Evrópskt efnahagssvæði

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 14:56:18 (3471)

     Guðrún Helgadóttir (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Þar sem ítrekað hefur verið látið að því liggja í þingskapaumræðunni í dag að forsætisnefnd þingsins hafi tekið hinar og þessar ákvarðanir held ég að það sé óhjákvæmilegt að skýra frá því að forsætisnefnd þingsins hafði ekkert með dagskrá þessa fundar að gera. Satt að segja rak okkur tvo fulltrúa í forsætisnefnd, hv. þm. Kristínu Einarsdóttur og mig, í rogastans þegar við sáum dagskrá þessa fundar. Á fundi forsætisnefndar kl. 12.30 í dag settum við auðvitað fram mótmæli gegn þessu ofríki sem við teljum að farið hafi verið fram með hér. En það var ljóst og verður að segjast eins og er að þó að í þingskapalögum standi að forsætisnefnd skipuleggi þinghaldið er litið svo á að þar sé einungis um starfsáætlun þingsins að ræða en ekki þinghaldið frá einni viku til annarrar. Ég vil því að það komi fram að sú ákvörðun að hefja þessa umræðu í dag og jafnframt að halda kvöldfund hugsanlega var ekki rædd við forsætisnefnd þingsins.