Almannatryggingar

79. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 18:08:56 (3391)

     Jón Helgason (andsvar) :

    Hæstv. forseti. Við getum sjálfsagt öll skilið vel þann vanda sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir, að minnka eitthvað fjárlagahalla eftir afleiðingar efnahags- og atvinnustefnu hennar í eitt og hálft ár. Okkur greinir ekki á um að þarna er um mikinn vanda að ræða. Hins vegar greinir okkur á um það hvernig eigi að fara að því að brúa þetta bil eða reyna að jafna það eitthvað.
    Við minnumst öll lögguskattsins svonefnda sem mikið var umræddur hér fyrir ári þar sem fámennustu og tekjuminnstu sveitarfélögin áttu fyrst og fremst að borga þann brúsa, og það margfaldlega, miðað við þau sem stærri voru. Nú virðist, eftir bréfi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga sem lesið hefur verið úr, vera á ferðinni svipuð aðferð, þ.e. að skerða Jöfnunarsjóð sveitarfélaga a.m.k. um 25% með þessari einu aðgerð og eitthvað meira með öðrum og lögð áhersla á að það muni bitna á fámennu og tekjulágu sveitarfélögunum. Þarna er ágreiningur gífurlegur á milli okkar framsóknarmanna og ríkisstjórnarinnar.
    Ég vænti þess að sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar muni skoða það rækilega og það er alveg áreiðanlegt að ef þetta er rétt sem stendur í bréfi sambandsstjórnar ísl. sveitarfélaga þá mun þetta frv. ekki fara átakalaust í gegnum Alþingi.