Almannatryggingar

79. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 13:55:55 (3368)

     Ingibjörg Pálmadóttir (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst, segir hið fornkveðna. Það sýndi sig í umræðum í fyrrakvöld þegar verið var að ræða frv. sem stjórnarandstæðan er mjög andsnúin að þá tjáðu sig tveir þingmenn stjórnarliðsins, tveir sjálfstæðisþingmenn, og töldu sig vera andvíga meginmarkmiði frv. Það hefur enginn alþýðuflokksþingmaður tjáð sig um þetta mál nema hæstv. heilbrrh. Ég trúi því að það séu fáir innan Jafnaðarmannaflokks Íslands sem eru tilbúnir að ganga svo harkalega að velferðarkerfi landsins. Mér finnst nauðsynlegt áður en við höldum áfram þessari umræðu að það komi skýrt fram hvort þetta er frv. sem í fljótheitum hefur verið lagt fram af hæstv. ráðherra eða hvort Alþfl. styður það. Það er ljóst að Sjálfstfl. styður ekki frv., ekki að hluta til.