Umræður um dagskrármál

81. fundur
Laugardaginn 12. desember 1992, kl. 17:07:47 (3426)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort maður á að vera að leggja sig mjög fram um að reyna að aðstoða þennan frekar ráðvilltan ríkisstjórnarmeirihluta á Alþingi á störfum á fundum ef niðurstaðan er svo spíssfyndugheit eins og fram komu hjá formanni þingflokks Alþfl. áðan. Ef þetta er andinn sem hann og Alþfl. vill hafa í þessu samstarfi þá er eins gott að þeir eigi þetta bara sjálfir og fái að glíma við það hér í ræðustólnum og þinginu hvernig þeir vilja hafa þetta. Ég var eingöngu, bara af skynsemi og góðum vilja að koma því áleiðis til formanns nefndarinnar og síðan viðskrh. hvernig ég teldi vænlegast að gera þetta til þess að sem minnstur tími færi í málin í þinginu. En ef launin fyrir það eru hótfyndni og spíssfyndugheit hjá formanni þingflokks Alþfl. þá dreg ég þann lærdóm af því að það borgar sig ekkert að vera að reyna að aðstoða þessa menn í þingstörfunum.
    Hitt er svo alveg rétt, eins og fram hefur komið hjá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni, að það er ekkert sem knýr á um það að menn séu að strekkja í þetta seint á laugardegi. Ef menn hins vegar vilja hefja um þetta umræður er auðvitað alveg ljóst að það getur orðið nokkur umræða um málið. En ég mun draga minn lærdóm af þeim viðbrögðum sem fram komu hjá formanni þingflokks Alþfl.