Evrópskt efnahagssvæði

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 14:48:55 (3466)

     Páll Pétursson (um þingsköp) :
    Frú forseti. Ég vil vekja athygli hv. síðasta ræðumanns á því að það samkomlag sem gert var í fyrravor var í fyrsta lagi um það að Alþingi kæmi saman til að ræða EES-málið og fylgifrumvörp þann 17. ágúst og við það var staðið. Síðar sagði í samkomulaginu að stefnt skyldi að afgreiðslu, ég vek ahtygli á því orðalagi, stefnt skyldi að. Það náðist ekki og er ekki stjórnarandstöðunni einni um að kenna að málinu lauk ekki í nóvember.
    Nú hef ég kannski ekki hlustað nógu grannt eftir fréttum og ekki nógu kunnugur stjórnskipulagi í hertogadæminu Liechtenstein. Mér skilst að í gær hafi farið þar fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort íbúar Liechtenstein vildu verða aðilar að Evrópsku efnahagssvæði og þeir svöruðu því. 55% þeirra vildu vera það. Ég reikna með því að samningurinn þurfi stjórnskipulega framhaldsmeðferð hjá löggjafarþingi í Liechtenstein svo þessu er ekki saman að jafna.