að Staðarfelli í Dölum:
    gamla skólahúsið,
    kennaraíbúðir (tvö hús),
    kyndi- og rafstöðvarhús.``
    Mér skilst að hv. þm. Svavar Gestsson hafi gert þessa tillögu að umræðuefni og taldi sig ekki getað stutt hana. Ég tel að hv. þm. hafi gert það vissum af ókunnugleika. Hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að heimamenn telja það mikið atriði að SÁÁ eignist þessi hús til að tryggja áframhaldandi starfsemi Samtaka áhugafóks um áfengisvarnir sem eru þarna með mjög myndarlega starfsemi.
    Það væri auðvitað freistandi að tala áfram um heilbrigðismál almennt og það alvarlega ástand sem er að skapast vegna þessa miklu biðlista sem eru sífellt að lengjast á heilbrigðissviðinu, sérstaklega hvað bæklunaraðgerðir varðar. Og það eru einmitt þær aðgerðir sem ég tel að séu þjóðhagslega hagkvæmastar vegna þess að þeir einstaklingar sem fá þar meðferð geta eftir það lifað eðlilegu lífi í þjóðfélaginu en eru kannski bundnir hjólastóli í dag. Við eigum nægilegt legupláss, við eigum næga sérfræðinga en það vantar rekstrarfé og það er ekki gott að eiga hér nóg húsnæði og nóg starfsfólk en ónýtar deildir.
    Virðulegi forseti. Ég veit að það er tilgangslaust að halda hér langar ræður. En fátt er okkur Íslendingum nauðsynlegra þegar kreppir að í þjóðarbúinu en að ná sæmilegri sátt um hvernig á að þreyja þorrann og góuna en hæstv. ríkisstjórn hefur hvorki þolinmæði né áhuga fyrir slíku, enda er óþolinmæðin og óðagotið svo mikið að því sem þótti nauðsynlegt að gera í fyrra og framkvæma með miklum tilkostnaði og fyrirhöfn er nú fleygt til hliðar og ekki einu sinni skoðað hvort og hvernig árangurinn er af því. Enda telur hæstv. forsrh. að það sé góðs viti að allir eru jafnóánægðir. Þegar efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar voru kynntar 23. nóv. sl. þá sagði hæstv. ráðherra einmitt að það væri mjög góðs viti ef allir væru jafnóánægðir. En það er til tvenns konar óánægja í heiminum. Óánægja sem leiðir til örvæntingar og óánægja sem knýr til átaka. Sú fyrrnefnda verður til þess að það litla sem til er tapast en sú síðarnefnda þröngvar til umbóta. Menn geta svo dæmt um hvorri óánægjunni hæstv. ríkisstjórn þjónar.