Almannatryggingar

79. fundur
Föstudaginn 11. desember 1992, kl. 18:21:02 (3393)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það er dálítið einkennilegt þegar hæstv. ráðherra tekur sig til í ræðustól þegar flestir héldu að nokkuð væri langt liðið á þessa umræðu og spyr hvort menn haldi að tvöföldun þess framlags sem nú er greitt með barni sem meðlag dugi fyrir framfærslu þess og lítur svo á að móðirin eigi að leggja fram helminginn og faðirinn eigi að leggja fram helminginn. Svo spyr hæstv. ráðherra: Haldið þið að þessi upphæð, milli 7 og 8 þús., sem er framlag föðurins, dugi til að ala upp barnið?
    Gott og vel. Um leið og hann skiptir þessu svona upp, þá hefur hann fyrir framan sig frv. þar sem þriðji aðilinn er að málinu, frv. sem hann er sjálfur að flytja. Samt talar hann um eins og það séu aðeins tveir sem standi að framfærslunni. Tillaga hæstv. heilbrrh. í 2. gr. er að með tveimur börnum eigi að greiða 36 þús. og með þremur börnum eða fleiri eigi að greiða 93.600.
    Þetta er það sem hann er að tala um. Hvernig stendur á því að maður getur flutt svona frv. og gleymt þriðja framfærandanum? Hvernig stendur á því? Hefur hann ekki kynnt sér það á undanförnum árum að þriðji framfærandinn í þessum efnum er íslenska ríkið og hefur verið það lengi? Þá spyrja menn: Er eitthvað voðalegt við að svo sé? Hvaðan skyldi íslenska ríkið fá þessa peninga sem um er að ræða? Ætli það komi ekki frá þegnunum? Ætli íslensk börn séu ekki í reynd í þeirri aðstöðu að þegar þau koma sem þegnar í þetta samfélag byrja þau á því að taka út án þess að eiga inni hjá þjóðinni? En þegar þau koma til manndómsára, þá fara þau að greiða til baka þá skuld sem myndaðist. Hver skyldi vera forsendan fyrir að íslenska ríkið ætti kröfu á þegnana um greiðslur? Ætli það sé ekki vegna þess að íslenska ríkið hefur skyldur gagnvart þegnunum. Það væri merkilegt fyrirbrigði ef íslenska ríkið ætti aðeins kröfuréttinn á einstaklingana en einstaklingarnir engan kröfurétt á ríkið á móti. Það væri furðulegt samfélag sem væri þannig byggt upp. Með leyfi forseta, held ég að óhjákvæmilegt sé að fara örlítið yfir stöðu mála.
    Innheimtustofnun sveitarfélaga hefur ekki náð 3 milljörðum og 600 millj. að auki af þeim sem eiga að greiða meðlögin. Þetta er skuld. Hvaða úrræði hefur Innheimtustofnun sveitarfélaga? Jú, hún má í fyrsta lagi taka af launum manna þessa kröfu og hún má taka hana áður en menn greiða skattana. Áður en kemur að skattagreiðslunni má taka þessa kröfu. Hún má gera lögtak í eignum manna. Hún má bjóða upp eignir manna. Hún má gera menn gjaldþrota. Engu að síður blasir það við að það eru 3 milljarðar og 600 millj. að auki sem hún nær ekki inn. Hvað segir stjórnarskráin íslenska um þessa stöðu? Auðvitað er ekki hægt að gera ráð fyrir því að hæstv. ráðherra hafi lesið hana. Hitt er annað mál að það er vottað að hann hefur skrifað undir eið að virða hana. 70. gr. hljóðar svo:
    ,,Sá skal eiga rétt á styrk úr almennum sjóði, sem eigi fær séð fyrir sér og sínum, og sé eigi öðrum skylt að framfæra hann, en þá skal hann vera skyldum þeim háður, sem lög áskilja.``
    Svo einfalt er það. Ég hefði gaman af að sjá íslenska jafnaðarmenn verja það að tekjuskatturinn ætti að vera 75% af laununum. Reagan komst að þeirri merkilegu niðurstöðu með sínum skattasérfræðingum að tveir möguleikar væru til að fá enga skatta. Annar væri sá að leggja á enga skatta. Hinn væri sá að leggja á 100% tekjuskatt. Þá mundi enginn leggja það á sig að vinna því það færi allt til ríkisins og menn mundu ekki hreyfa sig.
    Núna blasir það við að fleiri, fleiri manns eru í þeirri aðstöðu að 75% af laununum þeirra er tekin úr umslaginu og 25% er það sem þeir fá. Það er ekki skrýtið þó það þurfi reiknimeistara úr háskólanum til að komast að því að þetta sé það skynsamlega sem eigi að gera. Engu að síður dugar það ekki. Og þó sér lögfræðingur um innheimtuna. Það er merkilegt þegar menn fara í slíkan blekkingarleik og hér er um að ræða.
    Við skulum skoða þetta dæmi dálítið betur. Ef við mundum breyta íslenska skattkerfinu og segja: Sérhvert barn á rétt á persónufrádrætti alveg eins og fullorðið fólk. Það er ekkert meiri sanngirni í því að hægt sé að færa persónufrádrátt á milli hjóna. Þ.e. það hjónanna sem vinnur úti geti komið með skattkort hins aðilans og sagt að það vilji líka fá úttekt á það. Ef menn breyttu þessu á þennan veg mundi sá sem á barn á framfæri koma með skattkort barnsins og fá það dregið frá líka. Þá væri spurning hvort þessir feður ættu ekki rétt á því að hafa hálft skattkort barnsins og geta lagt það inn. Þá væri niðurstaðan sú að þeir mundu vissulega lækka í tekjuskatti en staða þeirra til að standa að uppeldi barnsins væri aftur á móti allt önnur.
    Ég skil ekki hæstv. ráðherra hvers vegna hann telur að þessi blekkingaleikur eigi að vera hér viðhafður. Hæstv. ráðherra hlýtur að gera sér grein fyrir því að það sem hann er hér að leggja til að hækka meðlögin eins og sagt er í skýringum við 2. gr. Með leyfi forseta, er það orðað svo:
    ,,Ákveðið hefur verið að lækka mæðra- og feðralaun í þeim mæli að þau falli niður með fyrsta barni `` --- þau hafa varla verið mikil áður en fyrsta barnið var fætt þannig að það þarf húmor til að taka það fram að þau falli niður með fyrsta barni. Maður hefði haldið að þeir hefðu getað orðað þetta á þann veg að þau yrðu ekki greidd með fyrsta barni, en það þarf mikinn húmor til að setja það þannig upp að þau falli niður með fyrsta barni --- ,,og lækki samsvarandi með tveimur börnum og fleiri. Jafnframt er gert ráð fyrir að heimilt verði að tekjutengja greiðslu mæðra- og feðralauna með tveimur börnum eða fleiri. Til mótvægis hækkar barnalífeyrir og meðlag.``
    Hér er forðast eins og heitan eldinn að hafa neinar tölur inni. Að tölunum eiga menn að leita. Það á að finna þær í nefnd og flíka þeim þar. Það á ekki að láta þær liggja á glámbekk fyrir fréttamenn þegar verið er að kynna málið. Það á ekki að framfylgja þeirri skyldu að fullnægjandi skýringar komi með þessum greinum. Nei, það er verið að fela hlutina. Það er verið að reyna að halda því fram að framfærendur barna séu aðeins tveir. Þeir hafa verið þrír. Það vita allir að ríkisvaldið ber samkvæmt stjórnarskránni ábyrgð á öllum þegnum landsins. Það er eitt af því sem fylgdi, afleiðingin af því að þjóðin gerðist kristin árið 1000. Það er nefnilega þó nokkuð stór ákvörðun sem menn þurfa að taka ef menn vilja sópa þessu út því að þá er öll bræðralagskenning kristinna manna farin. Þá er hér komið nákvæmlega sama fyrirkomulagið og ríkir hjá dýrum merkurinnar að ef hvert og eitt bjargar sér ekki, þá deyr það að sjálfsögðu drottni sínum. Svo einfalt er það. Aftur á móti gerir 70. gr. ráð fyrir því að samfélag manna byggi upp á öðrum leikreglum og þess vegna er þessi ákvörðun inni og hefur verið á undanförnum árum að taka tillit til aðstæðna.
    Ég þekki hæstv. heilbrrh. það vel að ég læt mér ekki detta það í hug að hann viti ekki hvað hann er að gera. Ég er sannfærður um að hæstv. heilbrrh. gerir sér grein fyrir því að hann er með þessu móti að seilast í fjármuni Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í reynd. Hann veit að hann nær þeim peningum ekki gegnum innheimtuna sem hér er verið að leggja til að taka. Hitt er svo aftur á móti umhugsunarefni og dálítið merkilegt umhugsunarefni hvaða skattaprósentu hann telur í reynd hægt að taka af mönnum án þess að það verði til þess að þeir gefist upp og hætti að stunda störf hjá öðrum. Mér er ljóst að það er þó nokkuð af mönnum sem eru verktakar með eigin atvinnurekstur og munu reyna að forða sér með þeim hætti frá því að greiða þessi gjöld. Mér er líka ljóst að sumir fara af landi brott. En það er líka dálítið merkilegt að samflokksráðherra hæstv. heilbrrh. hefur allt aðrar kenningar uppi ef um er að ræða barn sem á föður frá Suður-Ameríku, að ég ekki tala um frá Arabalöndum. Hver skyldi þá eiga að sjá um föðurhlutverkið samkvæmt þeim lögum sem hæstv. félmrh. beitti sér á sínum tíma fyrir að yrðu samþykkt? Hver skyldi þá eiga að sjá um greiðslurnar? Þá er allt í einu íslenska ríkið orðinn sá aðili sem gegnir föðurhlutverkinu. Þá þykir bara sjálfsagt að skrifa þetta allt á Friðrik.
    Ég verð að segja eins og er að ég trúi því ekki, ég hreinlega trúi því ekki að hæstv. ráðherra geri sér ekki grein fyrir því að þessar hugmyndir sem hér er verið að setja fram eru út úr myndinni.