Umræða um EES og ummæli utanríkisráðherra

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 14:34:55 (3459)

     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Mér er ljúft að verða við því að koma upp og segja örfá orð til viðbótar. Ég verð að segja að mér finnst tvennt til um ráðherra þessarar ríkisstjórnar í hversu miklu jafnvægi þeir eru. Mér heyrðist nefnilega áðan að hæstv. fjmrh. gerðist óstilltur í sæti sínu vegna þess að ég heyrði ekki annað en hann kallaði fram í til mín og segði mér vinsamlegast að þegja. Það er vægast sagt fáheyrt í þingsölum.
    Hins vegar gengur aftur erfiðlega að fá hæstv. utanrrh. til að tala. Ég velti því fyrir mér hvort það bætist nú á annað að hann hafi misst málið. Ég trúi því varla að svo sé og því skora ég enn og aftur á hæstv. utanrrh. að koma í þennan ræðustól og endurtaka þau ummæli sem hann hafði við fréttamann Dagblaðsins, endurtaka þau hér þannig að hæstv. forseti geti dæmt ummæli hans og hann sjálfan þegar hann lætur þau sér um munn fara úr þessum ræðustól.
    Ég skil og við allir hér að hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson er núna á flótta frá orðum sínum eins og hann hefur stundum áður þurft að gera. Hann velur þann kostinn og trúir því að þögnin sé best að geyma þessi orð. En það mun svo sannarlega ekki verða. Þessi orð munu ekki gleymast. Ég tek undir það sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði áðan að það er ömurlegt að þessi fulltrúi þjóðþingsins, sem hefur verið valinn til þess að semja um það stóra mál sem hann hefur nú verið að fjalla um, skuli skemmta sér við það að skemmta fréttamönnum erlendis og láta þá veltast um af hlátri yfir því hvernig þjóðþing okkar Íslendinga starfar. Það er ömurlegt. Ef hæstv. utanrrh. vill ekki eða þorir ekki að koma hér upp og endurtaka þessi ummæli sín, þá vil ég spyrja hæstv. forsrh., ábyrgðarmann þessa ráðherra, hvernig honum falla þessi ummæli.
    Ef ekki, þá vil ég spyrja hæstv. forseta hvort ég megi lesa aðeins tvær línur. Þær eru að vísu miklu fleiri en þær snerta svo sannarlega forsetastólinn. Þar segir hæstv. utanrrh. þegar hann er að tala úti í Genf: ,,Það gengur illa að gera mönnum grein fyrir þeirri hefð að á Alþingi skuli engin þingsköp vera.`` Þarf hæstv. utanrrh. að koma í ræðustól til þess að virðulegur forseti þingsins geti sagt skoðun sína á þessum ummælum og öðrum sem hér eru? Ef það er ástæðan fyrir því að hæstv. utanrrh. getur ekki endurtekið þessi ummæli sín að hann man þau ekki ætla ég að leggja þau á borðið til hans.