Fjárlög 1993

79. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 11:29:41 (3347)

     Svavar Gestsson :

    Virðulegi forseti. Í 32. gr. laga um framhaldsskóla frá 1988 segir: ,,Ríkið greiðir laun og annan rekstrarkostnað framhaldsskóla.`` Það er með öðrum orðum óheimilt að taka skólagjöld til þess að standa undir rekstrarkostnaði framhaldsskóla og það er lögbrot að standa þannig að málum. Ég tel að það sé einboðið að verði þess tillaga samþykkt, þá verði menn að átta sig á því að fjárlög breyta ekki framhaldsskólalögum. Þess vegna liggur það fyrir að jafnvel þótt tillagan verði samþykkt, þá þurfa skólar ekki að innheimta þessa fjármuni og nemendur þurfa ekki að greiða þá samkvæmt fjárlögum. Til þess þarf þá að breyta framhaldsskólalögum. Það er einnig nauðsynlegt að undirstrika það og mótmæla orðum hæstv. menntmrh. hér áðan að skólagjöld hafa aldrei verið innheimt í rekstur framhaldsskóla, það hefur aldrei gerst. Hér er því um að ræða kaflaskil í meðferð þessara mála. Er ástæða til að mótmæla því sérstaklega og þess vegna segi ég já við tillögunni og fagna því um leið að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir lýsti stuðningi við tillöguna hér áðan.