Almannatryggingar

79. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 18:07:18 (3390)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja að þetta svar hæstv. ráðherra varðandi frv. og talnagrundvöll þess er fullkominn útúrsnúningur vegna þess að auðvitað vitum við hvaða tölur eiga að koma út úr frv. Það eru þær sparnaðar- eða niðurskurðar- eða tekjuöflunartölur sem hæstv. ráðherra hefur sjálfur verið að tala um. Hvernig hann svo útfærir reglugerðirnar er hans mál en endanleg niðurstaða liggur fyrir í tölum sem ríkisstjórnin hefur sjálf gefið upp. Til viðbótar við það að í frv. er gert ráð fyrir skattlagningu, niðurskurði upp á einn og hálfan milljarð kr., hefur það verið upplýst í þessum umræðum, virðulegi forseti, að það á að leggja á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga 333 millj. kr. til viðbótar við þær 110 milljónir sem eru teknar af sjóðnum vegna framlags hans til Lánasjóðs ísl. sveitarfélaga. Hér er verið að skerða Jöfnunarsjóð um 400-500 millj. kr., hátt í hálfan milljarð. Sveitarfélögin, sem var hlíft svo mikið að mati hæstv. utanrrh., eiga að borga nærri hálfan milljarð af þeim ráðstöfunum sem hér liggja fyrir. Menn þurfa ekki að spyrja ráðherrann um það hvernig liggur í tölum. Það kemur þegar fram ef menn kunna að leggja saman, draga frá og deila og margfalda. Meira þarf ekki til, hæstv. forseti.