Skýrsla utanríkisráðherra um niðurstöður ráðherrafundar EFTA-ríkjanna

81. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 16:09:00 (3413)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Fyrst langar mig til að fagna því að sættir skyldu nást um það að þessi umræða færi hér fram en ekki yrði knúið á um að málið, sem á dagskrá var, yrði tekið til umræðu. Það hefði ekki verið hæfa að gera það og ber að fagna því að sættir hafa nú náðst um þetta litla atriði. Vonir eru þá til að sættir kunni kannski að nást um eitthvað fleira því málið er æðistórt. Það er margt sem sameinar okkur og sem betur fer færra sem gæti sundrað okkur. Gott er þess vegna, eins og einhver nefndi, að hvíla sig um helgina, jafna sig og hugsa sitt ráð. Það vona ég að menn muni gera.
    Ég verð að þakka hæstv. utanrrh. fyrir ýmsilegt af því sem hann upplýsti okkur um. Í orðum hans kom það fram æ ofan í æ, sem var svo sem ekki til þess að hæla afstöðu okkar eða ráðherrans, gagnvart EES, síður en svo, að þar væri margt óklárt og yrði að vinna á mörgum vettvangi til þess að heilleg mynd yrði af málunum. Hann nefndi í því sambandi ýmsar breytingar sem þyrfti að gera á lagatextum o.s.frv. Ég hef sagt í þessum ræðustól af öðru tilefni við þennan sama hæstv. ráðherra að hann hefði verið að sýna okkur drög að samningi. Það var fyrir ærið löngu og óskaði ég eftir því að hann setti ekki stafi sína á eitt eða neitt og heldur ekki aðalvinur hans, bardagafélagi í embættismannastétt, aðalsamningamaður okkar, Hannes Hafstein. Illu heilli var það samt gert og málið knúið áfram. Við stæðum betur ef þá hefði verið unnið að tvíhliða samningaviðræðum við Evrópubandalagið sem voru á borðinu allan tímann og eru það kannski enn þá þannig að ekki sé nú allt glatað.
    Þessar breytingar, sem hæstv. ráðherra nefndi, eru þannig vaxnar að raunverulega er ekki um annað að ræða en drög að samningi við Evrópubandalagið. Enn þá eru þetta slitrur og allt ófrágengið og markleysa, eins og einhver fundarmanna sagði. Þetta eru í hæsta máta óeðlileg vinnubrögð, við erum að fjalla um hálfgerðan hlut. Við fréttum á hverjum einasta degi af því að það er meiri og minni óeining í þessu Evrópusamstarfi alls staðar, í öllum stofnunum, togstreita og ágreiningur svo að maður tali ekki um að ekki er hægt að ráða við að friður sé í álfunni og verður að kalla aðra til en Evrópumennina til þess að skakka leikinn. Við erum Evrópufólk og okkur þykir þetta auðvitað sárt og leitt en við viljum engu að síður kalla okkur Evrópumenn og höfum rétt til þess að hafa afskipti af álfu okkar.
    Ég segi eins og er að þetta Evrópusamstarf hefur verið eitthvað það lærdómsríkasta fyrir mig sem formann Evrópustefnunefndarinnar á sínum tíma og á tímabili formann utanríkismálanefndar að kynnast vinnubrögðum hjá þessu bákni sem þarna er að vaxa upp. Það er engu eftir að sækjast fyrir smáþjóð eins og okkur og þar að auki langsamlega ríkustu þjóð heimsins sem á réttindi langt norður í höf, suður í höf, út af Reykjaneshrygg o.s.frv., sem ónýtt eru og vanrækt að nýta.
    Það er enginn EES-samningur til. Hvar er þessi samningur? Þetta eru drög, slitur, sem er verið að þvæla um að verði hægt að afgreiða -- kannski innan eins, tveggja eða þriggja mánaða. Það verður ekkert slíkt afgreitt. ( Gripið fram í: Innan sjö daga, er það ekki?) Jú, en ráðherrar eru nú oftast nær nokkra mánuði og jafnvel hálft ár að jafna sig og sumir ákafamenn eru stundum allsgáðari en ella, og meina ég nú ekki neitt annað en það sem sagt er, að í þessu efni erum við auðvitað öllsömul meira og minna á rjátli, við getum ekki fótað okkur. Ég játa það að ég geri það ekki. Þess vegna er það rétt sem bæði ég og aðrir hafa sagt að við þurfum tíma. Við þurfum að staldra við, við þurfum að sjá hvað aðrir gera og eins og hv. þm. Steingrímur Hermannsson sagði að þá er þetta mál þannig vaxið að við þurfum lengri tíma og eigum að fá þann tíma.
    Ef við gætum nú bara sameinast um það að vera ekki t.d. í næstu tvo, þrjá mánuðina að kýta innbyrðis heldur að rífast þá að tjaldabaki og komast að einhverri niðurstöðu. Kannski verður það ekki sameiginleg niðurstaða allra 63 þingmannanna en þó gæti það orðið. Við höfum svo margt annað sem við þurfum að hugsa um og berjast fyrir núna að það er alveg nóg fyrir okkur til þess að rífast um daginn út og daginn inn þótt við sættumst í þessu efni, gerðum vopnahlé á meðan við erum að fóta okkur á öllum málavöxtunum.
    Hæstv. ráðherra er í kallfæri og mig langar að spyrja hann hvað hann hafi átt við með því þegar hann gat um að það væri haft eftir þingmönnum í þingmannanefnd fyrir skömmu, væntanlega þá þingmannanefnd EFTA sem fór utan, að einhver þar hefði sagt að allt væri í óvissu. Er það ekki í þeirri för sem einhver á að hafa sagt það, ráðherra? Ég var sá sem sagði það við hvaða blaðamann sem hafa vildi. Það er allt í upplausn og við eigum auðvitað að segja þann sannleika hvar sem er. Eigum við að fara að ljúga að heiðarlegum blaðamönnum? ( Gripið fram í: Þeir gera það nú sumir.) Jú, þeir eru til, ég þekki það af langri reynslu, ég var 15 ár ritstjóri. Ég skammast mín ekkert fyrir það. Hefur þetta ekki allt saman ræst? Er þetta ekki enn þá satt í þessari baráttu síðustu tvö, þrjú, fjögur, fimm árin? Hef ég haft rangt fyrir mér í einhverju? Já, ég vil þá gjarnan fá að heyra það frá ráðherra.
    En ráðherrann segir að því hafi verið beint sérstaklega að Íslendingum að nú þyrfti að hraða sér sem allra mest, það beinist að Íslandi af því að Ísland er eftirbátur annarra í að samþykkja hvað sem í Brussel er óskað eftir. Sérstaklega beinist þetta allt að Íslendingum. Nú, ef það beinist að okkur þá bara

beinist það að okkur. Er það eitthvað glatað fyrir okkur þó þeir séu eitthvað að skammast og fjargviðrast út af því að við ætlum að verða síðastir og að við ætlum að hugsa ráð okkar og vinna þannig að við hlaupum ekki á okkur? Ég held að það sé allt í góðu lagi. Og þó það séu einhverjar utanstefnur, þær eru orðnar algengar, þær eru orðnar nærri því í hverjum mánuði. Þó að einhver ráðherra komi heim úr slíkri utanstefnu með einhverjar upplýsingar um hvað herrarnir í Brussel, eða hvað það nú heitir allt saman, eru að gera hverju sinni. Við látum það sem vind um eyrun þjóta. Við höldum bara áfram og bjóðum þá velkomna þegar þeir koma heim og fögnum því að þeir skuli nú komnir og geti snúið sér að því að sinna öðrum verkefnum en þeim, sem hvort sem er eru dauðadæmd og í andstöðu við það sem íslenska þjóðin vill. Það er alveg á hreinu.
    Að vísu var komið í veg fyrir það að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði. Ég held að við ættum kannski að taka málið upp að nýju og vita hvort kannski væri ekki hægt að sættast á að leyfa nú þjóðinni að segja eitthvað um málið. Það væri náttúrlega mikið skref í áttina til sátta og betra þjóðlífs í okkar góða landi vegna þess að það er alveg á ljósu að bræður munu berjast ef haldið er áfram með þessum hætti. Það verður upplausn í okkar pólitíska lífi, menningarlífi, og náttúrlega efnahagslífinu, ég er ekki að tala um það. En það skiptir kannski ekki máli þó að fólk sé að missa íbúðirnar sínar o.s.frv. Ég ætla ekki að fara neitt út í það nú, það er ekki efni málsins núna.
    Svo er það þessi litla stjórnarskrá okkar. Hvað ætlum við að gera við hana? Ein og ein rödd heyrist segja: Ég hef talað við lögfræðing. Hann vill ekki segja að þetta sé stjórnarskrárbrot. Ég skil vel þann lögfræðing sem er ekkert að segja neitt um það ótilneyddur nema hann sé sérstaklega beðinn. Hann vill ekkert blandast inn í þessa deilu. En hver einasti lögfræðingur veit það auðvitað að þetta er ekkert annað en brot á stjórnarskránni, allt í bak og fyrir. Þeir vita það allir, hvað sem þeir segja. Flestir þeirra segja þó berum orðum að þetta sé stjórnarskrárbrot. Björn Þ. Guðmundsson lagaprófessor gaf þessa yfirlýsingu sem menn þekkja væntanlega, að hann hefði nú, eftir að hann fór að kanna málin betur á sl. ári og svo á síðustu vikum og mánuðum, sannfærst um að þetta væri stjórnarskrárbrot. Ætlar einhver hér inni að fremja stjórnarskrárbrot? Væri hann ekki í hjarta sínu glaður ef það væri hægt að finna útleið frá því a.m.k. að það yrðu ekki svo og svo margir af þingmönnum Íslendingar sem með opin augu rifu upp stjórnarskrána og þau heit sem hafa verið gefin í því sambandi?
    Ég vil endurtaka það hér og nú, enn og aftur: Ég geri það aldrei að brjóta stjórnarskrána. Kosti það það sem kosta vill. Ég veit að það eru mjög margir þingmenn sem ekki ætla sér að gera það. Þegar hæstv. ráðherra finnur upp á því að eyrnamerkja okkur alla þá veit hann ekkert um það hvað hver sauðurinn er að hugsa, því að allir erum við sauðir og þjóðin hefur ekki hundsvit á þessu, er manni sagt af ráðherranum. Það eru allt aðrir, og þá náttúrlega einkum og sér í lagi hæstv. utanrrh. sem hefur allt vitið. Og þess vegna er það víst allt í lagi að við séum þeir sauðir að skilja það ekki að við eigum að láta hvað sem er yfir okkur ganga. En ég er ekki farinn að sjá það, sérstaklega ekki ef yrði reynt að knýja þetta blessað frumvarp fram með auknum þunga og offorsi. Ég er ekki búinn að sjá að það verði samþykkt. Ég vona að ég þurfi ekki að líta í augu þess fólks sem greiðir því atkvæði. Það er algjörlega augljóst mál að það væri eitt mesta hneyksli í réttarsögu Íslands og yrði lengi í minnum haft. Menn geta ekki skotið sér undan því nema þá bara að segja af sér þingmennsku, þ.e. ef þeir ekki hafa af einhverjum óeðlilegum ástæðum sannfærst um það með einhverjum svo miklum töframætti einhverra áróðursmanna að það hafi verið hægt að hvítþvo þá, þá er það auðvitað fyrirgefanlegt. En annars ekki.
    En þegar við erum að tala um þetta blessaða bandalag, þetta ógnarlega stóra bákn sem núna er að ná auknum völdum dag hvern, bæði á kostnað okkar og allra annarra þjóðríkja líka vegna þess að þjóðríkin eru að verða úrelt í augum þessa fólks. Ég held hins vegar að þau séu einmitt framtíðin og eru á næsta leyti. Ég held að fólk sé að átta sig á því að það séu hin litlu og meðalstóru þjóðríki sem séu æskilegustu einingarnar til þess að velmegun, mismunandi menning, frelsi og jafnrétti verði í heimsálfu okkar og okkar heimshluta og auðvitað um heim allan, heldur en þessi ómanneskjulegu bákn sem þið sjáið --- bara utan á húsunum sjáið þið hvernig fólk hlýtur að hugsa inni í þeim. Það hugsar ekki neitt --- nema um tölvurnar og svo náttúrlega atvinnuöryggið og nýju ,,sekreterana`` og allt það. Það er þetta sem þeir hugsa um í þessum húsum. Það lekur svona út stundum að maður sér óvart á andlitunum á þeim hvað þeir hugsa þó þeir segi það ekki berum orðum. Tala mjög hátíðlega um þetta á þessum fundum, þar á meðal þessum sem við vorum að tala um áðan, að ég hefði sagt eitthvað sem væri víst ósæmilegt og ég ætla ekkert að endurtaka það sem ég sagði þar við hvern sem hafa vildi. Ég held nú að Guðrún Helgadóttir t.d. hafi sagt eitthvað líka og fleira gott fólk í þessum ferðum og við erum ekkert að dylja það. ( GHelg: Ég sagði að málið væri í óvissu.) Já, þú sagðir það. ( GHelg: Sem það er.) Sem það er, já, við erum nákvæmlega sammála.
    En ég held að ég bæti ekkert fyrir fólki, mér eða ykkur, að vera að segja meira um þetta, ég held það ætti að skiljast sem ég er búinn að segja, hvort sem menn eru því öllu sammála eða ekki. En ég endurtek að það var mjög gott að sættir skyldu nást um það að láta málið fara fram með friðsamlegum hætti núna. Svo getum við öll hugsað okkar ráð og það koma tímar og koma ráð. Nú, ef svo færi að þessi ógæfa henti þá mundum við Íslendingar þó við misstum frelsið auðvitað hefja nýja frelsisbaráttu á sama degi og sigra á ný. Við getum misst frelsið næstu missirin ef þannig er á haldið. En við hefjum þá bara nýja frelsisbaráttu.