Fjárlög 1993

78. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 02:49:11 (3335)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var margt í ræðu hv. þm. Ingibjargar Pálmadóttur sem er íhugunarvirði. Ég er út af fyrir sig þakklátur fyrir það að hún lýsir ánægju sinni með þá sátt sem hefur tekist varðandi málefni SÁÁ. Það er rétt hjá þingmanninum að milli umræðna er búið að auka fjárveitingu til SÁÁ og það sem meira er, það er búið að ná og undirrita samkomulag við SÁÁ. Forráðamenn SÁÁ hafa undirritað það samkomulag og lýst í fjölmiðlum mikilli ánægju með það þannig að ég hygg að við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur af því meira. Hins vegar vek ég athygli á því að tillaga þingmannsins varðandi SÁÁ, þ.e. að gögn og gæði að Staðarfelli verði afhent SÁÁ, er yfirboð. Hún er dæmigert yfirboð vegna þess að þar er um að ræða tillögu sem gengur miklu lengra heldur en vilji SÁÁ er til. Það hafa ákveðnar hugmyndir komið frá SÁÁ einmitt varðandi hús og gæði að Staðarfelli sem ganga ekki líkt því eins langt og virðulegur þingmaður vill.
    Síðan vil ég jafnframt, virðulegi forseti, nefna að þingmaðurinn ræðst að ríkisstjórninni fyrir það að sýna ekki nægilegan vilja til að efla atvinnu og nefndi sérstaklega að ef hún vildi þá hefði ríkisstjórnin séð til þess að afli Hagræðingarsjóðs sem seldur er yrði einungis látinn af hendi með þeim skilyrðum að hann yrði unninn hér heima og í héraði. Þá vil ég geta þess, virðulegi forseti, einmitt vegna þess að um þessar mundir er ríkisstjórnin að undirbúa aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu, að það er alveg ljóst að í kjölfar þess mun útflutningur á óunnum afla hraðminnka. Raunar má geta þess að sú þróun hefur verið síðustu árin að afli, sem landað hefur verið heima, er miklu meiri en áður. Þetta kom m.a. fram í síðasta tölublaði aukablaðs Morgunblaðsins, Í verinu. Þetta veit ég að þingmaðurinn skilur. Síðan vil ég líka geta þess að ýmsir, m.a. sá þingmaðurinn sem hér stendur, hafa verið þeirrar skoðunar að banna ætti útflutning á óunnum afla. Hins vegar hafa ýmsir sem tengjast fiskmörkuðum, ég nefni t.d. forstöðumann fiskmarkaðar Suðurnesja, fallið frá þeirri skoðun. Hann var upphaflega þeirrar skoðunar en telur núna að aðild okkar að EES muni sjálfkrafa leiða til þess að útflutningur á óunnum afla muni næstum því falla niður og það nokkuð hratt þannig að ljóst er að með því að vinna að inngöngu Íslands í Evrópskt efnahagssvæði er ríkisstjórnin að vinna að þeim markmiðum sem hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir vænir hana um að vera ekki að vinna að.