Skýrsla utanríkisráðherra um niðurstöður ráðherrafundar EFTA-ríkjanna

81. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 16:26:23 (3414)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Vegna orða hv. 4. þm. Reykv. áðan um það að hér væri enginn samningur á ferðinni heldur einvörðungu samningsslitrur þá held ég svona eftir á að hyggja að það hljóti nú að fara að verða niðurstaða þingmanna að þetta sé rétt hjá þingmanninum um að hér séu samningsslitrur á ferðinni því að svo oft hefur þessi samningur náttúrlega tekið breytingum á undanförnum mánuðum að þau orð fara að sannast í krafti sjálfra sín.
    Hin formlega hlið málsins hefur tekið ýmsum breytingum á undanförnum mánuðum en auðvitað hefur þetta mál bæði formlega hlið og eins pólitíska hlið. Mér sýnist sem niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Sviss núna fyrir skemmstu sé enn einn flöturinn á þeirri pólitísku kreppu sem gengur núna yfir Evrópu. Þessi pólitíska kreppa helst í hendur við efnahagskreppuna sem við horfum á í Evrópu núna, ekki bara í Vestur-Evrópu heldur ekki síður í Austur-Evrópu og það er sem sagt pólitísk og efnahagsleg kreppa beggja vegna. Við sjáum þetta birtast í þjóðernisdeilunum í Austur-Evrópu, við sjáum þetta birtast í pólitískri upplausn þar, við sjáum þetta birtast í Maastricht-samkomulaginu, hvernig fór með það og hvernig málin standa þar og við sjáum þetta núna birtast í EFTA. Það eru sem sagt ýmsar birtingarmyndir á þessari efnahagslegu og pólitísku kreppu.
    Það blasir nokkuð við að engin sátt er í Evrópu um það hvernig málum skuli hagað, enginn skýr þjóðarvilji er í ríkjum Evrópu um framtíðarþróun þessara samfélaga. Flestar þjóðir Evrópu virðast klofnar í tvær jafnstórar fylkingar í Evrópumálunum og varðandi Evrópusamrunann. Við þurfum ekki annað en að horfa á Frakkana sem samþykktu Maastricht með mjög naumum meiri hluta, Danina sem felldu það með naumum meiri hluta, Svisslendinga sem felldu EES með mjög naumum meiri hluta. Í Bretlandi og reyndar líka í Þýskalandi sýna skoðanakannanir að þjóðirnar eru mjög klofnar. Svíar eru mjög tvístígandi í afstöðu sinni gagnvart EB og sama er að segja um Norðmenn og á Íslandi eru tvær nokkuð jafnstórar fylkingar í afstöðunni til hins Evrópska efnahagssvæðis. ( Gripið fram í: Það er ekki rétt.) Ja, skoðanakannanir sýna þetta, þó að hins vegar sé það auðvitað mikill galli að það skuli ekki hafa fengist að leggja þetta mál í dóm kjósenda þannig að það fengist þá út úr því marktæk niðurstaða.
    Helmingur þjóðanna er andsnúinn Maastricht eða Evrópsku efnhagssvæði þrátt fyrir að allar helstu valdastofnanir séu fylgjandi þessum samningum, flestir hverjir pólitískir flokkar í þessum löndum, fjölmiðlar, öflug almannasamtök, hluti verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekendur o.s.frv. En engu að síður er helmingur þjóðanna andsnúinn og tekur þá afstöðu þegar málið er borið í dóm þjóðanna í almennum atkvæðagreiðslum.
    Hvað segir þessi staða okkur? Þetta segir okkur fyrst og fremst að um helmingur hverrar þjóðar treystir ekki dómgreind og góðum vilja þeirra sem með völdin fara í hverju samfélagi. Ákveðið misgengi sem þarna á sér stað, ákveðið sambandsleysi milli almennings og valdhafa í ríkjunum, og þetta er auðvitað áhyggjuefni og hlýtur að vera öllum áhyggjuefni, hvaða skoðun sem þeir hafa hins vegar á þessum samningum.
    Ég sagði að fylkingarnar væru nokkurn veginn jafnstórar og sú staða getur alið á þeirri tilfinningu hjá þeim sem verða undir í atkvæðagreiðslum að mjög lítill meiri hluti sé að kúga stóran minni hluta. Ég verð að segja að ég er hrædd við þessa stöðu sem upp er komin. Mér finnst einhvern veginn eins og maður horfi á Evrópu og þar sé allt upp í loft, Maastricht sé upp í loft, EES sé upp í loft, GATT sé upp í loft. Og efnahagsmálin. Það er atvinnuleysi, átök og kynþáttahatur. Það er enginn samfélagssáttmáli í gildi í Evrópu í dag. Þetta er auðvitað alvarleg staða.
    Við þessar aðstæður held ég að menn verði að flýta sér hægt og reyna að ná sáttum þar sem það er hægt. Það skiptir jafnmiklu máli fyrir okkur uppi á Íslandi eins og aðra, hvort sem það er í Austur-Evrópu eða Vestur-Evrópu. Við vitum það að á þingi er pólitískur ágreiningur um EES-samninginn og honum verður ekkert eytt. Ég reikna ekki með því. En mér finnst að það ætti að vera hægt að ná einhverri sátt a.m.k. um meðferð málsins á þingi og ég legg á það talsvert mikla áherslu.
    Utanríkisráðherrar EFTA hafa nýlokið fundi sínum og hafa komist að þeirri niðurstöðu að það þurfi að breyta samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði og fylgisamningum hans einungis með því að gera bókun og gera á honum tæknilegar breytingar. Lagahópur EFTA hefur komist að sömu niðurstöðu og Frans Andriessen, varaformaður framkvæmdastjórnar EB, hefur sagt að hans vilji standi í þessa átt. Ég furða mig svo sem ekkert á því að menn vilji gjarnan gera þetta með eins litlum breytingum og hægt er vegna þess að auðvitað vilja menn reyna að skapa tiltrú á alþjóðasamningum, reyna að einfalda hlutina og skapa ákveðna tiltrú í Evrópu á alþjóðsamningum. Ef endurgerð þessa samnings fer að verða mjög flókin eykst auðvitað ekki sú tiltrú.
    En það gefst bara engin vissa fyrir því að breytingarnar verði smávægilegar og bara tæknilegar. Reynslan af EB sýnir að það er ekki við því að búast að málin taki mjög skamman tíma þar eða verði mjög einföld í úrlausn og hægt verði að leysa þetta mál á stuttum fundi í janúarmánuði eins og mér fannst helst að heyra á ráðherra. Ég dreg það stórlega í efa og held að það muni taka nokkra mánuði að gera þá bókun sem þarf að gera til þess að breyta samningnum.
    Við erum ekki á sama stað í þessu staðfestingarferli og önnur ríki EFTA og þau spila auðvitað úr sinni stöðu og gera það eins og þeim hentar best pólitískt. Við verðum að spila úr okkar stöðu og hún er

önnur vegna þess að við erum stödd á öðrum stað í ferlinu. Ég hef orðið þess vör og ég hef sagt það áður að ýmis önnur ríki sem standa í þessum samningum vilja fá á því einhverja staðfestingu að vilji Alþingis og stjórnarflokkanna sérstaklega sé að staðfesta þennan samning. Ef ráðherra þarf á pólitískri staðfestingu að halda og hún næst eitthvað treglega út úr stjórnarflokkunum þá finnst mér í sjálfu sér vel koma til álita að 2. umr. fari fram á Alþingi um þennan samning og atkvæðagreiðsla eftir 2. umr. og þá liggi fyrir einhver ákveðinn pólitískur vilji á þinginu. Hins vegar spyr ég mig þeirrar spurningar hvort að þinginu má í rauninni ekki á sama standa um pólitískt stolt utanrrh. á alþjóðavettvangi ef ég huga að þeim ummælum sem eftir honum eru höfð í DV í dag og lesin voru hér. Ég hef ekki lesið blaðið sjálf en mér er sagt að þetta hafi verið orð hans eftir fundinn í Genf. Þar finnst mér hann, ég verð að segja það, smána þingið með þessum ummælum og þá vaknar sú spurning hvort þinginu má ekki á sama standa um pólitískt stolt ráðherrans á alþjóðavettvangi.
    En tímasetningin í þessu máli finnst mér ekki vera aðalatriðið, þ.e. tímasetningin á 2. umr. og sú pólitíska niðurstaða sem fengist út úr henni. Hún þarf fyrst og fremst að koma áður en ráðstefna stjórnarerindreka fer fram. Hvenær það verður liggur ekki fyrir.
    Mér er ekkert að vanbúnaði að fara í 2. umr. og ég veit að það gildir um flesta hér inni. Ég skilaði mínu nál. þann 4. des. en auðvitað verður þingið að forgangsraða málum eins og staðan er í samfélaginu í dag. Væntanlega verður ríkisstjórnin einnig að forgangsraða málum og átta sig á því hvernig hún vill nýta þá átta virku daga sem hún hefur núna fram að jólum til þess að takast á við mjög stór efnahagsmál og mál sem skipta verulegu fyrir þjóðina.
    Ef 2. umr. færi fram á þinginu og út úr henni kæmi einhver pólitískur vilji þá er það mín persónulega skoðun að síðan ætti að láta þennan samning liggja á milli 2. og 3. umr. og bera ekki samninginn upp á þinginu til endanlegrar afgreiðslu fyrr en búið væri að gera þá bókun sem þarf að gera til þess að breyta EES-samningnum og EFTA-samningunum. Ég held að þetta ferli þyrfti ekki að taka lengri tíma hjá okkur á þinginu en það þarf fyrir hin þjóðþingin að taka fyrir bókunina sem þau þurfa að undirrita og ríkisstjórnirnar þurfa að leggja fyrir sín þjóðþing. Það mun auðvitað taka ákveðinn tíma og ég held að þetta ferli þurfi ekkert að taka lengri tíma hjá okkur.
    Það er ekkert sem mælir gegn því að við höfum þennan hátt á og ég vil vitna til þess að í skýrslu frá laganefnd EFTA og sem kom fram í utanrmn. í morgun er ævinlega talað um undirritunaraðila. Í tillögu að bókun frá lagahópi EFTA er talað um undirritunaraðila og í skýrslu hópsins er sömuleiðis talað um með hvaða hætti megi finna lögformlega lausn fyrir, ég þýði það beint, ,,þá undirritunaraðila sem eftir standa``. Það er ekki talað um þá sem hafa staðfest heldur undirritunaraðila sem eftir standa. Með öðrum orðum er ekkert sem segir að staðfesting eða endanlegt samþykki verði að liggja fyrir áður en gengið er frá þessari bókun.
    Eins og 4. þm. Reykv. áðan þá legg ég mikla áherslu á samkomulag um þetta mál og það náist einhver sátt um hvernig með það skuli fara þó ekki væri annað. Mér finnst mál yfirleitt nógu mikið upp í loft, bæði í Evrópu og innan lands, þó þetta sé ekki líka sett algjörlega upp í loft.
    Menn hafa talið að frestunin á samningnum muni kosta íslenskt samfélag mikið fé og hef ég heyrt haft eftir einhverjum 800 milljónir, eða var það meira? Ég man ekki hver ósköp það var sem þessi frestun átti að hafa kostað. Hún kostar okkur það hvort sem við hröðum meðferð málsins eða ekki eins og hefur verið bent á. En í frestuninni felst líka ákveðinn kostur, vegna þess að við græðum tíma til undirbúnings. Ég hef það mjög sterkt á tilfinninguni að stofnanir í þessu samfélagi, fyrirtæki og almenningur sé illa undir þetta búinn. Við vinnum ákveðinn tíma til undirbúnings og ég held að það sé mjög mikilvægt að sá tími verði nýttur vel. Ég vil benda á að tími er líka peningar og núna erum við einmitt að græða tíma að mínu mati.