Evrópskt efnahagssvæði

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 14:59:45 (3473)


     Frsm. meiri hluta utanrmn. (Björn Bjarnason) :
    Frú forseti. Við afgreiðslu frv. til laga um Evrópska efnahagssvæðið hefur utanrmn. klofnað í afstöðu sinni til málsins og liggja eða munu liggja fyrir fjögur nál. Meiri hluti nefndarinnar, sem er skipaður Árna R. Árnasyni, Geir H. Haarde, Rannveigu Guðmundsdóttur og Tómasi Inga Olrich auk mín, leggur til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu að 4. gr. frv. falli brott og flytur meiri hluti nefndarinnar tillögu um þá breytingu á sérstöku þingskjali. Eins og áður sagði munu aðrir nefndarmenn skila séráliti.
    Ég geri hér grein fyrir áliti meiri hluta nefndarinnar sem dreift er á þskj. 372 og skiptist í nokkra kafla. Þar er í fyrsta lagi lýst meðferð málsins í nefndinni, síðan er fjallað um samstarf Íslands við önnur Evrópuríki, þá er rætt um efni frv., þjóðhagsleg áhrif EES-samningsins, stjórnarskrána og EES-samninginn. Það er farið yfir álit umsagnaraðila, rætt sérstaklega um sjávarútveg og landbúnað. Þá er fjallað um EES-samninginn og íslenska löggjöf, gerð grein fyrir kostnaði vegna þátttöku í EES og loks eru ályktunarorð nefndarinnar.
    Með álitinu eru einnig birt ýmis fylgiskjöl. Þar er m.a. að finna greinargerð eða yfirlit yfir fundi utanrmn. Alþingis þar sem fjallað hefur verið um málið og kemur fram að alls hefur verið fjallað um málið á 82 fundum, þar af 25 fundum frá undirritun samningsins, þ.e. fram til þess tíma sem nál. var skilað hinn 30. nóv. sl. en málið hefur síðan verið til umræðu í nefndinni og var það síðast í morgun þar sem var fjallað um ýmis atriði sem tengjast þjóðaratkvæðagreiðslunni í Sviss sem fór fram 6. des. sl. Þá er einnig birt sem fskj. með þessu nál. yfirlit yfir þá aðila sem hafa sent umsagnir til nefndarinnar um EES-samninginn, það er birt yfirlit yfir útgefin gögn er varða Evrópubandalagið og Evrópska efnahagssvæðið, það er birt yfirlit yfir fylgifrumvörp EES-samningsins, það er birt bréf landbn. Alþingis til utanrmn., það er birt greinargerð utanrrn., fjmrn., iðnrn., viðskrn. og landbrn. um spurningar landbn. um bókun 3 við EES-samninginn. Þá er birt bréf formanns landbn. Alþingis til Tryggva Gunnarssonar hrl. og kaflar úr álitsgsgerð Tryggva Gunnarssonar hrl. til landbn. Alþingis um túlkun á tilteknum ákvæðum bókunar 3 með EES-samningnum. Þá er birt yfirlit sem sýnir áhrif samnings um Evrópskt efnahagssvæði á íslenskan sjávarútveg, greinargerð um söltuð síldarflök og loks er birt skrá yfir gildandi lög í lagasafni þar sem fylgiskjal er lögfest. Þessi fylgiskjöl eiga öll meira og minna rætur að rekja til meðferðar málsins í utanmrn. Í þeim eru veitt svör við spurningum sem komið hafa upp í hinni ítarlegu meðferð málsins á fundum utanrmn.
    Eins og ég sagði áður hefur nefndin fylgst með þessu máli allt frá apríl 1989 og þar til formlegum samningaviðræðum lauk með undirritun samningsins um Evrópska efnahagssvæðið í Óportó í Portúgal 2. maí sl. Málið var afgreitt frá nefndinni 30. nóv. sl. og hafði þá, eins og áður var sagt, verið til meðferðar á 82 fundum nefndarinnar, þar af 25 frá undirritun samningsins hinn 2. maí. Ég held að óhætt sé að fullyrða og slá því föstu að ekkert mál í sögu utanrmn. frá því að hún var stofnuð árið 1928 hafi fengið eins nákvæma og viðamikla umfjöllun á vegum nefndarinnar og þetta mál. Til samanburðar má geta þess að aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum EFTA 1970 var aðeins rædd á tveimur fundum í utanrmn. Menn sjá það á því fskj. sem fylgir nál. meiri hlutans hve margir hafa verið kallaðir til ráðgjafar um málefnið á fundum nefndar og auk þess naut utanrmn. þess að á vegum Alþingis hafði verið starfandi sérstök Evrópustefnunefnd sem kosin var í maí 1988 og starfaði fram á vor 1990. Þar voru tekin saman gögn er varða Evrópumálin og snerta þátttöku okkar nú í Evrópska efnahagssvæðinu.
    Það er ástæða til þess á þessum stað að færa þakkir öllum þeim aðilum sem hafa veitt utanrmn. aðstoð við þá miklu yfirferð og athugun sem nefndin hefur efnt til vegna málsins og þakka sérstaklega utanrrn. og embættismönnum ráðuneytisins sem hafa gert sitt ýtrasta til að afla þeirra upplýsinga sem nefndarmenn hafa óskað eftir og svarað spurningum sem fram hafa komið á fundum nefndarinnar. Það hafa verið lögð fram í nefndinni minnisblöð og greinargerðir og margvísleg önnur gögn sem utanrrn. og Stjórnarráðið allt hafa í raun aflað fyrir utanrmn. Það væri of langt mál að tilgreina alla þá aðila sem hafa lagt nefndinni lið. Meiri hluti nefndarinnar vill þó sérstaklega þakka Þorsteini Ingólfssyni, ráðuneytisstjóra utanrrn., Hannesi Hafstein, sendiherra og aðalsamningamanni Íslands í viðræðunum við EB, Gunnari Snorra Gunnarssyni, skrifstofustjóra viðskiptaskrifstofu utanrrn., Pétri Gunnari Thorsteinssyni sendifulltrúa og Lilju Ólafsdóttur sendiráðunaut. Ég held að það sé rétt að nefna þetta fólk til sögunnar vegna þeirra miklu starfa sem það hefur innt af hendi og auðveldað hafa nefndinni störf og athuganir á þessu máli.
    Þegar litið er á einstaka þætti samningsins og álitamál sem komið hafa upp við umfjöllun nefndarinnar um Evrópska efnahagssvæðið má fullyrða að þau atriði sem mestan tíma hafa tekið í starfi nefndarinnar varða ýmsa þætti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála og spurninguna um það hvort EES-samningurinn brjóti gegn íslensku stjórnarskránni. Nánar er vikið að þessum atriðum í nál. sem er mikið að vöxtum. Sá kafli álitsins sem fjallar um samstarf Íslands við önnur Evrópuríki snýst um þá þróun sem hefur verið í samstarfi Íslendinga við þessi ríki í efnahags- og viðskiptamálum. Upphafið má rekja 30 ár aftur í tímann þegar til umræðu var hér á landi hvort Ísland ætti að gerast aðili að Efnahagsbandalagi Evrópu eins og Evrópubandalagið var kallað þá en frá ráðagerðum um það var horfið, m.a. vegna þess að þau áform sem þá voru uppi um að stækka Efnahagsbandalagið runnu út í sandinn.
    Þetta mál og spurningin um þátttöku okkar í þessu efnahagslega og viðskiptalega samstarfi Evrópuþjóðanna komst síðan ekki á dagskrá fyrr en á síðari hluta sjöunda áratugarins þegar spurning var um það hvort Íslendingar ættu að gerast aðilar að EFTA og ákvörðun um það mál var tekin og við gerðumst aðilar að EFTA 1. mars 1970. Í þeim umræðum sem þá urðu um EFTA-aðildina kom fram að menn ræddu ekki aðeins um viðskiptatengsl þegar þeir fjölluðu um samskipti Íslands við Evrópuríkin heldur yrði einnig að skoða slík mál í ljósi menningarsamstarfs, menningartengsla og stjórnmáltengsla. Það lá til grundvallar þegar ákvörðun var tekin um EFTA-aðildina og nægir að vísa þar til orða þáv. hæstv. viðskrh., dr. Gylfa Þ. Gíslasonar, sem hann flutti í tilefni af aðild Íslands að EFTA og gert er í nál. þar sem fram kemur að það eru ekki aðeins efnahagsmálin og viðskiptamálin sem komu til skoðunar heldur einnig stjórnmálastaðan í heild og aðild Íslands að alþjóðlegu samstarfi. Þegar aðild Íslands að EFTA var á dagskrá á Alþingi snerist Alþb. eitt stjórnmálaflokka gegn henni en Framsfl. sat hjá. Þáv. stjórnarflokkar, Sjálfstfl. og Alþfl., voru hlynntir aðildinni að EFTA og stóðu að henni.
    Næsta skref í þessari þróun varð 1972. Í tilefni af því að Evrópubandalagið var að stækka með því að við það bættust Bretar, Danir og Írar var EFTA-ríkjunum boðið að semja við Evrópubandalagið á tvíhliða grundvelli. Þá voru gerðir tvíhliða fríverslunarsamningar við öll EFTA-ríkin, þar á meðal við Ísland. Sá samningur var gerður árið 1972 og staðfestur á Alþingi í febrúar 1973. Þá gerðist það í febrúar 1973, aðeins þremur árum eftir að þessar miklu deilur höfðu verið á Alþingi um þátttökuna í EFTA að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi voru sammála um nauðsyn þess að semja tvíhliða við Evrópubandalagið um fríverslun og standa að fríverslunarsamningnum. Þá sat raunar einn af forustumönnum Alþb. á stóli viðskrh. og flutti þetta mál inn á þingið og færði rök fyrir nauðsyn þess að Íslendingar gerðu þennan samning. Þau rök voru mjög svipuð og þegar við gerðumst aðilar að EFTA 1970 og vakti þessi mikla samstaða hér á þingi verðuga athygli. Töldu margir að þar með hefði náðst víðtækari samstaða en áður um þátttöku Íslands í slíku efnahagssamstarfi.
    Það verður að segjast eins og er að þegar boð kom um þátttökuna í Evrópska efnahagssvæðinu til EFTA-landanna, sem er eðlilegt framhald af þessum tvíhliða samningum um fríverslun, þá voru einnig allir stjórnmálaflokkar hér á landi sammála um að skoða það. Fyrrv. ríkisstjórn stóð síðan að því að til samninga var gengið milli EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins, samninga sem nú hafa leitt til þess að Evrópska efnahagssvæðið liggur fyrir í þeirri mynd sem við þekkjum í þeim samningum sem undirritaðir voru 2. maí sl. Þá var það aðeins Kvennalistinn sem snerist gegn honum. Þannig lágu málin fyrir við síðustu kosningar og síðustu stjórnarskipti en fyrir þær kosningar lýsti Sjálfstfl. því yfir að hann teldi eðlilegt að Íslendingar gerðust aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. Þessir samningar hafa síðan gengið eftir og voru undirritaðir eins og áður sagði hinn 2. maí sl. Nú blasir það við að ekki eiga öll þau ríki sem stóðu að samningnum þar samleið því að Svisslendingar ákváðu hinn 6. des. sl. að hafna aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Aftur á móti var samþykkt í Liechtenstein í gær í þjóðaratkvæðagreiðslu að Liechtenstein mundi eiga aðild að þessu samstarfi.
    Ég tel að það sé rangt sem hefur komið fram í umræðum, m.a. fyrr í dag í umræðum um þingsköp og í umræðum á laugardaginn, að þetta mál sé ekki þinghæft vegna þess að Svisslendingar hafa sagt sig frá samstarfinu. Ég vek einnig athygli á því að margir þeir sem hafa lýst þeirri skoðun að málið sé ekki þingtækt af þessari ástæðu hafa fyrr í umræðum um málið lýst því að það sé ekki þingtækt vegna þess að það brjóti í bága við stjórnarskrána. Í raun og veru finnst mér, þegar ég hlýði á þennan málflutning, það vera því til staðfestingar að þessir menn eru á móti því að Ísland gerist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og þeir grípa þau vopn sem þeir telja að bíti best hverju sinni. Fram að því að Svisslendingar höfnuðu málinu hafa þeir talað á þann veg að málið væri ekki þingtækt vegna þess að það bryti í bága við íslensku stjórnarskrána. Eftir að Svisslendingar hafa hafnað því er það ekki þingtækt af því að Svisslendingar ætla ekki að gerast aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Það er hins vegar ljóst, finnst mér, eftir þær athuganir sem fram hafa farið á vegum utanrmn. eftir 6. des. og sérstaklega á grundvelli þeirra upplýsinga sem liggja fyrir eftir ráðherrafund EFTA í Genf 10. og 11. des. sl. að því fer víðs fjarri að þetta mál sé ekki hæft til meðferðar á Alþingi. Utanrmn. hefur fengið gögn sem snerta þær breytingar sem þarf hugsanlega að gera á samningum EFTA-ríkjanna innbyrðis annars vegar og varðandi framkvæmdaratriði sem tengjast EES-samningnum hins vegar og sýna að EES-samningurinn breytist ekkert þótt Svisslendingar séu ekki aðilar að honum. Það er ekkert í þeim samningi sem breytist. Það er ástæða til að vekja athygli hv. þm. á því að við meðferð málsins 1972, þegar Íslendingar gerðu fríverslunarsamning við Evrópubandalagið, var um sumarið 1972 þegar sá samningur var undirritaður gert ráð fyrir því að Norðmenn yrðu aðilar að Evrópubandalaginu. Skjölin sem lágu til grundvallar við undirritun byggðust á því að Norðmenn væru í hópi aðildarríkja Evrópubandalagsins. Síðan gerðist það fram til þess að Alþingi tók málið til meðferðar í febrúar 1973 að Norðmenn höfnuðu því í þjóðaratkvæðagreiðslu að gerast aðilar að Evrópubandalaginu en skjölin sem Alþingi gekk frá voru alveg óbreytt. Það er því ekkert einsdæmi að atvik af þessu tagi komi upp. Þau hafa að sjálfsögðu ekki breytt neinu um efnisatriði málsins og það er það sem skiptir meginmáli þótt auðvitað beri að gæta þess að formsatriði séu í lagi enda höfum við möguleika til þess á síðari stigum, þegar við sjáum niðurstöður í þeim viðræðum sem hafist hafa eftir brottfall Sviss, hvort og hvað Alþingi þarf að gera til að tryggja að formið á þessu máli sé rétt og með þeim hætti að enginn efist um fulla þátttöku Íslendinga í Evrópska efnahagssvæðinu.
    Það hefur einnig verið rætt og bent á það í umræðum hér um þetta mál að önnur EFTA-ríki fyrir utan Liechtenstein hafa sótt um aðild að Evrópubandalaginu. Ýmsir hafa talið að það yrði dráttur á því að til þeirra aðildarviðræðna kæmi vegna innbyrðis ágreinings innan Evrópubandalagsins. Þær fréttir sem við fengum um helgina um fund leiðtoga Evrópubandalagsins í Edinborg í síðustu viku, á föstudag og laugardag, segja okkur að þessum hindrunum virðist hafa verið rutt úr vegi. Það er ekki lengur spurning varðandi Dani. Danir telja a.m.k. að þeim sé ekkert að vanbúnaði að samþykkja nú Maastricht-samkomulagið og einnig virðist sem samkomulag hafi tekist innan Evrópubandalagsins um meðferð fjárlaga, svokallaðan Delors-2 pakka, sem eru fjárlög þess fram undir aldamót. Það hefur tekist samkomulag um það mál í Edinborg. Þeim hindrunum sem menn töldu helst í vegi fyrir því að viðræður við EFTA-ríkin um aðild kæmust á dagskrá virðist hafa verið rutt úr vegi. Það er yfirlýst stefna dönsku stjórnarinnar, sem tekur nú við forsæti í Evrópubandalaginu, að hefja þessar viðræður. Þeir fyrirvarar sem menn hafa haft hér varðandi þetta atriði og framtíð Evrópubandalagsins og óvissu í því efni eru úr sögunni að því er virðist eftir þennan fund í Edinborg.
    Stefna íslensku ríkisstjórnarinnar liggur ljós fyrir í þessum máli. Hún er tíunduð í áliti okkar meirihlutamanna. Ég ætla ekki að lesa það. Það hefur þegar verið kynnt á þingi og afstaða íslensku ríkisstjórnarinnar, sem hefur það ekki á dagskrá sinni að sækja um aðild að Evrópubandalaginu, hefur einnig verið kynnt hér. Það liggur einnig ljóst fyrir að það ætti að vera vandræðalaust fyrir okkur að halda efnisatriðunum, sem við erum að semja um við Evrópubandalagið með aðildinni að EES, vakandi og lifandi í tvíhliða samskiptum við Evrópubandalagið ef önnur EFTA-ríki sækja um aðild og fara inn í Evrópubandalagið. Það liggur ljóst fyrir og það liggur einnig ljóst fyrir að forsrh. hefur lýst yfir vilja ríkisstjórnarinnar til að kanna með bréfi og formlega hjá framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins hver staða Íslands yrði á grundvelli EES kæmi til þess að önnur EES-ríki gengju í Evrópubandalagið. Þetta er skýrt.
    Þingmönnum er einnig vel kunnugt um þær breytingar sem gerðar hafa verið á Norðurlandasamstarfinu í tilefni af þessu aukna evrópska samstarfi og ég þarf ekki að rekja það hér. Þá vil ég taka það fram að það er álit okkar í meiri hlutanum að þátttaka okkar í EES-samstarfinu setji íslenska ríkinu engar kvaðir í samningum við ríki eða stofnanir sem ekki eiga aðild að EES-samningnum. Íslendingar geta eins og áður samið um viðskipti við Bandaríkjamenn, Japani eða aðrar mikilvægar viðskiptaþjóðir sínar. Samningurinn kann í raun að kalla á fjárfestingar hér á landi frá ríkjum sem ekki eiga aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Má í því sambandi nefna að í umræðum um álver í eigu bandaríska fyrirtækisins Kaiser hefur því sjónarmiði verið hreyft að ákvörðun um að ráðast í álframkvæmdir hér ráðist m.a. af því að fyrirtækið hafi áhuga á aðgangi að EES-markaðnum og með EES-samstarfinu er ekki á nokkurn hátt dregið úr möguleikum Íslendinga til viðskipta eða fjárfestinga utan EES-svæðisins.
    Virðulegi forseti. Það liggur sem sagt fyrir að hér er um mál að ræða sem spillir í engu þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi en treystir hins vegar samstarf okkar við þær þjóðir sem við eigum mest viðskipti við og auðveldar okkur að efla og styrkja þau viðskipti. Það liggur einnig fyrir að á Alþingi hafði árið 1972 skapast víðtæk samstaða um hvaða stefnu ætti að fylgja í samskiptum við Evrópuríkin í viðskiptamálum og efnahagsmálum. Sú samstaða virðist ætla að rofna nú þegar þetta mál er til umræðu. Aðeins einn flokkur að vísu, Alþb., virðist einn og óskiptur standa gegn því að við gerumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Það er náttúrlega í samræmi við einangrunarstefnu Alþb. í utanríkismálum og hvernig Alþb. hefur hagað málflutningi sínum og afstöðu til mikilvægra utanríkismála allt frá því að lýðeldið var stofnað og sá flokkur kom til sögunnar árið 1956. Það þarf ekki að koma neinum á óvart. ( SvG: Hver talaði fyrir samningnum 1972?) Ég minntist á það að nú væri Alþb. aftur komið í sama farið og það var og hefur verið nema árið 1972. Það sýnir að Alþb. fylgir svipaðri einangrunarstefnu og það hefur fylgt alla tíð og er í sömu stöðu og það var fyrir 30 árum þegar það predikaði nauðsyn þess að Íslendingar héldu sig sem lengst frá þessu efnahagssamstarfi við Evrópuþjóðirnar. Ekkert hefur breyst hjá þeim flokki á þessu árabili. Þarf ég ekki að svara hv. þm. Svavari Gestssyni um það en hann hefur sem kunnugt er forðast að gera upp fortíð Alþb. Hann vill ekki gera það og vill aldrei taka það mál á dagskrá og er síðan með upphrópanir þegar menn minnast á sögu flokksins. Væri nær fyrir flokksmenn sjálfa að líta í þá sögu og kanna hana en að gera hróp að þingmönnum þegar þeir rifja upp einangrun flokksins í utanríkismálum sem hann ætlar að endurtaka nú og virðist ekki þola að um sé rætt, hvorki nú né endranær, hvorki á fundum í flokknum né á Alþingi. ( SvG: Það mætti taka á dagskrá núna, hv. þm.) Hæstv. forseti. ( Forseti: Forseti tekur fram að það leyfist ekki samtal á fundinum.) Hér liggur þetta því fyrir og er ljóst bæði varðandi alþjóðasamskipti Íslendinga og einnig afstöðu stjórnmálaflokkanna. Eins og segir í niðurlagi þessa kafla í áliti meiri hlutans:
    ,,Þegar staða Íslands gagnvart Evrópuríkjunum er metin á hið sama við um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu og um aðild að EFTA og gerð fríverslunarsamningsins við EB. Í engu þessara tilvika ganga Íslendingar undir skuldbindingar gagnvart öðrum ríkjum sem eru svo íþyngjand að þær geri að engu hinn mikla og almenna ávinning er auknu samstarfi fylgir.
    Að því er varðar veigamikla stjórnmálahagsmuni, aldalöng menningartengsl og meginstefnu Íslendinga í utanríkismálum eru kostir aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu augljósir. Á þetta er nauðsynlegt að leggja megináherslu um leið og staðfest er að efnahagslegur og viðskiptalegur ávinningur af aðild Íslands að EES er augljós og óumdeildur.``
    Í III. kafla álits meiri hluta nefndarinnar er fjallað um efni EES-samningsins. Þar segir að meginmarkmið samningsins sé ,,að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði.
    Til þess að ná þessum markmiðum byggir samningurinn á hinu svokallaða fjórþætta frelsi sem felur í sér frjálsa vöruflutninga, frjálsa fólksflutninga, frjálsa þjónustustarfsemi og frjálsa fjármagnsflutninga. Jafnframt er ætlunin að tryggja að markmið samningsins náist með því að koma á kerfi sem tryggir að samkeppni raskist ekki og að reglur þar að lútandi verði virtar af öllum.``
    Um efni frv. er fjallað í IV. kafla og þar segir:
    ,,Með lögfestingu frumvarps til laga um Evrópska efnahagssvæðið er í senn veitt heimild til að fullgilda samninginn og kveðið á um að meginmál hans hafi lagagildi þegar samningurinn öðlast gildi að því er Ísland varðar. Jafnframt fær bókun 1 með samningnum lagagildi. Í þessari bókun eru settar almennar reglur um það hvernig laga skuli gerðir Evrópubandalagsins að EES-samningnum. Er skynsamlegt að velja fremur slíka altæka aðlögun gerðanna en þann kost að umskrifa allar gerðirnar og laga þær þannig að

stjórnskipun EES-samningsins. Frumvarpið gerir auk þess ráð fyrir að lögfestir séu liðir úr tveimur viðaukum við samninginn þar sem Íslandi er heimilað að setja höft á eignarhald útlendinga í fyrirtækjum á sviði sjávarútvegs og fiskvinnslu . . .  
    Auk þess að heimila fullgildinginu 129 greina meginmáls EES-samningsins veitir þetta frv. ríkisstjórninni heimild til að fullgilda 49 bókanir við samninginn og 22 viðauka, ásamt gerðum sem í viðaukunum er getið. Samningum fylgir 71 yfirlýsing og fjöldi samþykkta. Í viðaukunum er vísað til þeirra 1.400 réttargjörninga EB sem lagðir voru til grundvallar EES-samningnum allt frá upphafi hans, en þeir eru í lagafrv. og samningnum nefndir ,,gerðir`` og er þar einkum um að ræða reglugerðir og tilskipanir EB sem snerta EES. Í utanrmn. var rætt um orðið ,,gerð`` í þessari sérstöku lagamerkingu og komu ekki fram tillögur um betri þýðingu á EB-hugtakinu ,,act`` sem nær yfir alla réttargjörninga Evrópubandalagsins . . .  
    EES-samningurinn nær til reglna um innri markað EB sem samkomulag hafði orðið um fyrir 1. ágúst 1991. Eftir þann dag hafa fjölmargar EB-gerðir komið til sögunnar. Á fundi utanrmn. 23. nóv. sl. var lagt fram ritið ,,Samanburður á íslenskri löggjöf og samþykktum Evrópubandalagsins`` sem er ítarleg skýrsla um þær EB-gerðir sem til greina kemur að bætist við EES-samninginn . . .  
    Er lögð rík áhersla á að Alþingi fylgist náið með framvindu þessara mála þannig að sem best verði staðið að aðlögun gerðanna að íslenskum lögum og undirbúningi að lögfestingu á þeim gerðum sem þarf að lögfesta hér. Með því að samþykkja EES-samninginn verða Íslendingar þátttakendur í nýju ferli í samstarfi Evrópuríkja.
    Í því skyni að tryggja sem best eftirlit Alþingis og aðhald er gerð tillaga um að 4. gr. frv. sé felld á brott. Í þeirri grein felst heimild til að setja reglugerð ,,ef sérstök nauðsyn krefur``. Þótt þetta ákvæði sé hugsað sem varaheimild þykir varhugavert, a.m.k. á þessu stigi, að Alþingi veiti ráðherrum jafnalmenna heimild til útgáfu reglugerða þegar gengið er til samstarfs á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Alþingi á að hafa sem besta aðstöðu til að fylgjast með hverju skrefi í hinu nýja EES-ferli. Er nauðsynlegt að hugað verði sérstaklega að því hvernig Alþingi ætlar að sinna slíku eftirliti og haga meðferð EES-mála.`` --- Hefur það mál m.a. verið rætt innan utanrmn. --- ,,Í þessu sambandi er mikilvægt að minnast þess að í EES-samningnum er ákvæði um sameiginlega EES-þingmannanefnd til að stuðla að auknum skilningi milli EB og EFTA-ríkjanna á EES-samningssviðinu.``
    Minnt er á að flutt hafa verið hér fjölmörg lagafrumvörp vegna aðildarinnar að Evrópska efnahagssvæðinu en þau eru almennt til meðferðar í öðrum nefndum en utanrmn. Þá er rétt að láta það koma fram að ríkisstjórnin hefur látið vinna útdrátt á íslensku úr öllum dómum Evrópubandalagsdómstólsins sem lagðir voru til grundvallar við gerð EES-samningsins og getið er í fskj. hans. Er þetta gert að ósk þingmanna sem m.a. hafa komið fram í utanrmn.
    Í V. kafla er fjallað um þjóðhagsleg áhrif og við vorum minnt á gildi þeirra þegar ljóst var að Svisslendingar höfðu fellt aðild að EES-samningnum og menn veltu því fyrir sér hvaða áhrif það hefði á íslenskt efnahagslíf og atvinnumál hér á landi að gildistaka samningsins frestaðist. Þá nefndu menn að það þýddi um 750 millj. kr. óhagræði fyrir íslenska þjóðarbúið ef samningsgildistakan frestaðist um hálft ár. Það er alveg ljóst að gildi þessa samnings fyrir íslenskt efnahagslíf er ótvírætt og mikið. Ef miðað er við það sem stendur í þjóðhagsáætlun svarar hin árlega aukning landsframleiðslu sem nefnd er í áliti Þjóðhagsstofnunar að landsframleiðslan muni aukast vegna aðildar að EES, þá jafnar það til allt að 6 milljörðum kr. miðað við landsframleiðsluna eins og hún er núna, þ.e. aukning á landsframleiðslu á ári. Það er náttúrlega mál sem ekki kemur til sögunnar á einu ári heldur er það framtíðarþróun sem þarna er spáð fyrir um.
    Markaðir okkar á Evrópusvæðinu hafa verið að aukast. 75% af útflutningi síðasta árs fara til þess svæðis og 70% af innflutningi okkar koma þaðan. Það er því engin spurning um hin efnahagslegu og þjóðhagslegu áhrif þessa samnings. Þau eru ákaflega jákvæð. Það þarf enginn að efast um það. Einnig liggja fyrir skýrslur frá fjmrn. úr tíð fyrrv. ríkisstjórnar sem sýna að áhrif samningsins á þróun ríkisútgjalda og ríkisfjármála er mjög jákvæð.
    VI. kafli nál. fjallar um stjórnarskrána og Evrópska efnahagssvæðið. Þar kemur fram sú skýra afstaða meiri hluta utanrmn. að aðild Íslands að þessum samningi brjóti ekki í bága við stjórnarskrána. Eins og ég sagði í upphafi máls míns hafa fá mál verið betur könnuð í nefndinni en einmitt spurningin um það hvort aðild að Evrópska efnahagssvæðinu bryti í bága við stjórnarskrána. Það er eindregin niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að svo sé ekki. Í álitinu er gerð grein fyrir þeim álitsgerðum sem nefndin hefur fengið og rakinn sá ágreiningur sem er á milli lögfræðinga um þetta mál og farið yfir hann. Einnig er í álitinu fjallað um hugtakið ,,fullveldi``, skilgreiningar á því og hugleiðingar manna um fullveldið. Eins og við vitum er það mál mjög á döfinni nú, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, þar sem þjóðir heims hafa komist að niðurstöðu um að réttmætt sé að senda herafla inn í Sómalíu í nafni Sameinuðu þjóðanna til að koma í veg fyrir hungursneyð. Má segja að þar með hafi skýring alþjóðasamtaka á fullveldinu öðlast nýja merkingu. Við vitum einnig að á alþjóðavettvangi starfa ýmis samtök þingmanna sem telja að það eigi með alþjóðalögum að setja ríkjum skorður, t.d. varðandi tryggingu friðar eða meðferð á alþjóðlegum glæpamönnum og annað slíkt. Þessar hugmyndir eru uppi, ekki aðeins hjá ríkisstjórnum heldur eru þær ræddar mikið í alþjóðlegum samtökum þingmanna. Ég veit að ýmsir hv. þm. á Alþingi þekkja slíkar umræður um nauðsyn þess að löggjafarvald, alþjóðlegt löggjafarvald, verði aukið og eflt og styrkt á þann veg að menn

geti hlutast til um ýmist innri málefni ríkja til að tryggja heimsfrið eða að tryggja öryggi borgaranna. Einnig hefur verið rætt á Alþingi um nauðsyn þess að skilgreina fullveldið með hliðsjón af umhverfismálum og hættum vegna þeirra. Raunar höfum við rætt í tengslum við þetta mál frv. frá stjórnarandstöðunni um breytingar á stjórnarskránni sem gerði ráð fyrir því að heimilt yrði að framselja vald til alþjóðastofnana með sérstökum hætti.
    Það sem við í meiri hlutanum segjum í lok þessa kafla okkar álits, með leyfi forseta, er svohljóðandi:
    ,,Þegar gengið er til alþjóðasamstarfs eins og EES-samstarfsins er mikilvægt að allir sitji við sama borð og geti gengið að því sem vísu að jafnræðis sé gætt. Reglur og stofnanir, sem tryggja slíkt jafnræði, þjóna ekki síst hagsmunum hinna smærri þjóða í samstarfinu. Sagan geymir óteljandi dæmi um að stórveldi telja sig geta boðið smærri ríkjum birginn með ofurefli. Með sameiginlegum reglum um rétt hvers og eins og eftirlits- og dómstólakerfi til að framfylgja reglunum er tryggt að stórir og smáir hafi sömu réttarstöðu. Öll viðleitni í alþjóðlegu samstarfi hefur síðustu áratugi miðað að því að útiloka með samningum og framkvæmd þeirra að hinir sterku og stóru í samfélagi þjóðanna geti sett hinum minni afarkosti eða hrifsað verðmæti þeirra til sín með því að neyta aflsmunar. Er það almennt talið til marks um að ríki hafi náð góðum árangri í samstarfi sín á milli ef þau sættast á friðsamlega úrlausn deilumála þar sem beiting valds eða hótun um valdbeitingu er útilokuð.
    Þegar Alþingi tekur afstöðu til EES-samningsins er nauðsynlegt að hafa öll sjónarmið varðandi stjórnarskrárþátt málsins í huga. Á vettvangi utanrmn. hefur mikil vinna verið innt af hendi til að draga sem best fram meginatriði þessa þáttar. Umræður hafa einnig verið miklar um þetta atriði á almennum vettvangi. Þær halda áfram, hver svo sem niðurstaða Alþingis verður um EES-samninginn. Lögfræðileg sjónarmið hljóta einkum að vega þungt í mati Alþingis á þessum þætti. Með vísan til þeirra hefur meiri hluti utanrmn. komist að þeirri niðurstöðu að EES-samningurinn brjóti ekki í bága við stjórnarskrána. Við þetta mat verður ekki horft fram hjá þeim sjónarmiðum öðrum sem nefnd voru hér að framan, auk hins almenna gildis sem aðild Íslands að EES hefur fyrir þróun íslensks þjóðfélags og stöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Í stuttu máli er hér komist að þeirri niðurstöðu að samþykki Alþingis á EES-samningnum brjóti ekki í bága við stjórnarskrána.``
    Í VII. kafla álitsins er vísað til álits umsagnaraðila og vil ég ekki neinu við það bæta og vísa til þess. Þó get ég ekki látið hjá líða að geta þess að eftir að þetta álit nefndarinnar lá fyrir hafa mér borist annars vegar ályktanir og samþykktir 37. þings Alþýðusambands Íslands og hins vegar samþykktir frá formannaráðstefnu Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, en hvorugur þessara aðila lét í raun í ljós efnislega afstöðu til málsins þegar um var spurt af hálfu utanmrn. Raunar má einnig láta þess getið að aðeins einn aðili af öllum þeim sem veittu skriflegar umsagnir til nefndarinnar, BHMR, var neikvætt í afstöðu sinni til aðildar Íslands að þessu samstarfi. Hinir vísuðu annaðhvort til hugmynda um þjóðaratkvæði eða einhvers annars en tóku ekki neikvæða afstöðu til málsins. Það er mjög athyglisvert að aðeins einn af þessum umsagnaraðilum hefur snúist gegn aðild að þessu svæði og er umhugsunarvert fyrir okkur þegar við lítum á málið að það skuli vera þessi samtök.
    Ég vil aðeins, með leyfi forseta, lesa ályktun formannaráðstefnu Farmanna- og fiskimannasambands Íslands sem haldin var í Neskaupstað 11. og 12. nóv. 1992 þar sem mælt er með því að Alþingi staðfesti aðild Íslands að samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Þar segir að FFSÍ geri sér grein fyrir því að samningurinn um EES hafi í för með sér víðtækar breytingar á fjölmörgum sviðum sem hafa að geyma bæði kosti og galla. Augljós ávinningur sé m.a. greiðari aðgangur fyrir íslenskar vörur inn á Evrópumarkað. Sérstaklega á þetta við um sjávarafurðir sem bæði munu skila heim hærra skilaverði og leggja grunn að nýjum sóknarfærum í íslenskum sjávarútvegi. FFSÍ telur þó að innan ramma EES-samningsins sé mikilvægt að tryggja eignarhald og nytjarétt náttúruauðlinda undir forræði Íslendinga og þetta eigi sérstaklega við um eignarhald útgerðar og fiskvinnslu og stjórn fiskveiða.
    Á þessum málum er tekið eins og ég gat um í frv. sem hér er til umræðu og sérstaklega lögfest undanþáguákvæði varðandi eignarhald útgerðar og fiskvinnslu.
    Þá segir einnig í ályktun formannaráðstefnu FFSÍ að formannaráðstefnan telji einnig að við frágang á tvíhliða samningi milli Íslands og Evrópubandalagsins um gagnkvæmar veiðiheimildir þurfi að gæta þess að hagsmunir Íslendinga séu tryggðir á sem bestan hátt, þ.e. skipti á veiðiheimildum milli samningsaðila sé sanngjörn og tryggt sé strangt eftirlit með veiðum útlendinga innan íslensku fiskveiðilögsögunnar. FFSÍ álítur að með opnun íslenska vinnumarkaðarins innan ramma EES-samningsins geti skapast ójafnvægisástand þar sem kjörum og vinnuskilyrðum launafólks væri ógnað. Til að koma í veg fyrir slíkt ástand telur FFSÍ nauðsynlegt að eftirfarandi atriði séu tryggð á hinum íslenska vinnumarkaði:
    1. Á Íslandi gildi íslenskir kjarasamningar. Undirboð kaupgjalds meðal útlendinga á íslenskum vinnumarkaði verði óheimil með setningu á viðeigandi löggjöf frá Alþingi.
    2. Forgangsréttarákvæði kjarasamninga stéttarfélaga séu virt óháð ríkisfangi launþega í viðkomandi stéttarfélagi.
    Á báðum þessum atriðum er tekið í sérstökum lagafrumvörpum þannig að ég tel að Alþingi sé að vinna að þessu máli í fullu samræmi við það sem fram kemur í ályktun formannaráðstefnu Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.

    Á Alþýðusambandsþinginu var tekist á um þetta mál og Alþýðusambandið hafði þá skoðun að bera ætti málið undir þjóðaratkvæði en eins og við vitum hér á þingi hefur það mál þegar verið afgreitt af alþingismönnum. Um starf að Evrópumálum segir svo í skýrslu um þingið sem alþingismönnum hefur verið send, með leyfi forseta:
    ,,37. þing ASÍ telur brýnt ASÍ, landssambönd og stéttarfélög vinni ötullega að því að mæta þeim breytingum sem fram undan eru á íslenskum vinnumarkaði, ekki hvað síst ef Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Þingið leggur áherslu á að stjórnvöldum sé veitt öflugt aðhald. Ýmsar lagasetningar og aðgerðir sem skipta launafólk miklu máli fylgja aðild að EES ef af henni verður. Verkalýðshreyfingunni ber skylda til að fylgja því eftir að ekki sé gengið á réttindi launafólks. Þá kalla aukin samskipti við aðrar þjóðir á öflugt upplýsingastarf í verkalýðshreyfingunni.
    37. þing ASÍ telur að með starfi sambandsins að Evrópumálum hafi verkalýðshreyfingin náð verulegum árangri. Þingið felur miðstjórn að efla samstarfið við Evrópusamband verkalýðsfélaga, Norræna verkalýðssambandið og ráðgjafarnefnd EFTA til að koma sjónarmiðum íslenskrar verkalýðshreyfingar á framfæri.``
    Ég tel, virðulegi forseti, ekki unnt að túlka þessa ályktun nema á einn veg, að Alþýðusambandið telji sjálfgefið að Íslendingar gerist aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og það er að búa sig undir þá aðild og hefur átt mikinn þátt í þeim mikla undirbúningi sem unninn hefur verið vegna málsins og fram hefur komið m.a. í þeim miklu upplýsingum sem þingmenn hafa fengið frá Alþýðusambandinu og starfsmönnum þess við meðferð þessa máls. Ég vil einnig vekja athygli á því að sá maður innan Alþýðusambandsins sem mest hefur haft afskipti af Evrópumálum hvatti mjög til þess eftir að niðurstöður atkvæðagreiðslunnar lágu fyrir í Sviss að Alþingi hvikaði í engu í þessu máli, léti málið fram ganga og staðfesti þátttöku Íslands í Evrópska efnahagssvæðinu.
    Í VII. kafla er fjallað um sjávarútveg og landbúnað. Það var mjög ítarlega rætt um þessi mál og sérstaklega landbúnaðarmálin. Ég vil sérstaklega þakka hv. landbn. og formanni hennar fyrir þá vinnu sem nefndin hefur unnið í þessu máli og hvernig hún hefur staðið að upplýsingaöflun. Ég tel það til fyrirmyndar fyrir þingnefndir aðrar og sýna hvað Alþingi og alþingismenn geta haft náin afskipti af einstökum þáttum þessa máls og framvindu þeirra. Það hefur verið ómetanlegt fyrir utanrmn. að njóta góðs af þessum störfum landbn. eins og kemur fram í áliti okkar meiri hlutans og í þeim gögnum sem álitinu fylgja.
    Síðan er fjallað um EES-samninginn og íslenska löggjöf og rætt um þau mál sem það varða.
    Í IX. kafla er rætt um kostnað vegna þátttökunnar í EES. Utanrmn. hafa verið kynntar nýjar tölur varðandi þetta atriði. Ef svo fer, sem líklegt er eftir atkvæðagreiðsluna í Sviss, að Svisslendingar borgi ekkert til EES-samstarfsins munu útgjöld Íslendinga aukast eitthvað þar sem þessu verður skipt upp á milli þjóðanna. Það segir í niðurstöðum þeirrar greinargerðar sem utanrmn. var afhent í gær:
    ,,Viðbótarkostnaður Íslands vegna fráhvarfs Sviss samkvæmt framangreindu verður því í hæsta lagi samtals 35 millj. kr. árlega sem skiptist í viðbótarframlag til eftirlitsstofnunarinnar 6 millj., viðbótarframlag í dómstól 2 millj. og mögulegt``, ég segi mögulegt, ,,viðbótarframlag í þróunarsjóð 27 millj. verði lokaniðurstaðan sú að EFTA-ríkin skipti með sér framlagi Sviss.`` Þessar tölur liggja fyrir og upplýsingar um þetta liggja glögglega fyrir.
    Að lokum eru ályktunarorð meiri hluta nefndarinnar sem ég vil leyfa mér að lesa:
    ,,Að lokinni gaumgæfilegri athugun á EES-samningnum og þeim skyldum og réttindum, sem honum fylgja fyrir Íslendinga, er það eindregin niðurstaða meiri hluta utanrmn. Alþingis að það sé íslenskum hagsmunum ótvírætt til framdráttar að Ísland gerist aðili að samningnum.
    Í 4. gr. frv. til laga um Evrópska efnahagssvæðið á þskj. 1 er almennt ákvæði um útgáfu reglugerða. Lagt er til að þessi grein verði felld úr frv.
    Meiri hluti utanrmn. leggur til að frv. verði samþykkt með áðurgreindri breytingu.``
    Ég vil að lokum, hæstv. forseti, láta þess getið, sem ég hef raunar drepið á, að ég tel að þeir atburðir sem gerst hafa nú á síðustu dögum vegna fráhvarfs Sviss séu ekki þess eðlis að þeir eigi að gera okkur á Alþingi ókleift að afgreiða þetta mál. Ég verð einnig að segja að mér finnst það ekki sannfærandi rök þegar menn eru að tala um að ekki sé unnt að klára þetta á þeim tíma sem til stefnu er. Við erum í sömu stöðu og þjóðþing í öðrum EFTA-ríkjum og ég vil aðeins geta þess að á norska þinginu eru þingmenn um 100 fleiri en hér, á sænska þinginu eru þeir 349, 200 í Finnlandi, 183 í Austurríki og 200 í Sviss. Þar hafa menn treyst sér til þess að fjalla um þetta mál á einum eða tveimur dögum og vel komist í gegnum um það. Það er því engin frágangssök finnst mér á Alþingi að við getum ekki afgreitt þetta á þeim dögum sem til stefnu eru. Ég sé ekki nein lagatæknileg atriði eða neitt slíkt sem ætti að hindra okkur í að komast að þeirri niðurstöðu sem er hagstæðust Íslandi í þessu máli á þeim dögum sem til stefnu eru fram að jólaleyfi þingmanna. Við verðum þá að taka okkur lengri tíma ef menn treysta sér ekki til þess en ég sé enga ástæðu til þess að menn séu að mikla það fyrir sér.