Verðbréfaviðskipti

81. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 16:48:47 (3418)

     Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir hönd efh.- og viðskn. fyrir nál. vegna frv. til laga um verðbréfaviðskipti og ætla að kynna álitið ásamt nokkrum brtt. sem hafa verið gerðar við frv.
    Ég vil byrja á því að þakka meðnefndarmönnum fyrir ötult starf að frv. og öðrum sem snerta verðbréfaviðskipti. Í rauninni eru þetta þrjú frv. sem fylgjast að, þ.e. um verðbréfaviðskipi, verðbréfasjóði og Verðbréfaþing Íslands. Nefndin er sammála um þær breytingar sem hún leggur til að gerðar séu á frv. Þó skrifa hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon undir með fyrirvara.
    Það má segja að með þessum þremur frv. um verðbréfaviðskipti, verðbréfasjóði og Verðbréfaþing Íslands, sé verið að stokka upp alla þá löggjöf sem snýr að verðbréfaviðskiptum á Íslandi og færa hana í nútímabúning og til samræmis við það sem tíðkast í helstu viðskiptalöndum okkar.
    Nefndin hefur haft ágætis samráð og samstarf við starfsfólk viðskrn. um þetta mál og ég þakka fyrir það. Nefndin sendi frv. til umsagnar til ýmissa hagsmunaaðila og þeirra er getið í nál. Sömuleiðis var kallað á allmarga aðila til viðtals um málið.
    Ég ætla aðeins að skýra þær breytingar sem nefndin gerir á frv. Í fyrsta lagi er verið að leggja til að skilgreina hugtakið ,,verðbréf`` aðeins öðruvísi en gert er.
    Í öðru lagi er lagt til að í 5. gr. sé breytt skilgreiningu á því með hvaða verðbréf megi versla.
    Í þriðja lagi er lögð til breyting á 10. gr. frv. þar sem rætt er um hvað verðabréfafyrirtæki eigi að kalla sig.
    Í 11. gr. tekið á því að enginn vafi leiki á því að verðbréfafyrirtækjum einum skuli heimilt að sjá um almenn lokuð útboð. Þá er lagt til að auk þess að sjá um fjárvörslu fyrir einstaklinga og lögaðila geti verðbréfafyrirtæki innt af hendi fjármálaþjónustu tengda verðbréfaviðskiptum þannig að skylt sé að afmarka þeirra hlutverk. Og loks að í frv. komi fram að verðbréfafyrirtækjum er heimilt að kaupa og selja verðbréf fyrir eigin reikning.
    Fimmta brtt. nefndarinnar er við 14. gr. og felst í því að síðari mgr. greinarinnar falli brott, enda á það að heyra undir samkeppnislög.
    Í sjötta lagi er lögð til sú breyting að 3. mgr. 17. gr. falli brott. Þar segir að verðbréf sem boðin eru til sölu í almennu útboði skuli skráð á opinberum verðbréfamarkaði. Með því er verið að skerða verulega það valfrelsi sem útgefendur hafa nú auk þess sem heppilegra er að skráning verðbréfa á opinberum verðbréfamarkaði aukist samkvæmt þróun en ekki lögboði. Samkvæmt frv. var gert ráð fyrir því að allar opinberar skráningar að yrðu á Verðbréfaþingi Íslands. Það er sem sé ekki gert ráð fyrir því að það standi áfram.
    18. gr. breytist allmjög og samkvæmt tillögu nefndarinnar verður hún svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Verðbréfafyrirtæki skal vegna eigin viðskipta með verðbréf sem því eru falin til sölu og vegna viðskipta eigenda þess, stjórnenda, starfsmanna og maka þeirra gæta eftirtalinna atriði:
    1. Að ýtrustu hagsmuna ótengdra viðskiptavina sé gætt.
    2. Að fullur trúnaður ríki gagnvart ótengdum viðskiptavinum.
    3. Að viðskiptin séu sérstaklega skráð.
    4. Að stjórn verðbréfafyrirtækisins fái kerfisbundnar upplýsingar um viðskiptin og staðfesti þau.
    Verðbréfafyrirtæki skal setja sér verklagsreglur um viðskipti skv. 1. mgr. og skulu þær staðfestar af bankaeftirlitinu.``
    Hér er fyrst og fremst verið að tryggja að viðskipti verðbréfafyrirtækjanna með verðbréf sem eru útgefin af eigendum þeirra eða viðskipti þeirra við eigendur fari eftir eðlilegum reglum og ekki sé verið að ganga á hagsmuni þriðja aðila í því. Það er afar mikilvægt að verðbréfafyrirtækin hafi eðlilegt svigrúm í þessum efnum og jafnframt að þau hafi sjálfstæði gagnvart sínum eigendum.
    Í áttunda lagi er lagt til að 19. gr. verði breytt þannig að verðbréfafyrirtæki verði heimilt að veita viðskiptaaðila lán og ganga í ábyrgðir vegna verðbréfaviðskipta. Um þessa starfsemi skulu verðbréfafyrirtækin setja sér verklagsreglur sem staðfestar verða af bankaeftirlitinu. Það er tekið fram að það er litið á þessa þjónustu sem hliðarstarfsemi, þ.e. ábyrgðarveitingarnar, en ekki afgerandi þátt í störfum verðbréfafyrirtækis.
    Í níunda lagi er lögð fram tillaga um að breyta kaflafyrirsögn í VI. kafla í meðferð trúnaðarupplýsinga en ekki fyrir fram gert ráð fyrir því að þær séu misnotaðar.
    Í tíunda lagi er lagt til að 22. gr. verði breytt með hliðsjón af brtt. sem gerðar voru við 5. gr.
    Þá er lagt til að 29. gr. verði breytt þannig að sú upplýsingaskylda sem lögð er á endurskoðendur sé í samræmi við eðlilegt hlutverk þeirra.
    Í tólfta lagi er svo lagt til að 38. gr. falli brott en þar var samkvæmt frv. heimild til ráðherra að fela bankaeftirlitinu að setja reglur og gera ýmislegt sem tengist lögunum, en nefndin taldi slíkt framsal óeðlilegt.
    Í þrettánda lagi er lagt til að 41. gr. verði breytt þannig að lögin taki gildi 1. júlí nk.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þessum breytingum.
    Ég vil að lokum taka það fram að verðbréfafyrirtæki sem slík gegna ákaflega þýðingarmiklu hlutverki á okkar fjármagnsmarkaði. Starfsemi þeirra og sjálfstæði er í raun forsenda þess að hægt sé að tala um frelsi til vaxtaákvarðana. Þau eru lykilaðili í því skyni að leiða saman þá sem vilja taka lán og þá sem vilja veita þau. Þess vegna er afar mikilvægt að um þau séu í gildi eðlileg lög og reglur sem gefi þeim bæði svigrúm til þess að starfa en tryggi jafnframt hag allra þeirra sem þurfa við þau að skipta.