Umræða um EES og ummæli utanríkisráðherra

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 14:13:59 (3448)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hæstv. forseta áðan að hún hefði komist að þeirri niðurstöðu að málið væri þingtækt. Ég hef ekki séð neina úttekt á því efni aðra en þá sem lögð var fram í utanrmn. í morgun og ég hef lýst áður yfir að ég tek ekki mark á. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvernig hún hefur komist að þessari niðurstöðu og hvort hún telji ekki rétt að ræða það við okkur þingflokksformenn

og reyna þá að sannfæra okkur um að málið sé þannig statt að hægt sé að taka það á dagskrá.
    Ég vil líka spyrja hæstv. forseta hvernig hún hugsar sér þinghald í dag því eins og fram hefur komið í umræðunni hafa verið boðaðir nefndarfundir bæði í efh.- og viðskn. og fjárln., í efh.- og viðskn. kl. 18 og í fjárln. kl. 19. Ég vil að það komi skýrt fram að annaðhvort sit ég nefndarfund í efh.- og viðskn. eða á þingfundum. Ég ætla að fylgjast með umræðu þessa máls og mun ekki sætta mig við að hér verði þingfundir á meðan nefndarfundir standa yfir í efh.- og viðskn.
    Að lokum vil ég spyrja hæstv. forseta hvernig hún hyggst hafa samráð við forsætisnefnd þingsins um áframhald þingstarfa því mér skilst að það samráð hafi verið heldur lítið hingað til. Ég vil beina þeim tilmælum til forseta að haft verði samráð bæði við þingflokksformenn og forsætisnefnd til þess að okkur megi takast að ljúka þingstörfum fyrir jól sem ég dreg reyndar mjög í efa að verði hægt ef svo heldur fram sem horfir. Ég minni á að það samkomulag sem forseti vitnaði til áðan voru drög að samkomulagi og ekkert annað en drög.