Umræða um EES og ummæli utanríkisráðherra

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 14:32:04 (3458)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé óhjákvæmilegt fyrir okkur sem eigum að sækja nefndafundi að fá um það úrskurð forseta hvort hún telur eðlilegt að haldnir séu nefndafundir á sama tíma og þingfundir standa yfir. Það er a.m.k. þannig með nokkra stjórnarandstöðumenn sem hér hafa talað að þeir hafa lýst því yfir að þeir muni ekki sækja nefndafundi á sama tíma og þingfundir eru haldnir í fullu ósamkomulagi, eins og hér er ætlunin að gera. Það er nauðsynlegt að forseti tjái sig um það.
    Það er auðvitað alveg greinilegt að við stöndum hér ( Forseti: Forseti skal tjá sig um það strax. Forseti er sammála hv. þm. um að það sé óeðlilegt að halda nefndafundi á þingfundartíma nema þá í samráði við forseta.) Ég þakka hæstv. forseta fyrir þessi skörulegu viðbrögð.
    Í annan stað, virðulegi forseti, held ég að það sé óhjákvæmilegt að aðeins verði tekið á því hér að í opinberum fjölmiðlum hefur það komið fram núna um helgina, eins og það er orðað í ljósvakafrétt: Stjórnarliðar segja að stjórnarandstaðan hafi brotið hvert einasta samkomulag sem gert hafi verið um afgreiðslu EES-málsins og ætli að láta sverfa til stáls. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að fara fram á það við hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formann þingflokks Alþfl., og hv. 8. þm. Reykv., formann þingflokks Sjálfstfl., að þeir svari því á þessum fundi og í þessari umræðu um gæslu þingskapa hvort þeir eru þeirrar skoðunar að samkomulag um meðferð EES-málsins hafi verið brotið af hálfu stjórnarandstöðunnar. Ef svo væri að stjórnarandstaðan hefði brotið eitthvert samkomulag, þá teldi ég það mjög alvarlegan hlut vegna þess að menn eiga að standa við samkomulag sem gert er hvort sem menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Hins vegar er nauðsynlegt í tilefni af þessum ummælum, sem hafa vakið athygli og hafa verið nefnd hér af varaformanni þingflokks Alþb., að þessir tveir formenn þingflokka stjórnarliðsins taki á þessu máli sérstaklega og lýsi sínum skoðunum ella verður að líta þannig á að þeir séu sammála þessum dylgjum og þessum rógi og þessum svigurmælum sem birst hafa og ég vitnaði til áðan.
    Hins vegar er svo athyglisvert að lokum, virðulegi forseti, að hæstv. utanrrh. skuli ekki hafa svarað neinu um þau ummæli sem eftir honum eru höfð. Hann lætur ekki svo lítið að segja eitt aukatekið orð í ræðustólnum af þessu tilefni og hefur hann þó beðið um orðið oft í þessari virðulegu stofnun af minna tilefni en því sem liggur fyrir á þessum fundi. Verður það vonandi í minnum haft þegar meira liggur við en nú.