Almannatryggingar

79. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 14:16:14 (3374)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Þegar við vorum að ræða þetta mál í fyrrakvöld þá kom fram hjá ráðherra, sem hefur reyndar komið fram í fjölmiðlum að undanförnu líka, að þetta frv. sem hann stendur fyrir og leggur hér fram, stefndi í meginatriðum að því að auka greiðsluþátttöku þeirra sem þjónustunnar njóta. Ég hlýt að fagna því að ráðherra skuli kalla hlutina sínum réttu nöfnum því mér hefur stundum fundist bregða við að menn séu að reyna að breiða yfir það að verið sé að velta kostnaði yfir á almenning í landinu getum við sagt, venjulegt launafólk með meðaltekjur. Það er þá viðurkennt hér í orðum ráðherra að að því sé stefnt með þessu frv. Það sé í meginatriðum stefna þessa frv.
    Það er ágætt að fá þetta staðfest í ræðustól á Alþingi en hins vegar er vert að halda því til haga að það gerir frumvarpið út af fyrir sig ekkert betra, það gerir hugmyndirnar sem er að finna í þessu frv. hvorki betri né réttlátari þótt ráðherrann viðurkenni hvernig þær komi niður. (Gripið fram í.) Ég veit að hv. þingflokksformaður Alþfl. ber mjög hag ráðherrans fyrir brjósti og hefur áhyggjur af því þegar konur ganga hér í sali að þær ráðist á ráðherra hans, ég veit ekki hvort sá þingmaður sem fékk þessa spurningu, hv. 13. þm. Reykv., ætlar að gera það hér á eftir en það verður að meta hvort þetta sem ég segi hér teljast árásir á ráðherrann eða ekki. En ég efast um að mín orð kosti 10 millj. á mínútu þó ég ráðist eitthvað á ráðherrann.
    En varðandi stefnu Alþfl. í þessum málum og stefnu Alþfl. almennt þá finnst mér hún afskaplega mótsagnakennd. Ég veit ekki hvort samskiptin við Sjálfstfl. í þessari ríkisstjórn valda því eða hvort þannig hefur málum alltaf verið háttað að stefna Alþfl. væri svona mótsagnakennd. ( Gripið fram í: Jónarnir.) Já,

það var einn Jón sem stóð hér í ræðustól og hefur gert það oftar en einu sinni og reyndar tveir Jónar sem hafa staðið hér í ræðustól og talað um skattkerfið og lagt á það mikla áherslu að skattkerfið ætti að vera einfalt, það ætti að vera skilvirkt og eins og þeir segja alltaf, hlutlaust. En það má nú taka út orðið hlutlaust og segja ranglátt --- að það eigi að vera einfalt, skilvirkt og hlutlaust eða ranglátt eftir atvikum. Þess vegna megi bara hafa eitt skattþrep í tekjuskattinum. Það hefur verið þeirra skoðun þar til núna og aðeins eitt skattþrep í virðisaukaskattinum. Það mátti ekki tala um að hafa þar fleiri skattþrep og það hefur hingað til ekki mátt tala um það að hafa fleiri skattþrep í tekjuskattinum þó nú sé kominn á tímabundinn 5% hátekjuskattur sem á, eftir því sem mér skilst, að vera í 2--3 ár. Menn ætla að taka hann út aftur vegna þess að þeir vilja ekki rugla þetta einfalda, skilvirka og hlutalusa kerfi sitt.
    En þegar kemur að velferðarkerfinu þá er bara eins og það sé eitthvað allt annað uppi á teningnum. Þá eru menn ekki að tala um einfalt, skilvirkt og hlutlaust kerfi. Þá eru þeir að tala um flókið, seinvirkt og óréttlátt kerfi. Þannig virðast þeir vilja hafa velferðarkerfið. Flókið, seinvirkt og óréttlátt. Þess vegna eru það orð að sönnu hjá hv. þm. Ingibjörgu Pálmadóttur að það eru eins og hver önnur öfugmæli þegar það stendur í hvítbók ríkisstjórnarinnar að hún stefni að því að einfalda almannatryggingalöggjöfina vegna þess að mér sýnist flest það sem hér hefur verið gert, í fyrra og núna, stuðli að því að gera hana flóknari en hún er.
    Þær hugmyndir sem Alþfl. hefur í velferðarmálum virðast helst ganga út á það að tekjur manna eigi að vera eina breytan sem máli skiptir þegar að velferðinni komi. Þeir horfa ekki á annars konar félagslegan mun en þann sem getur stafað af beinum tekjum. T.d. er talsvert mikill munur á fólki sem á engin börn og því fólki sem er með mörg börn, eða ómegð eins og það var kallað í gamla daga, og það er í sjálfu sér allt í lagi að nota það orð vegna þess að það fólk sem er með mörg börn hefur mikla framfærslubyrði. Ég segi þetta vegna þess að haft var eftir hæstv. ráðherra í útvarpsfréttum að hann teldi að það ætti alfarið að tekjutengja barnabótaaukann. Því ættu eingöngu að vera barnabætur til þeirra sem eru tekjulægstir og aðrir ættu ekki að fá neitt út úr almannatryggingakerfinu.
    Þá virðist mér heldur ekki vera vilji til þess að horfa á þann mun sem er á milli kvenna og karla sem kemur auðvitað velferðarkerfinu líka við og þetta segi ég vegna ummæla ráðherra um fæðingarorlofið í sjónvarpsfréttum um daginn. Þá var hann alltaf að tala um þetta fólk sem væri alltaf í fæðingarorlofi og þetta fólk sem væri svo tekjuhátt. Af hverju getur hann ekki nefnt hlutina sínum réttu nöfnum? Það eru auðvitað konur sem fara í fæðingarorlof. Þeir karlar sem fara í fæðingarorlof eru teljandi, ég segi nú kannski ekki á fingrum beggja handa, en svona allt að því, þannig að þetta eru konur og eru konur almennt tekjuháar í þessu samfélagi? Þá hefur það alveg gjörsamlega farið fram hjá mér að konur séu almennt tekjuháar. Konur eru almennt tekjulágar. Konur eru almennt ekki nema með 60% af tekjum karla þannig að við skulum nefna hlutina sínum réttu nöfnum. Auðvitað skiptir gífurlegu máli fyrir konur og atvinnuþátttöku kvenna og afkomu heimilanna í landinu að konur geti verið á vinnumarkaði. Ég er alveg sannfærð um það að ef það breyttist og ef konur gætu ekki vegna atvinnuleysis eða vegna þess að svo væri að þeim kreppt í velferðarkerfinu verið á vinnumarkaði þá kæmi það verulega niður á afkomumöguleikum fjölskyldnanna. Menn verða auðvitað að horfa á fleiri breytur en bara tekjurnar einar saman. Auðvitað er tvennt ólíkt að eiga að framfæra fjölskyldur, fimm manna fjölskyldu skulum við segja af 200--250 þús. kr. tekjum eða hvort það eru tveir einstaklingar sem eiga að framfæra sig af þeim tekjum. Það er auðvitað himinn og haf sem þarna skilur á milli. Þetta verða menn að hafa inni í myndinni.
    Þegar talað er um skattlagningu fyrirtækja eru allir óskaplega sanngjarnir. Nú þarf endilega að draga úr skattlagningu fyrirtækja svo fyrirtækin í landinu fái þrifist. --- Hristir ráðherrann höfuðið? Ég veit ekki betur en þetta séu þau rök sem við heyrum núna og þess vegna sé m.a. verið að taka aðstöðugjaldið af. Það sé verið að reyna að draga úr skattlagningu fyrirtækja svo atvinnulífið fái staðist. Út af fyrir sig getur maður ekkert mótmælt því að það þurfi að tryggja það að fyrirtækin í landinu geti gengið. En þegar er lagður t.d. tekjuskattur á fyrirtæki þá er hann lagður á tekjur umfram gjöld, þ.e. fyrst er rekstrarkostnaður fyrirtækjanna dreginn frá og síðan er það sem umfram er skattlagt og tekjuskattur lagður á það.
    Annars konar skattlagning hefur verið talin óréttlát og það er m.a. eitt af því sem kemur inn í umræðuna um aðstöðugjaldið að það sé veltuskattur og hann sé þar af leiðandi óréttlátur vegna þess að það segi ekkert um afkomu fyrirtækjanna hvernig þessi skattur er lagður á. En þegar kemur að fjölskyldunni þá er hún skattlögð alveg án tillits til útgjalda. Ef við horfum á þau útgjöld sem barnafólk hefur, og þá er ég að tala um sambýlisfólk, þá getum við bara nefnt eitt dæmi og það er t.d. daggæsla fyrir átta tíma hjá dagmóður úti í bæ. Fólk greiðir 27.000 kr. á mánuði fyrir slíka þjónustu. Þetta eru auðvitað peningar sem fólk sér aldrei. Þetta fer bara um hver einustu mánaðarmót og þetta eru peningar sem eru skattlagðir. Þetta er eins og veltuskattur, þetta er skattlagt þó fólk sjái þessa peninga aldrei. Það sem á að koma á móti þessum útgjöldum, t.d. 27.000 kr. sem fólk þarf að borga fyrir daggæslu í átta tíma fyrir eitt barn, eru barnabætur upp á 3.100 kr. á mánuði með barni undir sjö ára aldri eftir þær breytingar sem fyrirhugaðar eru. Þær eru í sjálfu sér ekki í þessu frv. en tengjast því óneitanlega vegna þess að menn eru alltaf að tala um samtengingu barnabóta, barnabótaauka, meðlags og mæðralauna. Auðvitað er hlægilegt að hugsa sér það að vera að borga fólki 3.100 kr. á mánuði með barni undir sjö ára aldri. Þetta eru svo smánarlegar upphæðir.
    Það hefur verið spurt hér eftir stefnu Alþfl. í þessum málum og hvort Alþfl. styðji það frv. sem

liggur fyrir. Um það hafa ekki fengist önnur svör en frá ráðherrunum og auðvitað er alveg sjálfsagt að taka þau góð og gild, en þá hafa a.m.k. skoðanir margra alþýðuflokksmanna breyst mjög mikið eftir kosningar ef þeir styðja þær aðgerðir sem ríkisstjórnin grípur til að tekjutengja alfarið barnabætur, að greiða barnabætur eingöngu þeim sem lægst hafa launin en ekki jafna milli barnafólks og þeirra sem eru ekki með börn á framfæri.
    Þann 5. apríl 1991 birtist mjög athyglisverður leiðari í Alþýðumanninum á Akureyri. Hann birtist sem sagt rétt fyrir síðustu kosningar. ( Gripið fram í: Í hvaða blaði er þetta?) Þetta er úr Alþýðumanninum, málgagni jafnaðarstefnu síðan 1931, útgefandi Alþýðuflokksfélag Akureyrar. Þar sem engir stafir eru undir þessu þá hlýtur maður auðvitað að líta svo á að þessi leiðari túlki stefnu þeirra sem gefa út þetta blað, sem er m.a. væntanlega formaður heilbr.- og trn., ég reikna með að hann sé í Alþýðuflokksfélagi Akureyrar og er hans sárt saknað úr salnum því að hann gæti auðvitað staðfest það ef hann væri hér hvort þetta væri eitthvað sem samrýmdist skoðunum hans sem stendur í þessum leiðara. (Gripið fram í.) Hann gæti líka upplýst það ef hann væri staddur hérna. ( ÓÞÞ: Af hverju er hann ekki kallaður í salinn?) Er hægt að sjá það hvort þingmaðurinn er í húsinu? ( Forseti: Hv. þm. er í húsinu.) Það væri kannski athyglisvert að fá hann í salinn. --- Þar sé ég að hv. þm., Sigbjörn Gunnarsson, 7. þm. Norðurl. e. og formaður heilbr.- og trn. þingsins, er genginn í salinn og þá er mér ekkert að vanbúnaði að lesa fyrir hann og aðra þingmenn leiðara sem birtist í Alþýðumanninum, málgagni jafnaðarstefnu síðan 1931 og gefið er út af Alþýðuflokksfélagi Akureyrar. Þessi leiðari birtist þann 5. apríl 1991, þ.e. fyrir síðustu kosningar. Ég lít á þennan leiðara m.a. sem svar við þeirri spurningu sem hefur margsinnis verið borin upp, hvort alþýðuflokksmenn og þingmenn Alþfl. séu fylgjandi þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir, m.a. í tryggingamálum og skattamálum, því allt vinnur þetta saman, barnabæturnar og barnabótaaukinn og mæðralaun og barnalífeyrinn o.s.frv. Hér er m.a. að finna svar í þessum leiðara sem er ekki undirritaður og hlýtur því að skoðast sem stefna þeirra sem gefa út þetta blað, þ.e. Alþýðuflokksfélags Akureyrar. Í þessum leiðara segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Þrátt fyrir að þjóðarsátt og lág verðbólga hafi bætt rekstrarumhverfi fyrirtækjanna verulega er flestum ljóst að ekki er enn grundvöllur fyrir þeim afgerandi launahækkunum sem þyrftu að koma til ef bæta ætti kjör almennings eingöngu með þeim hætti. En jafnvel þótt ekki væri þannig ástatt væri full ástæða til þess að velta fyrir sér hvort skattbyrðinni hér á landi sé dreift nógu réttlátlega á þegnana og skoða sérstaklega skattlagningu barnafjölskyldna í því sambandi. Skattfrelsismörk einstaklings gagnvart tekjuskatti og útsvari eru nú í 57.000 kr. á mánuði, útivinnandi hjóna því í 114.000 kr. Þetta eru vissulega ekki háar upphæðir en eru þó nokkuð yfir lægstu launatöxtum. Barnabætur eða endurgreiddur skattur til foreldra eru kr. 4.600 á mánuði vegna barns yngri en 7 ára`` --- þetta er náttúrlega orðin lægri upphæð eftir að Alþfl. hefur staðið að því að skerða þær einu sinni og er nú með tillögur um að skerða þær öðru sinni --- ,,en 2.300 kr. vegna 7--16 ára barns þótt ekki séu sjáanleg rök fyrir því að minna tillit sé tekið til þeirra eldri þar sem þau eru síst léttari á fóðrunum. Eftir að unglingurinn verður 17 ára njóta foreldrarnir engrar tillitssemi vegna framfærslu hans. Barnabætur þessar samsvara því að skattleysismörk fjölskyldunnar hækki um kr. 11.500 á mánuði fyrir hvert barn yngra en 7 ára, en 5.750 kr. fyrir eldra barn. Allir vita að það kostar meira en þetta að framfæra börn, en foreldrar verða að greiða 40% tekjuskatt af þeim framfærslukostnaði sem er umfram þessar upphæðir ofan á háan virðisaukaskatt.
    Dæmið má einnig setja fram á þann hátt að hjón þurfa að eiga fimm börn af yngri gerðinni eða tíu eldri börn til að njóta skattfrelsis á við þrjá einstaklinga [þ.e. hjón með börn]. Þótt þannig séu lagðir háir skattar á rekstrarkostnað fjölskyldnanna er álagningu tekjuskatts á íslensk fyrirtæki öðruvísi háttað. Þar gildir sú sjálfsagða meginregla að fyrirtækin greiða ekki tekjuskatt nema þau skili hagnaði. Tekjurnar séu umfram rekstrarkostnaðinn. Eðlileg lágmarkskrafa er að hæfilegur rekstrarkostnaður heimilanna verði friðhelgur fyrir skattheimtumönnunum ekki síður en rekstrarkostnaður fyrirtækjanna. Skynsamlegasta leiðin til þess er að hækka persónuafslátt foreldra vegna hvers barns um upphæð sem sé í samræmi við raunverulegan framfærslukostnað. Sú kjarabót mundi hitta ólíkt betur í mark en einföld hækkun persónuafsláttar einstaklinga sem margir flokkar slá nú um sig með.``
    Þetta eru sannarlega orð af viti. En hvað gerir Alþfl.? Hann gerir hið gagnstæða. Hann er að auka skattlagninguna á barnafólki. Það er útmetinn hópur sérstaklega sem verður fyrir þessari ríkisstjórn, það er barnafólkið. (Gripið fram í.) Það er markhópurinn sem nú á endilega að ná í. Ég held að enginn geti mótmælt því að það er verið að hækka skatta á barnafólki með þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin stendur núna fyrir.
    Það er auðvitað alveg rétt eins og þarna er bent á að auðvitað ætti börnum að fylgja ákveðinn persónuafsláttur eins og fullorðnu fólki. Það þarf að framfæra börn alveg eins og það þarf að framfæra fullorðna og þess vegna er ekkert réttlæti í því að tekjutengja algjörlega og segja burt með allt sem heita barnabætur hjá fólki sem er yfir einhverjum meðaltekjum. Það er ekkert réttlæti í því. Við getum alveg eins bara fellt niður persónuafsláttinn hjá fólki sem er með tekjur yfir einhverjum ákveðnum mörkum. Það er nákvæmlega sama hægt að færa upp á persónuafsláttinn eins og barnabæturnar, söm er gjörðin. En af hverju gera menn það ekki? Af því það er pólitískt svo erfitt. Vildu menn standa hér og leggja það til að persónuafslátturinn væri lækkaður? Vildu þeir gera það eða skattarnir væru almennt hækkaðir meira en tillögur þeirra gera ráð fyrir? Ég held að menn hafi metið það þannig að það væri svo erfitt pólitískt og þess

vegna er tekinn út svona hópur.
    Það er undarlega auðvelt í þessu samfélagi að hræra í framfærslukostnaði barna. En þegar ég segi þetta með persónuafsláttinn þá er ég að benda mönnum á að það er sama gjörðin sem er verið að gera, þ.e. hvort menn fara og ráðast á persónuafsláttinn eða barnabæturnar. Þar með er ég ekki að leggja til að sú leið verði farin. Það er ekki mín skoðun í þessu máli, heldur er ég að benda þeim á að það væri í rauninni miklu réttlátari aðgerð að láta þetta ganga yfir alla, barnafólk sem barnlausa. Auðvitað væri réttlátasta aðgerðin af öllu að hafa stighækkandi tekjuskatt vegna þess að þá fær fólk barnabæturnar og það er viðurkennd framfærslubyrði vegna barna en síðan eru hærri skattar teknir vegna þess að fólk er talið hafa háar tekjur. Það er hin raunverulega tekjutenging sem á að vera í gildi í þessu samfélagi og sú tekjutenging sem er réttlátust. Allt hitt er bara krukk, gerir hlutina flókna, gerir þá óréttláta og gerir kerfið seinvirkt og skapar óánægju. Eina sanna og rétta leiðin í þessum málum er auðvitað stighækkandi tekjuskattur og þannig á hin rétta tekjutenging að nást.
    Kerfið er ekki réttlátt núna, sagði ráðherrann í fyrrakvöld. Hann sagði að það væri ekki réttlátt eins og það er. Hann hnýtti við að það þyrfti að móta samræmt heildarkerfi. Það hefði verið reynt í þessari atrennu en ekki tekist. Hann sagði: Við munum fara í samræmda skoðun á næsta ári. Þegar ég heyri þessi orð þá tek ég þau sem hótun, ég tek þetta sem hótun sem yfir okkur vofi ef þeir ætla að fara í samræmda heildarskoðun á þessu kerfi með það fyrir augum að afnema barnabætur nema í tekjulægstu hópunum. Þá er farið að nota þetta eins og einhvers konar ölmusu. Það er ekki lengur verið að tekjujafna milli þeirra sem eru með börn á framfæri og hinna heldur er eingöngu verið að greiða þeim allra tekjulægstu. Þar með er verið að viðurkenna að þeirra framfærslubyrði sé þyngri. Það er sjálfsagt að hafa tvíþætt kerfi í þessu. Annars vegar að allir fái eitthvað en hins vegar sé tekjutengdur hluti. Auðvitað vildi ég sjá það þannig að allir fengju eitthvað og það fylgdi hverju barni ákveðinn persónuafsláttur rétt eins og hinum fullorðnu. Þannig kæmi þetta til allra. Síðan væri til ákveðið barnabótakerfi sem væri tekjutengt.
    Tvö dæmi gæti ég tekið um það hvernig þetta kerfi sem hér er verið að leggja til hittir fólk fyrir. Þá er ég að skoða saman barnabæturnar og barnabótaaukann, barnalífeyrinn eða meðlögin og mæðralaunin. Lítum fyrst á einstæða móður með tvö börn og 80.000 kr. á mánuði. Hjá henni skerðast barnabætur um 556 kr. á mánuði. Mæðralaunin hjá henni skerðast um 9.398 kr. en á móti kemur hækkun á meðlagi upp á 7.498 kr. Skerðingin er því alls hjá þessari einstæðu móður með tvö börn og 80.000 kr. mánaðartekjur 2.456 kr., tæplega 30.000 kr. á ári. Það getur ekki talist hátekjumanneskja sem er með 80.000 kr. og á að framfæra af þeim tekjum tvö börn. Samt hitta þessar aðgerðir hana svona fyrir. Við getum líka tekið dæmigerð íslensk hjón með þrjú börn. Við skulum gefa okkur að tvö þeirra séu yngri en sjö ára. Þessi hjón fá á sig skerðingu alls um 6.986 kr. á mánuði. Við skulum segja að þau séu að koma yfir sig húsnæði, þau eru einhvers staðar í blokkaríbúð, eign þeirra er um 4 millj. kr., þau borga um 350 þús. kr. á ári í vaxtagjöld. Þá lækka vaxtabætur til þeirra um u.þ.b. 35.000 kr. á ári. Skerðingin hjá þessum hjónum í gegnum barnabæturnar og í gegnum vaxtagjöldin og reyndar líka í gegnum skattahækkunina, sem verður, er um 118 þús. kr. á ári samkvæmt þessu eða um tæplega hálf brúttó mánaðarlaun þessara hjóna. Ef við lítum á skerðinguna sem þau urðu líka fyrir í fyrra vegna barnabótanna að þá var hún hjá þessum hjónum um 4.305 kr. á mánuði eða 51.000 kr. á ári. Samtals á tveimur árum er því skerðing hjá hjónum með þrjú börn, tvö yngri en sjö ára og 260 þús. kr. mánaðartekjur sem eru meðaltekjur hjóna, vegna barnabóta, vaxtagjalda og skattahækkana um 170 þús. kr. Það er ekki svo lítið, virðulegur ráðherra, hjá hjónum sem eru með 260 þús. kr. mánaðartekjur og þrjú börn á framfæri. Ég held að það sé því augljóst og það getur hver maður séð sem á annað borð kynnir sér þær tillögur sem hér liggja fyrir að aðgerðirnar hitta nær allt barnafólk fyrir. Það eru örfáir hópar sem ekki verða fyrir skerðingu.
    Þær eru dálítið sérkennilega saman settar þessar tillögur með tilliti til þess hverjir verða ekki fyrir skerðingu. Mér sýnist á yfirliti frá efnahagsskrifstofu fjmrn., hér er tafla um breytingar á barnabótum, mánaðartölur, að einu hóparnir sem verða ekki fyrir skerðingu séu hjón með eitt barn eldra en sjö ára. Ef barnið er hins vegar yngra en sjö ára verða þau fyrir skerðingu, alveg sama hvaða tekjur þau hafa. Ég er að tala um hjón sem hafa undir 200 þús. kr., með eitt barn eldra en sjö ára. Þau verða ekki fyrir skerðingu. Öll önnur hjón með eitt barn verða fyrir skerðingu. Þá eru það hjón með tvö börn og tekjur undir 200 þús. kr. og bæði börnin eldri en sjö ára. Þau verða ekki fyrir skerðingu. Öll önnur hjón með tvö börn, burt séð frá tekjum, verða fyrir skerðingu. Þá eru það hjón með þrjú börn, öll eldri en sjö ára. Ef þessi hjón eru með tekjur undir 100 þús. kr. --- sem hver maður sér auðvitað að fimm manna fjölskylda getur engan veginn framfleytt sér á og þar af leiðandi er þetta bara teóretískt dæmi en ekki praktískt --- ef þau eru með þrjú börn eldri en sjö ára og undir 100 þús. kr. í tekjur verða þau ekki fyrir skerðingu. Öll önnur hjón með þrjú börn á sínu framfæri verða fyrir skerðingu. Hvað einstæð foreldri varðar er ekki skerðing hjá einstæðri móður með eitt barn eða einstæðri móður eða með tvö börn ef þau eru bæði eldri en sjö ára og hún er með tekjur undir 180 þús. kr. En einstæð móðir með tvö börn og annað er yngra en sjö ára verður fyrir skerðingu. Svona kemur þetta út. Þetta eru vægast sagt mjög litlir hópar sem ekki verða fyrir skerðingu og dálítið sérkennilega saman settir. Því þarf greinilega að fara betur ofan í þessi mál í nefnd til að sjá hvaða rök liggja þarna að baki.
    Hér hefur verið talsverð umræða um lyfjamálin og ráðherra hefur lýst því yfir og gefið um það loforð að hlutdeild sjúklings í lyfjum verði aldrei meiri en EB-meðaltalið. Hann bar til baka upplýsingar

sem komu m.a. í gögnum frá ASÍ um að hlutdeild sjúklings yrði um 37% og sagði það rangt. Hér yrði það aldrei meira en EB-meðaltalið og svo hefur hann haldið því fram að EB-meðaltalið sé 30--32%. Hann gerði það í fyrrakvöld og hann gerði það áðan líka. Við fengum hins vegar þær upplýsingar í heilbr.- og trn. að EB-meðaltalið væri 34--35%. Og kostnaðarhlutdeildin sem væri verið að fjalla um í heilbr.- og trmrn. væri um 34,8%. En ráðherrann er að tala um tölurnar 30--32% og nú væri náttúrlega mjög mikilvægt að fá þetta upplýst. Af hverju ber mönnum ekki saman um þessar tölur? Erum við að tala um 30--32% kostnaðarhlutdeild eða erum við að tala um 34--35% kostnaðarhlutdeild? Hvor hugmyndin er í vinnslu í ráðuneytinu núna? Hvor hugmyndin sem það er þá fylgir henni augljóslega aukinn kostnaður fyrir þá sem þurfa á þessum lyfjum að halda. Þó að hlutfallið skipti auðvitað máli vegna þess að því hærra sem hlutfallið er þeim mun meiri kostnaður fyrir þá sem nota lyfin að þá breytir það ekki því að það er greinilega ætlunin að auka lyfjakostnað sjúklinga og þeirra sem nota lyf.
    Tannlækningar eru inni í 7. gr. frv. Þar er verið að gera breytingu á lögum sem samþykkt voru í upphafi þessa árs, lögum nr. 1 frá 1992, og lagfæra ýmsa galla sem menn töldu vera á þeim þótt varla sé hægt að tala um að þau séu almennilega komin til framkvæmda vegna þess að þau byrjuðu að virka í haust þegar skólarnir tóku til starfa. Þess vegna er ekki komin nema þriggja til fjögurra mánaða reynsla af þessum lögum og af niðurgreiðslu á fyrirbyggjandi aðgerðum ýmiss konar og tannvernd. Á það var lögð rík áhersla í heilbr.- og trn. í fyrra að allt sem héti tannvernd og fyrirbyggjandi aðgerðir í tannlækningum yrði fólki að kostnaðarlausu en síðan kæmi örlítil kostnaðarhlutdeild í viðgerðum. Það var með samþykki allra nefndarmanna í heilbr.- og trn. í fyrra ákveðið að hafa það 15%. Nú er verið að breyta þessu og fólk á að greiða hlutdeild í tannverndarþættinum líka, þ.e. 25% og 25% af viðgerðunum.
    Fyrir þessu hafa kannski ekki fengist nein almennileg rök í umræðunni í þingsalnum, þ.e. af hverju sé verið að þessu. En þær raddir hafa heyrst að þessi tannverndarþáttur sé misnotaður, að einhver brögð séu að því að í stað þess að senda fólk með reikning fyrir tannviðgerð eins og ber að gera skrifi tannlæknar þetta sem tannvernd, ekki viðgerð, og þar af leiðandi eigi það alfarið að greiðast af Tryggingastofnun en ekki að með kostnaðarhlutdeild foreldra. Það komu fram mjög athyglisverðar upplýsingar í heilbr.- og trn. í morgun varðandi þennan þátt málsins því þar kom fram að aðgerðir eða röntgenmyndatökur hjá tannlæknum hefðu aukist um 25% frá því að þessi lög voru samþykkt hér og að reikningar fyrir fyrirbyggjandi aðgerðir ýmiss konar, eins og skorufyllingar og slíkt, hefðu hækkað um 41% á einu ári. Allt í einu hefði aukist svona kostnaðurinn vegna fyrirbyggjandi aðgerða. Mér finnst eiginlega segja sig sjálft að það er einhver að misnota þetta kerfi fyrst þetta eykst svona. Mér finnst alveg óþolandi að hugsa til þess að vegna þess að einhverjir misnota kerfið, væntanlega einhverjir prívat tannlæknar úti í bæ, eigi að velta kostnaðinum yfir á fjölskyldurnar í landinu, yfir á fólk sem á þarna engan hlut að máli. Það á að taka á sig aukinn kostnað vegna þessa. Mér finnst aðalatriðið vera að taka fyrir misnotkunina þar sem hún er og upplýsa þetta mál. Það þarf hreinlega að upplýsa hvernig á því stendur að þessi liður eykst um 40%. Við töldum okkur vera að gera þetta í góðri trú í fyrra að koma til móts við einkatannlækna með því að gefa þeim kost á að vera með fyrirbyggjandi starf hjá sér. Ef það kemur svona út eiga þeir auðvitað ekkert gott skilið. Þeir verða að upplýsa hvernig þetta mál er vaxið. Mér finnst að við í heilbr.- og trn. hljótum að skoða það áður en við förum að flytja kostnaðinn sem hlýst af slíkri misnotkun yfir á allt fólk sem engan hlut á að máli og ber ekki á þessu nokkra ábyrgð og reynir að sinna vel tannhirðu sinna barna, m.a. með því að sinna fyrirbyggjandi aðgerðum svo vel að það þurfi ekki að gera við í þessum börnum og þar af leiðandi þurfi fók aldrei að bera kostnað vegna tannlækninga. Nú á sem sagt að flytja ákveðna kostnaðarhlutdeild yfir á þetta fólk.
    Nú vil ég gjarnan vita hvort ráðherra heyrir til mín því að ég þarf að spyrja hann spurninga. Væri hægt að fá það upplýst hvar ráðherra er staddur í húsinu? (Forseti: Forseti mun gera ráðstafanir til að láta hæstv. heilbr.- og trmrh. vita að hans sé óskað í salinn.) Þar sé ég að ráðherra gengur í salinn. Ég held að þessi umræða mundi kannski taka skemmri tíma og ganga betur fyrir sig ef ráðherrarnir væru ekki eins og fló á skinni, á sífelldu vappi út úr salnum. ( Heilbrrh.: Þetta er ekki sanngjarnt. Ég sat hér til klukkan tvö í nótt og er búinn að sitja alla umræðuna.) Ég sagði aldrei að ráðherrann hefði farið úr húsinu. Ég sagði að ef þeir væru á vappi eins og fló á skinni. Ég sagði aldrei að ráðherrann hefði látið sig hverfa. Það gat svo sem vel verið að ráðherrann heyrði til mín en ég vildi vera viss um það. Þess vegna mundi ég ekki hafa á móti því þótt hann sæti hér í einhverjum hliðarsölum en ég get ekki vitað hvort hann heyrir til mín ef hann er ekki í sjónmáli. Ég vil heldur spyrja menn spurninga að þeim viðstöddum en fjarstöddum. Út af fyrir sig ætla ég ekki að ásaka þennan ráðherra fyrir að sitja hér illa, ég held að það séu margir ráðherrar sem eiga það frekar skilið en heilbr.- og trmrh. því hann hefur verið hér nokkuð þaulsætinn.
    Ég ætla að spyrja ráðherrann um fæðingarorlofið. Þegar við vorum að fjalla um þessi mál, lífeyristryggingarnar og sjúkratryggingarnar, í heilbr.- og trn. kom það m.a. fram --- mig minnir að það komi fram í fjárlagafrv. sjálfu --- að það hafi verið ráðgerð um 100 millj. kr. skerðing á fæðingarorlofi en það hefði ekki verið búið að útfæra eða vinna með það mál. Síðan, ef ég man rétt, kom til fjárln. eitthvert yfirlitsblað þar sem sýnt var að 50 millj. væri skilað aftur í fæðingarorlofið. ( Heilbrrh.: 150 millj.) Var þetta þá 150 millj. og 100 skilað aftur? ( Heilbrrh.: 200 millj. kr.) Ráðherrann upplýsir það. Það var þarna einhver munur á. Ekki var öllu skilað samkvæmt þessu blaði sem tekið hafði verið af í fjárlagfrv., þannig að þar vantar eitthvað upp á. Nú vil ég fá svör við því og spyrja: Hvað á að gera til að ná þessum mun?

Stendur til að krukka í fæðingarorlofið og ef svo er með hvaða hætti þá? Þetta held ég að við verðum að fá upplýst vegna þess að ég veit að þessi talnalegi munur er á því sem lagt var fram í fjárlagafrv. og því sem hefur verið skilað aftur eftir þeim blöðum sem komið hafa úr heilbr.- og trmrn. Þetta verðum við að fá upplýst og það fyrr en síðar. Ég get lofað ráðherranum því að ef það stendur til að höggva í þann knérunn líka að skerða fæðingarorlofið þá er mælirinn fullur. Þá eru þar komin mæðralaunin, barnabæturnar, fæðingarorlofið og tannlækningarnar. Þá er þessi hópur bara sérstaklega útmetinn sem einhver skerðingarhópur hjá ríkisstjórninni. Þetta verður bara að upplýsast og það strax. Ég vil í því sambandi leggja mjög mikla áherslu á það að menn verða að gera sér grein fyrir því hversu mikilvægt það er að búa vel að börnum og barnafólki. Það er hinn eini sanni sparnaður. Það er hin eina sanna velferð sem máli skiptir. Það er til í landinu a.m.k. tíu ára uppsöfnuð þekking á því hvað tengsl foreldra og barna og góður aðbúnaður skiptir miklu máli. Ég tala nú ekki um fyrstu mánuðina. Það skiptir nánast öllu máli varðandi það hvernig framtíð börnum er búinn. Það er hinn eini sanni hagvöxtur, hin eina sanna velferð. Það eina sem skiptir máli. Ég held að menn þyrftu ekki annað en tala við þá sem reka geðdeildir barna, stofnanir fyrir börn með alls kyns samskiptaörðugleika að í mjög mörgum tilvikum má rekja það til þess að það er ekki búið nógu vel að ungbarnafjölskyldum. Það er allt of mikið álag á ungbarnafjölskyldum. Það er allt of mikið álag á mæðrum ungra barna og þetta er orsakavaldur oft og tíðum þegar um vandamál er að ræða síðar meir. Þess vegna er þetta hin eina sanna velferð, hinn eini sanni sparnaður og menn verða að gera sér grein fyrir því og fara ekki svona létt með þetta. Það þýðir útgjöld síðar meir, ef menn ætla að krukka sífellt í þennan málaflokk, og það miklu meiri útgjöld en við erum að tala um núna.