Framkvæmd yfirlýsingar um ríkisfjármál

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 15:52:13 (3476)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Þegar efnahagstillögur ríkisstjórnarinnar voru tilkynntar kom fram af minni hálfu og annarra sem töluðu í nafni ríkisstjórnar að nauðsynlegt væri í tengslum við þessar aðgerðir að styrkja stöðu ríkissjóðs. Það var líka ljóst að aðgerðirnar sjálfar, sem miðuðu að því að draga úr viðskiptahalla landsins, draga úr vaxandi lántökum og á tveimur árum að stöðva þær erlendis, væru til þess fallnar að minnka tekjur ríkisins vegna áhrifa veltusamdráttar. Það var alveg ljóst að ríkisstjórnarflokkarnir voru ákveðnir í því að mæta því ekki með því að sækja skattfé til þess að styrkja stöðu ríkissjóðs sem þessu næmi.

    Þegar málið var kynnt fyrir þingflokkum stjórnarflokkanna á þessum sömu dögum var gert ráð fyrir því að þessi styrking gæti leitt til þess að halli ríkissjóðs yrði á bilinu 5,8--6 milljarðar kr. en án slíkra aðgerða mundi hallinn hafa stefnt í milli 7--8 milljarða kr. vegna áhrifa veltusamdráttar og fleiri slíkra þátta. Auðvitað gefst tækifæri til þess að ræða málin þegar fjárlög koma til umræðu en ég tel þó ljóst að við munum ná því markmiði að vera mjög nærri þessum tölum þó að einhverju muni skakka á því bili sem segir í viðtali við hæstv. fjmrh. og hv. málshefjandi vitnaði til.
    Við vissum að áhrif gengisbreytingarinnar yrðu þessi sem nefnd voru. Að vísu hafa verið haldnir tveir blaðamannafundir um að gengisbreytingin hafi verið óþörf, norska krónan væri að styrkjast eins og kunnugt er. Það hefur reyndar ekki verið haldinn blaðamannafundur um að þar hafi orðið breyting á né heldur að norski ríkisseðlabankastjórinn hafi talið að viðmiðungargengi pesetans hafi fallið. Ég býst við að ekki hafi náðst í hv. þm. til að fá leyfi fyrir slíkum breytingum því að allar þessar gengishreyfingar og hræringar fóru eins og kunnugt er fram hjá þessum hv. þm. og kom fram á tveimur mjög merkilegum blaðamannafundum, öðrum í þinghúsinu eins og kunnugt er.
    En allar þessar hræringar urðu samt og norska krónan hefur fallið eins og kunnugt er þrátt fyrir mikilvæga blaðamannafundi sem haldnir voru um þessi efni og heilmikla fyrirferð. Það var ljóst að allir þessir þættir mundu veikja tekjur ríkissjóðs og því varð að mæta með niðurskurði og það hefur verið gert.
    Það er athyglisvert og menn ættu að hafa það í huga vegna þeirra umræðna sem hafa orðið um skattatilfærslur að menn hafa farið í skattatilfærslur á milli neyslu annars vegar og atvinnulífsins hins vegar. Um það var rík sátt í þjóðfélaginu og raunar skilningur hjá öllum, m.a. á tímabili þegar Alþb. gekk í gegnum ábyrgðarstjórnarandstöðu í um það bil þrjár vikur, að slík tilfærsla yrði að eiga sér stað. Það er athyglisvert að hafa í huga að skatttekjur í ár eru á föstu verðlagi verulega lægri en 1990 og 1991 og þær munu enn dragast saman á næsta ári samkvæmt fyrirliggjandi spá.
    En ég vænti þess að endanlegar hallatölur ríkissjóðs, með vissum fyrirvörum eins og fjmrh. hefur sjálfur slegið, ættu í meginatriðum að standast.