Skýrsla utanríkisráðherra um niðurstöður ráðherrafundar EFTA-ríkjanna

81. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 15:00:54 (3407)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Það hefur æðimikið breyst í þessu máli frá því að formaður framkvæmdastjórnar EB bauð EFTA-ríkjunum til viðræðna með frægri ræðu sinni í janúar 1989. Þá talaði Delors um tvær sterkar stoðir og lagði á það mikla áherslu m.a. að EFTA-stoðin ætti ekki síður að vera sjálfstæð og sterk en EB-stoðin þó að EB-stoðin yrði að sjálfsögðu eitthvað sverari.
    Já, æðimikið hefur breyst hjá EFTA-stoðinni og hún ekki orðin nema svipur hjá sjón. Það lá smám saman fyrir að hin EFTA-ríkin hygðust sækja um fulla aðild að EB svo fljótt sem þau mættu. Það kemur mjög greinilega fram, sýnist mér, í því hvernig samningurinn hefur þróast í seinni meðferð hans að hugur hefur ekki fylgt máli hjá ýmsum EFTA-þjóðunum. Enda kemur nú þegar fram í viðtali við sendiherra Íslands í Genf, Kjartan Jóhannsson, að það sé í raun engin ástæða til að vera að hafa áhyggjur af vissum málum því að hin EFTA-ríkin ætli sem allra fyrst að ganga inn í EB.
    Ég tel að með því sem nú hefur gerst hafi EFTA-stoðin sannarlega veikst gífurlega. Ég leit a.m.k. alltaf svo á að þátttaka Sviss í þessu væri afar mikilvæg og leit á það sem mjög styrkan þátt í umræddri EFTA-stoð. Sviss er ekki smáþjóð í raun þó landið sé lítið að ummáli. Sviss er með hæstu þjóðartekjur á hvern mann í heiminum. Og í Sviss er þjóð sem hefur tekist betur en nokkurri annarri þjóð að sigla í gegnum þennan ólgusjó efnahagserfiðleikanna. Ég tel það vera meiri háttar skell, ef ég má orða það svo, fyrir hin EFTA-löndin að Sviss hyggst ekki verða með.
    Hæstv. utanrrh. gerði lítið úr þessu máli og taldi að við Íslendingar og Alþingi Íslendinga ættum að samþykkja samninginn eins og skot og á honum þyrfti engar breytingar að gera. Mér hefur raunar heyrst hæstv. utanrrh. draga nokkuð í land með þetta. Ég lýsi því hins vegar yfir að ég tel samninginn alls ekki þingtækan eins og hann er nú. Eða dettur einhverjum í hug t.d. að fara að samþykkja á hinu háa Alþingi 1. gr. frv. eins og það liggur fyrir? Þar er heimilt að fullgilda fyrir Íslands hönd, með leyfi forseta, ,,samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls`` o.s.frv. Og í 3. lið ,,samning um fastanefnd EFTA-ríkjanna sem undirritaður var í Óportó`` o.s.frv.
    Ég trúi því ekki að hæstv. utanrrh., sem er þingvanur maður, ætli Alþingi að samþykkja slíka markleysu. Þetta er hrein markleysa, ekkert annað en markleysa. Ég álít a.m.k. að slíkt frv. yrði að sjálfsögðu að breytast.
    Í öðru lagi afhenti hæstv. utanrrh. utanrmn. í morgun drög að viðbótarbókun við samninginn --- þær eru nú orðnar æðimargar --- upp á sex síður. Það má vissulega orða það svo að þetta séu lítilfjörlegar breytingar. Þetta litla land Sviss dettur út og þá á þetta bara við okkur hin o.s.frv. Má segja að það sé meginatriði þessara breytinga. Gildistakan breytist þó líka samkvæmt þessum drögum til 1. júlí 1993, svo að eitthvað sé nefnt. Einnig er samkomulag um að þingmannanefndin breytist t.d., þ.e. fjöldinn í nefndinni, þar sem upp er talið hve margir skuli vera frá hverju landi eru bara eyður við.
    Kannski er eitt það stærsta í þessu sýnist mér það sem snýr að dómstólnum og eftirlitsstofnuninni og sumt þar vekur upp vissar spurningar satt að segja. Þar breytist fjöldinn að sjálfsögðu. Sviss á ekki lengur aðild að þessum stofnunum. Hér segir t.d. í lauslegri þýðingu minni, með leyfi forseta: ,,Ákvarðanir dómstólsins skulu því aðeins gildar þegar ójöfn tala dómara tekur þátt í ákvörðuninni.`` Þetta sýnir hvílíkt klúður þetta er orðið. Með öðrum orðum er hér gert ráð fyrir því að dómararnir verði sex. Það væri fróðlegt að vita hvernig á að tryggja að aðeins fimm mæti. Það er ekkert sagt um það hér. Það segir að vísu að ákvörðun skuli gilda ef þrír mæta en það er ekkert sem tryggir það. Mér sýnist satt að segja að brotthvarf Sviss hljóti að vekja upp miklu fleiri spurningar en hæstv. utanrrh. hefur viljað láta að liggja í þessum umræðum.
    Hæstv. utanrrh. sagði að snemma í janúar ætti að ganga frá þessari viðbótarbókun. Það er ekki langur tími, hæstv. utanrrh. Mér sýnist ljóst mál að Alþingi Íslendinga hlýtur að bíða með afgreiðslu samningsins þangað til hann liggur fyrir í endanlegri mynd. Ég lít satt að segja svo á að við séum svo heppin á hinu háa Alþingi að hafa ekki -- eins og hin löndin -- flýtt okkur um of við afgreiðslu samningsins. Við getum afgreitt hann og samþykkt, ef meiri hlutinn kýs, í réttu formi. Mér þykja það satt að segja heldur undarleg rök hjá hæstv. utanrrh. þegar hann segir að hin löndin eigi kröfu til þess að vita afstöðu okkar Íslendinga fyrir fram. Ég ætla ekki að fara út í það sem hann hefur lýst í því sambandi.
    Hvernig var þegar allur þessi ferill hófst í þjóðþingum viðkomandi landa? Enginn vissi að sjálfsögðu þá hvort drögin yrðu samþykkt alls staðar. Staðreyndin er bara sú að við erum að hefja nýjan feril. Hinar þjóðirnar hafa samþykkt samninginn og ætla sér að gera það í raun og veru með breytingu á samningnum sem fer fyrir þjóðþingin. Við þurfum ekki að breyta samningnum eftir á.
    Ég hygg því að langskynsamlegast í þessu sé að taka málið nú rólega og leggja síðan samninginn strax og unnt er í endanlegu formi fyrir Alþingi. Við höfum þegar unnið gífurlega mikið í þessum samningi og þá vinnu þarf ekki að endurtaka. Ég sé ekki t.d. að utanrmn. þurfi að sitja yfir því sem hefur gerst. Það sýnist mér ekki nema hún ætlar að koma saman á mánudaginn út af lagalegum atriðum þess sem ég er hér að tala um, þ.e. hvort samningurinn er þingtækur. Það er vitanlega nauðsynlegt að ganga úr skugga um það.
    Ég ætla mér ekki að lengja þessa umræðu. Ég ætla að standa við það sem um hefur verið talað. Ég ætla ekki að endurtaka þau ummæli sem hæstv. utanrrh. hefur leyft sér að hafa um Alþingi erlendis og birtast í blöðum í dag og í sjónvarpi í gær. Þau eru náttúrlega slík að það er varla fært að endurtaka þau hér í þingsölum, um líkamlegt þol alþingismanna o.s.frv. En heldur hæstv. utanrrh. að slík ummæli auðveldi meðferð þessa máls á hinu háa Alþingi? Ég tel mig hafa það mikla þingreynslu að ég geti svarað því án þess að bíða eftir svari utanrrh. Það gerir það að sjálfsögðu ekki. Og bara slík óvarkár ummæli og algjörlega tilefnislaus munu vitanlega valda því að málið verður allt miklu erfiðara í meðferð hér.
    Ég gerði samning áður en ég fór til útlanda fyrir nokkru um að taka málið fyrir mitt leyti a.m.k. á dagskrá í dag. Og ég sagði þegar þetta var rætt í morgun að ég ætlaði að standa við það ef meiri hlutinn ákveddi slíkt þó ég teldi það afar óskynsamlegt. Mér skilst að meiri hlutinn hyggist taka málið til 2. umr. eftir helgina. Ég spyr: Hvað um öll efnahagsmálin? Hvað um öll frv. sem bíða afgreiðslu? Ætlar meiri hlutinn að guggna á þeim málum, ætlar hann að hrökkva frá þeim? Við höfum átta virka daga að laugardegi meðtöldum til jóla og tel ég þá með dagana 21. og 22. des. Hvenær á að taka þau mál fyrir sem hæstv. ríkisstjórn hefur heitið að afgreiða hér og teljast til efnahagsmálanna? Ég spyr því hvort hæstv. utanrrh. hafi hugleitt þetta mál. Þegar fyrir liggur að samningurinn í endanlegri gerð á að liggja fyrir, eins og hann sagði áðan, snemma í janúar þá sé ég ekki að miklu sé tapað.
    Vitanlega mætti spyrja ýmissa spurninga í þessu sambandi. Hér er látið að því liggja að það eina sem gæti í raun breyst með brotthvarfi Sviss sé greiðslan í þróunarsjóðinn. Sviss á að greiða 28%, eða 37 milljarða kr. ef ég man rétt. Það er töluverð breyting og liggur ekki enn þá fyrir hvernig því verður skipt. Er ekki eðlilegt að Alþingi viti það áður en það afgreiðir þennan samning?
    Svo er annað mál. Ég spurði í morgun: Hver er áætlaður kostnaður við rekstur EFTA vegna hins Evrópska efnahagssvæðis? Ég fékk engin svör. En ég get að vísu upplýst að hið virta tímarit Financial Times segir að áætlaður kostnaður sé 100 milljónir svissneskra franka eða um 4,4--4,5 milljarðar ísl. kr. Það virta blað telur að það hljóti að vera umhugsunarefni hjá EFTA-ríkjunum sem eftir verða hvernig því verður skipt. Ég vildi gjarnan vita hvort hæstv. utanrrh. hefur af því engar áhyggjur. Ég held satt að segja að Alþingi hljóti að gera kröfur til þess að fá einnig slíkar upplýsingar.
    Eins og ég sagði áðan er alls ekki ætlun mín að tefja fyrir þessu máli á nokkurn máta og væri að mörgu leyti hentugt að fá það út úr heiminum á annan hvorn veginn þannig að við getum farið að snúa okkur að þeim málum sem varða okkur Íslendinga mest a.m.k. á líðandi stundu, hvernig á að reisa hið íslenska atvinnulíf úr þeirri rúst sem afskiptaleysisstefna og frjálshyggja hæstv. ríkisstjórnar hefur keyrt það í. Það er mál sem þolir enga bið. En þetta mál þolir vel bið fram í janúar.