Húsnæðisstofnun ríkisins

79. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 16:16:05 (3382)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. félmrh. hefur lagt fram frv. sem er á dálítið öðrum nótum en áður var boðað. Þegar fjárlagfrv. var lagt fram mátti fólk heyra í gegnum fjölmiðla skilaboð frá hæstv. félmrh. að því væri ofaukið og það væri markmið félmrh. á þessari stundu, þegar atvinnuleysi í Reykjavík er yfir 2.000 manns, að reka yfir 20 manns og helst ætti að vera búið að ákveða það fyrir jól svo að hægt væri að reka fólkið um næstu áramót. Hæstv. félmrh. telur sig ekkert hafa við þetta fólk að gera og telur sig heldur ekki hafa nokkuð við þetta fólk að segja. Ráðherrann hefur ekki eytt einu orði að þessu fólki sem samkvæmt skilningi hans er óþarft og á að hætta innan fárra daga. Þvert á móti lýkur ráðherra ræðu sinni á því að knýjandi nauðsyn sé á því að menn afgreiði frv. á næstu tíu dögum eða svo og taki ákvörðun um að reka fólkið úr vinnunni. Þetta eru skilaboð hæstv. félmrh. Þetta er atvinnuátak hennar í byggðarlagi þar sem atvinnulausir eru yfir 2.000 manns. Þið eigið að hætta strax. Við höfum ekkert við ykkur að tala.
    Ég fordæmi vinnubrögð af þessu tagi hjá hæstv. félmrh. sem talar um jafnviðkvæman hlut og atvinnu manna í gegnum fjölmiðla og hefur ekkert við þá að tala. Ég tel þetta ámælisverð vinnubrögð og ekki sæmandi ráðherra, ekki einu sinni ráðherra úr Alþfl., Jafnaðarmannaflokki Íslands, og er hann þó bágastur allra flokka á Íslandi um þessar mundir.
    Hæstv. ráðherra hefur heldur ekki haft fyrir því að hafa nokkurt samráð við þá sem samkvæmt lögum fara með þessi mál, þ.e. húsnæðismálastjórn. Þeim kemur þetta ekki við heldur. Það eina sem hæstv. ráðherra hefur gert og hefur skolað inn á borð húsnæðismálastjórnar er bréf til aðila úti í bæ þar sem þeim er sagt að finna tillögur til að reka fólk og gera breytingar og svo eigi Húsnæðisstofnun ríkisins að borga, stendur skýrum stöfum í bréfinu. Þið eigið að vinna hér ákveðin verk. Þið hafið heimild til að stofna til ákveðinna útgjalda, segir ráðherrann í bréfinu, en Húsnæðisstofnun á að borga.
    Ég hlýt að spyrja mig: Kemur það á óvart eftir slíka framkomu hæstv. ráðherra gagnvart stjórninni, stofnuninni og starfsfólkinu að frv. af þessu tagi lítur dagsins ljós? Svar mitt er að það kemur ekki á óvart. Það er í takt við annað.
    Það meginefni frv., fyrir utan það að reka fullorðið fólk sem á ekki gott með að fá aðra vinnu, konur sem eru orðnar fullorðnar, eru ekki lengur á besta aldri heilbrrh., þær eiga að hætta strax. Það er enginn aðlögunartími. Það er ekki haft fyrir því að tala við þær. Þeim er bara sagt í gegnum fjölmiðla: Þið eigið að hætta 1. jan. 1993. Félmrh. hefur ákveðið þetta.
    Hver skyldi vera meginkjarninn í frv.? Hann er ekki sá sem boðaður er í fjárlagafrv. Hann er annar. Hann er sá að breyta Húsnæðisstofnun ríkisins í deild í félmrn. Það er stefna hæstv. núv. félmrh. og kemur ekki á óvart eftir fyrri frv. eins og frv. til laga um málefni fatlaðra sem síðar varð að lögum þar sem stjórn þeirra mála var tekin heiman úr héraði og færð beint undir vald ráðherra og kallað valddreifing. Það kæmi mér ekki á óvart þótt hæstv. ráðherra kallaði það valddreifingu að færa ekki aðeins alla stefnumótun og stjórnun í húsnæðismálum undir ráðuneytið heldur einnig ákvarðanir til framkvæmda á lögunum. Þær heyra undir ráðherra líka. Ákvarðanir eins og hverjum á að úthluta lánum heyra undir ráðherrann. Það kemur skýrt fram í 4. gr. frv. að það er ekki aðeins að hin auma húsnæðismálastjórn, sem verður enn þá til eftir áramót, fái það hlutverk að gera tillögur til ráðherra um að skipta peningum heldur líka á að leita staðfestingar ráðherra á hverri einstakri úthlutun.
    Þetta er kjarninn í frv. og kemur ekki á óvart miðað við samskipti félmrh. við húsnæðismálastjórnina á þeim tíma sem ráðherrann hefur setið. Það skyldi þó ekki vera að stjórnin hafi ekki verið nógu hlýðin við ráðherrann í gegnum tíðina og ráðherrann teldi sig þurfa að eiga nokkur orð við þessa menn og setja þá af. Hið eina sem vantar inn í frv. til að verknaðurinn sé fullkomnaður er að þeir stjórnarmenn sem Alþingi á að kjósa hljóti staðfestingu ráðherra. Þá væri málinu endanlega lokið.
    Ég vil segja varðandi þær tillögur sem eru í frv. og lúta að því sem boðað er í fjárlagafrv. að það er óframkvæmanlegt að ná fram þeim niðurskurði sem þar er stefnt að á næsta ári. Það er óframkvæmanlegt. Frv. mun ekki ná markmiðum fjárlagafrv. 1993. Menn geta gleymt því strax. Það liggur því ekki á að afgreiða þetta frv. fyrir jól. Það gerir ekkert til að mínu mati að menn gefi sér dálítinn tíma í að endurskoða heildarlöggjöf húsnæðismála eins og hér er lagt til. Það þarf nokkru lengri tíma en fáeina daga í það verk.
    Ég vil spyrja hæstv. ráðherra varðandi skyldusparnaðinn sem hún ætlar að fella alveg niður: Hvers vegna hefur ráðherrann ekki borið hag þeirra fyrir brjósti sem er gert samkvæmt núgildandi lögum að spara? Það hafa komið fram ítrekað frá Húsnæðisstofnun ábendingar til ráðherrans um það að lagaleg úrræði skorti

til að innheimta skyldusparnaðinn. Það var meira að segja sent frv. til ráðherrans í febrúar 1991 og ráðherrann beðinn um að flytja það frv. svo tryggja mætti það fé sem tekið er af ungu fólki á almennum vinnumarkaði. Ráðherrann stakk því frv. ofan í skúffu. Ráðherrann varðar ekkert um hagsmuni þessa fólks. Það hafa tapast milljónatugir á þessu ári vegna þess að stofnunin hefur ekki lagaleg úrræði til að innheimta þennan skyldusparnað. (Gripið fram í.) Það má vera, hv. þm., en það hefur þá verið á meðan hann var óverðtryggður en það er hann ekki í dag heldur með góðri ávöxtun. Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera til að tryggja á næstu árum innheimtu þess sem útistandandi er enn, ná því inn sem þessum fyrirtækjum ber að skila? Þeim fjármunum þarf að ná inn. Þær skyldur standa eftir, þó að kaflinn um skyldusparnað verði felldur úr lögum, að innheimta það sem tekið hefur verið af áður en lögin eða þessi kafli var afnuminn.
    Ég lýsi furðu minni á þeirri tillögu ráðherrans að fækka í stjórninni, fyrst og fremst með því að kasta þar út fulltrúum Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands. Ég lýsi undrun minni á rökstuðningi ráðherrans við þetta þar sem ráðherrann lætur að því liggja að hagsmunaárekstrar séu á milli stjórnarmanna og lántakenda og færir það sem sérstök rök að aðilar vinnumarkaðarins eigi ekki sæti í tryggingaráði. Það má auðvitað leita uppi ríkisstofnun þar sem hlutaðeigandi eiga ekki fulltrúa en það má líka finna aðra þar sem þeir eiga fulltrúa. Ég minni ráðherrann t.d. á flugráð. Þar sitja fulltrúar flugrekstrarins og hafa gert lengi. Þau rök duga ekki. Ég bendi ráðherranum á sín eigin lög um málefni fatlaðra. Þar sitja fulltrúar hagsmunaaðila í svæðisstjórn um málefni fatlaðra. Það væri fróðlegt að ráðherra upplýsti hvort það sé í raun þannig að ráðherrann sé andvígur því að þeir eigi þar sæti.
    Þá færði ráðherrann fram þau rök að núverandi skipan gæti þýtt að meiri hlutinn í húsnæðismálastjórn gæti verið annar en skipan ríkisstjórnar. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að mér þætti gaman að fá að vita þau dæmi sem ráðherrann hefur fyrir sér þar sem þetta hefur komið upp. Það er afar fátítt í húsnæðismálastjórn að mál séu afgreidd í ágreiningi. Einu málin sem hafa verið afgreidd með einhverjum umtalsverðum ágreiningi síðan ég kom þar inn eru kröfur hæstv. félmrh. um að hækka vexti. Það verður ekki annað séð á afgreiðslu mála í þeim tilvikum en að ríkisstjórnin hafi haft bærilegan meiri hluta, a.m.k. hafa tillögur þær sem ríkisstjórnin hefur pantað náð fram að ganga í þau skipti. Ég hygg því að ráðherra þurfi ekki að kvarta yfir því að stjórnin sé andsnúin ríkisstjórninni á forsendum þess að ríkisstjórnin hafi ekki meiri hluta í stjórninni þegar á þarf að halda. Þó að tíu manna stjórn sé auðvitað fjölmenn verður að skoða hvert mál fyrir sig. Í þessu tilviki er reynslan sú að engin rök mæla með því að fulltrúar Alþýðusambands Íslands hafi verið einhverjir sérstakir óþekktarormar í þeirri stjórn og tafið mál eða verið á móti. Ég hef ekki getað séð að hægt sé að bera á þá ágætu menn sem eru fulltrúar Alþýðusambands Íslands að þeir séu ófaglegir í sínum vinnubrögðum í stjórninni. Þvert á móti tel ég að stjórnin hafi haft verulegt gagn af því að hafa þessa ágætu fulltrúa í stjórninni. Þeir hafa haft mikla þekkingu á húsnæðismálum og lagt margt gott til þeirra mála. Ég tel að stjórn sem sæti á án þátttöku Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands sé mun fátækari að þekkingu á þessu málum en nú er.
    Ég vil aðeins víkja aftur að skyldusparnaðinum. Það er ekki nýtt að menn hafi verið með umræðu um það að breyta honum. Þegar ég sá fyrst fjárlagafrv. og að í því stóð að leggja ætti niður skyldusparnað í núverandi mynd skildi ég það sem svo að hugmyndir væru uppi um að breyta því fyrirkomulagi en ekki að leggja það alveg niður. Í frv. sem hér liggur fyrir er lagt til að leggja það alveg niður. Ég lýsi yfir andstöðu við þá tillögu. Ég tel það ekki rétt. Hins vegar er ég tilbúinn til að ræða breytingar á núverandi kerfi. Það hafa verið innan húsnæðismálastjórnar til umræðu breytingar á þessu kerfi. Menn hafa látið reikna út fyrir sig ýmsa mismunandi möguleika á því. Mér þykir vænlegastur kostur að lækka prósentuna og fækka undanþágum. Ég er andvígur því að leggja niður það fyrirkomulag að skylda ungmenni til að spara. Ég hef séð allt of mörg dæmi þess að ungt fólk hefur ekki lagt til hliðar og er í standandi vandræðum þegar kemur að því að greiða þó ekki væri nema 10% hlut í félagslegri íbúð. Ég hef líka séð allmörg dæmi þess að ungt fólk hefur átt fyrir þessari útborgun með skyldusparnaði. Ég tel það afturför að leggja hann niður að fullu án þess að eitthvað annað komi í staðinn sem hafi jafngild áhrif. Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra um áhrif af þeirri tillögu sem hér liggur fyrir um það að leggja niður skyldusparnaðinn alveg og greiða hann út af fjárhag stofnunarinnar.
    Það er gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. að úr Byggingarsjóði verkamanna verði veitt lán á næsta ári fyrir 6.191 millj. kr. Þegar er búið að ráðstafa af þessu fé með lánveitingum, sem veittar hafa verið á þessu ári og fyrr, 4.340 millj. kr. Óráðstafað er ekki nema liðlega 1.800 millj. kr. upp í nýjar lánveitingar á árinu 1993. Samkvæmt frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir því að útstreymi af skyldusparnaðarreikningum verði 1.400 millj. á næsta ári. Það útstreymi verður ekki greitt af öðru fé en því sem ætlað er til útlána og það þýðir að þá verða ekki eftir nema um 440 millj. til útlána á næsta ári. Þar með er ríkisstjórnin að afturkalla áform sem hún birtir í fjárlagafrv. um það að lánveitingar á næstu árum verði þannig að árlega verði lánað til byggingar eða kaupa á um 500 íbúðum. Þetta fjárhagsdæmi gengur ekki upp, virðulegi forseti. Miðað við þetta verða útlán eða heimildir, veittar á næsta ári, brot af því sem áformað er. Hæstv. ráðherra hlýtur að gera þingheimi grein fyrir því hvernig á að standa við fyrirheit ríkisstjórnarinnar um að veita heimildir til byggingar eða kaupa á 500 íbúðum á næsta ári í félagslega kerfinu. Hvar á að fá fé til að standa undir því þegar ríkisstjórnin leggur fram frv. sem tekur 1.400 millj. af því sem til þeirra verkhluta eru ætlaðir? Eða hefur ríkisstjórnin í raun og veru ákveðið að skera niður útlánaheimildir sjóðsins þannig að þær verði kannski innan við 100 á næsta ári? Annað blasir ekki við að óbreyttu.
    Þá vil ég gera athugasemdir við það sem kemur fram í frv. um niðurskurð á stofnuninni. Menn verða að hafa í huga að ríkissjóður leggur stofnuninni ekki til nokkurt fé til rekstrar. Stofnunin er rekin með eigin fjárhag og án nokkurs framlags úr ríkissjóði. Niðurskurður á ríkisútgjöldum næst ekki með því að ráðast á Húsnæðisstofnun ríkisins. Það sem ríkisstjórnin er í raun að gera er að bregðast fyrirheitum sínum um árlegt framlag til Byggingarsjóðs verkamanna. Það er þar sem hún er að skera niður og ætlar að láta tekjur stofnunarinnar ganga upp í það sem ríkissjóður á annars að leggja fram. Með öðrum orðum eiga þeir sem eru að taka lán hjá stofnuninni að fara að borga, ekki bara lánin sín heldur líka að leggja fram fé til að mæta skerðingu á ríkisframlagi til Byggingarsjóðs verkamanna. Það á að verða hagnaður af þessum lántakendum. Það er nákvæmlega það sem felst í fjárlagafrv. og þessu frv.
    Mönnum til fróðleiks er rétt að geta þess að við stofnunina eru nú um 63 stöðugildi. Það er allt báknið sem sér um húsnæðiskerfi landsmanna. Það er nú allt og sumt. Ef eitthvað er þá þyrfti að mínu mati fleira fólk til að sinna ákveðnum verkefnum í stofnuninni sem hún hefur ekki getað sinnt sem skyldi sökum skorts á mannafla. Það væri fróðlegt, fyrst ráðherra er svo mikið í mun að skera reksturinn á þessari stofnun niður við trog, að fara yfir það hver rekstrarkostnaðurinn er á óskabarni ráðherrans, húsbréfkerfinu. Þótt þar sé fínt og gott starfsfólk og vel verkhæft þá er það samt ekki svo að húsbréfadeildin sé rekin á lágum nótum. Ég er hér með áætlun um rekstrarkostnað á þessari deild á næstu árum. Á næstu 14 árum er áætlað að þessi deild kosti 2.683 millj. kr. ( Félmrh.: Getur stjórnarmaður í Húsnæðisstofnun ekki séð um að lækka þennan kostnað? Sjálfstæði Húsnæðisstofnunar er mikið, er það ekki?) Af þeirri upphæð verður að leggja 1 milljarð kr. til að mæta afskriftum og er bundið í lögum að verði gert, lögum sem hæstv. félmrh. hefur sett.
    Það væri kannski ekki úr vegi að menn færu yfir þessa löggjöf um húsbréfin til þess að gá að því líka hvort hún sé þannig úr garði gerð að ekki mætti reyna að gera kerfið ódýrara fyrir þá sem eiga að borga það. Það er ekki nóg með að hæstv. ráðherra hafi platað inn á þjóðina kerfi sem heitir húsbréfakerfi með sífelldum fullyrðingum um að það yrðu engin afföll af þessum pappírum. Það er ekki aðeins afföll sem lántakendur hafa orðið að taka á sig og skipta nokkrum milljörðum kr. heldur verða þeir sem taka lán í þessu kerfi líka að borga sérstakt álag til þess að mynda varasjóð til að mæta afföllum. Skilamennirnir verða að borga sérstakt álag fyrir vanskilamennina. Síðan kórónar hæstv. félmrh. þetta fína kerfi sitt með því að standa að skattalöggjöf sem gerir það að verkum að afföllin eru ekki einu sinni talin til vaxtagjalda og vaxtabæturnar fínu, sem menn áttu að fá í staðinn fyrir hækkun vaxta, á nú að skera niður með stuðningi hæstv. félmrh.
    Það verður ekki annað séð en ráðherrann uni sér vel í þessari ríkisstjórn sem hefur fundið markhópinn sinn. Markhópur ríkisstjórnarinnar er ungt barnafólk sem er að kaupa húsnæði. Það er hópurinn sem á að bera milljarðana sem á að færa yfir á launafólk. Ég held að hæstv. félmrh. ætti að biðja það fólk afsökunar sem hún hefur platað á fölskum forsendum til að taka lán í húsbréfakerfinu. Hún ætti a.m.k. að sjá sóma sinn í því fyrst hún er í þessari ríkisstjórn að ræða við hæstv. fjmrh. og fá hann til þess að leggja fram breytingu á skattalögum þannig að afföllin teljist með til vaxtagjalda og að það ákvæði verði afturvirkt þannig að milljarðarnir sem fólkið hefur þurft að borga vegna affallanna fáist að einhverju leyti endurgreiddir.
    Þá er það hönnunardeildin sem er mikill skotspónn um þessar mundir hjá ríkisstjórnarflokkunum og hefur reyndar verið um nokkra hríð. Hún hefur verið vinsælt skotmark hjá Sjálfstfl. í gegnum árin, trúlega vegna þess að arkitektar eru nokkuð öflugur þrýstihópur í þessum regnhlífarsamtökum sem heitir Sjálfstfl. og nú á að framkvæma þá breytingu að leggja deildina niður. Það verð ég að segja hæstv. félmrh. til mikils hróss að hún hefur greinilega valið besta tímann til þess. Hún hefur greinilega svo mikla trú á efnahagsráðstöfunum ríkisstjórnarinnar að hún telur að það fólk sem þarna vinnur og á að hætta 1. jan. nk. geti fengið vinnu með tiltölulega auðveldum hætti. Þannig háttar til með fólkið sem þar vinnur að það er flest fyrirvinnur á sínu heimili. Jafnvel þótt ríkisstjórnin hafi það markmið að leggja deildina niður þá koma menn ekki fram við fólk með þessum hætti, að tilkynna í fjölmiðlum að menn eigi að missa vinnuna 1. jan. 1993 og leggja það til í frumvarpsformi í byrjun desember 1992.
    Mér heyrðist á framsöguræðu hæstv. ráðherra að verulega skorti á að ráðherranum væri það ljóst að það er ekki hægt að reka Húsnæðisstofnun án þess að hafa öfluga tæknideild. Þarna er um gríðarlega miklar fjárhæðir að ræða sem fara í formi lánveitinga út úr stofnuninni og er verið að lána um allt land til bygginga. Það þarf öflugt eftirlit til þess að fylgjast með því að þessu fé sé vel varið. Það þarf að fylgjast með framkvæmdunum og síðan þarf að vinna úr tölum og safna þeim saman. Þarna eru saman komnir í einni deild á Íslandi starfsmenn sem búa yfir mestri þekkingu á sviði húsnæðiskostnaðar á Íslandi. Ef menn ætla á annað borð að halda áfram að lána fé til byggingar á íbúðarhúsnæði verður það ekki gert án þess að stofnunin hafi eigin öfluga tæknideild. Það er óhjákvæmilegt og verður ekki með nokkru móti hægt fyrir ríkisstofnun að fela verktökum úti í bæ að annast eftirlit fyrir sína hönd.
    Það má auðvitað ræða hvort stofnunin á að reka hönnunardeild. Það er spurning sem á rétt á sér en hún hefur líka verið lengi uppi á borðum. Ég er tilbúinn til að fara í gegnum umræðu um það mál en ég bendi á að teikningar frá stofnuninni hafa verið byggingariðnaði hér á landi mjög þýðingarmiklar, ekki hvað síst á landsbyggðinni. Þarna hafa komið fram ýmsar nýjungar sem síðan hafa skilað sér út í þjóðfélagið og ég er ekki allt of sannfærður um að það sé rétt að stofnunin láti það hlutverk frá sér með fullu og öllu að hanna hús og fylgjast með nýjungum á þessu sviði. ( Forseti: Forseti vill spyrja hv. ræðumann hvort hann á mikið eftir af ræðu sinni. Gert hafði verið samkomulag um að halda áfram umræðum um 2. dagskrármálið upp úr klukkan hálffimm. Nú eru hæstv. ráðherra sem þar á hlut að máli og hv. þm., sem var í miðri ræðu, komnir í salinn. Ef hv. ræðumaður er u.þ.b. að ljúka ræðu sinni mun ég gefa honum tækifæri til þess.) Ætli ég eigi ekki nokkuð í land, virðulegi forseti. ( Forseti: Þá verður forseti að fara fram á að ræðunni sé frestað.)