Umræða um EES og ummæli utanríkisráðherra

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 13:53:59 (3439)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Hefði hv. 4. þm. Austurl. haft biðlund hefði hann átt eftir að heyra svör frá forseta. Forseti vildi gjarnan gefa þingmönnum sem höfðu óskað eftir því að taka til máls um gæslu þingskapa tækifæri til að tjá sig áður en forseti svaraði. En í bili hafa ekki fleiri óskað eftir að taka til máls um gæslu þingskapa og þá er komin röðin að forseta.
    Það hefur verið gagnrýnt að forseti tekur þetta mál, EES-samninginn, á dagskrá. Það var gert ráð fyrir því í starfsáætlun þingsins að þetta mál yrði afgreitt eigi síðar en 20. nóv. Nefndarálit utanrmn., meiri hluta og 1. og 2. minni hluta, hafa legið fyrir í tvær vikur. Það hafði verið gert ráð fyrir því að 2. umr. færi fram sl. laugardag. Það hafði verið ákveðið í samráði og með vitund allra þingflokka að öðru leyti en því að fyrirvari var um það hvernig afgreiðslu málið fengi hjá Svisslendingum. Ef samningurinn yrði felldur þar vildu menn ræða málið á nýjan leik. Það voru haldnir fundir með forseta og fyrsta varaforseta og formönnum þingflokka eða fulltrúum þeirra, bæði á föstudag og laugardag sl. til að ræða þessi mál. Það var ósk stjórnarandstöðunnar að málið yrði ekki tekið til umræðu eins og áætlað hafði verið og kom fram á dagskrá sl. laugardag. Það var ósk stjórnarandstöðunnar að fresta umræðunni fram yfir helgi en að taka í staðinn til umræðu munnlega skýrslu utanrrh. Sú umræða fór fram sl. laugardag. Þess vegna hefur forseti litið svo á að það kæmi engum á óvart að málið yrði á dagskrá í dag þar sem ætíð hefur legið fyrir að það þyrfti að afgreiða þetta mál fyrir jól. Það hafa verið áform ríkisstjórnarinnar og hennar markmið. Lái hver sem vill forseta að hann reyni að sjá til þess að málum verði komið áfram eins og ætlað er samkvæmt starfsáætlun þingsins og fyrirætlunum ríkisstjórnar hverju sinni sem væntanlega styðst við meiri hluta þingsins. Forseti telur það vera skyldu sína. Varðandi þá spurningu hv. 9. þm. Reykv. hvort forseti telji málið þingtækt, þá svarar forseti því játandi en telur að það sé þingsins sjálfs að ræða það og komast að niðurstöðu um það ef svo er ekki.
    Forseti man ekki eftir fleiri atriðum sem hann hefur verið spurður um en varðandi ummæli utanrrh. í sjónvarpi sem hér voru gerð að umræðuefni vill forseti vísa því til hæstv. utanrrh. sjálfs. Það er á eigin ábyrgð jafnt ráðherra sem þingmanna hvernig þeir tjá sig utan þings um einstök mál.