Umræða um Evrópskt efnahagssvæði

80. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 13:11:05 (3397)

     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Það er afar sérkennilegt að sjá hvernig hv. síðasti ræðumaður böðlast um í ræðustól með árásum á forseta, gjörsamlega að tilefnislausu. Ég vænti þess að það séu margir sem horfa á það á sjónvarpsstöðinni Sýn og fylgist með því hvernig hv. þm. leyfir sér að haga sér, sem er fyrir neðan allt velsæmi, að ráðast á forseta þingsins út af dagskrá fundarins sem sett var saman í góðu samkomulagi við alla þingflokksformenn í gær. Það er engu líkara en hv. þm. viti ekki hvað klukkan slær í þinginu.
    Jafnframt hefur verið gert samkomulag, eins og forseti greindi frá, um það hvernig staðið verður að framhaldinu hér. Ef forseti fengi vinnufrið fyrir hv. þm. væri hægt að ganga til dagskrár, ljúka þeirri atkvæðagreiðslu sem á dagskrá er og gera síðan það hlé sem ráðgert er að gera til þess að þingflokkarnir geti ráðið ráðum sínum. Allt er þetta með eindæmum hvernig hv. þm. vogar sér að lesa upp úr fréttaviðtölum við hæstv. utanrrh. og túlkar sem þingsköp út af dagskrá fundarins. Þetta er fjarstæðukennt. Ég vona svo sannarlega að hv. þm. sjái að sér í þessu og verði sér ekki til frekari skammar á fundinum.