Umræður um dagskrármál

81. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 17:00:40 (3421)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að ég hef verið að reyna að aðstoða hæstv. ríkisstjórnarmeirihluta við skynsamleg vinnubrögð í þingsalnum síðla dags og setti fram þá hugmynd, sem ég skal alveg kannast við --- hún kom ekki formlega frá Alþb. sem flokki, virðulegi forseti, að það væri kannski skynsamlegast að mæla fyrir nál. um þessi frv. sem tengjast nokkuð innbyrðis og fresta síðan umræðu um þau þannig að menn gætu m.a. áttað sig dálítið betur á einstökum ákvæðum sem tengjast Evrópska efnahagssvæðinu. Við þekkjum það m.a. af umræðum um samkeppnislögin að það getur verið dálítið snúið að afgreiða frv. sem upphaflega voru samin og afgreidd út úr nefnd þegar menn töldu að meiri vissa væri varðandi Evrópska efnahagssvæðið. Þetta var ábending frá mér um það að ef menn vildu greiða fyrir væri betra að formaður nefndarinnar mælti fyrir þeim öllum og síðan gætu menn metið það eftir helgina hvernig menn vildu ræða málið af því að mér skildist að forseti ætlaði að ljúka hér fundi einhvern tíma upp úr klukkan fimm en þetta eru nokkuð mörg mál sem tengjast saman.
    Ef einstakir þingmenn vilja hins vegar ræða þessi frv. þá ætla ég ekki að fara að leggjast gegn því. Það geri ég alls ekki. Ég var bara að reyna að koma með ábendingar um hver væri skynsamleg nýting á tíma og vinnubrögðum.