Ummæli utanríkisráðherra um Alþingi

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 21:01:02 (3485)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það er öllum kunnugt í þessum sal að leitað hefur verið leiða til þess að samkomulag næðist um að hægt væri að láta efnisumræðu um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði fara fram með eðlilegum hætti. Það hefur hins vegar gerst síðustu sólarhringa og það endurtekur sig núna síðdegis í dag að hæstv. utanrrh. kýs að ganga fram fyrir skjöldu utan þings og ráðast á Alþingi Íslendinga og þingmenn. Hér í dag var hvað eftir annað óskað eftir því að hæstv. utanrrh. mundi tjá sig um þau ummæli sem hann viðhafði á erlendri grundu um Alþingi Íslendinga. Það var óskað eftir því að hann bæði afsökunar á þeim ummælum, það var óskað eftir því að hann endurtæki þau, það var óskað eftir því að hann viki að þeim með einum eða öðrum hætti. En eins og allir vita þá kaus hæstv. utanrrh. að þegja algjörlega í þingsalnum í dag en síðan gerist það að þegar þingflokkar ganga til fundar klukkan rúmlega fjögur og eru á fundum klukkan fimm þá berast fréttir af því að hæstv. utanrrh. hafi farið nánast rakleiðis héðan úr þingsalnum og boðað til opinbers blaðamannafundar til að fjalla þar um þau ummæli sín sem hann viðhafði um Alþingi Íslendinga og þorði ekki og vildi ekki ræða í þingsalnum og lýsir því yfir á blaðamannafundinum að hann standi við hvert orð af því sem hann hafi sagt erlendis um Alþingi Íslendinga.
    Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að ég er satt að segja alveg hættur að skilja hæstv. utanrrh. í þessu máli. Ég hélt að hann hefði einlægan áhuga á því að hér hæfist og gæti farið fram efnisleg umfjöllun um þetta mál. En þá velur hann það hvað eftir annað að ögra Alþingi með framgöngu sinni og grípa til þess ráðs sem ég hugsa að sé nokkuð einstakt, að efna til opinbers blaðamannafundar á þingflokksfundatíma Alþingis til að ráðast á þingið og þingmenn eftir að hafa neitað því í þingsalnum í dag að tjá sig um þessi ummæli.
    Ég vil spyrja hæstv. forseta að því vegna þess að ég bar þá fyrirspurn fram til forsetans fyrr í dag, hvað hæstv. forseti hygðist gera ef hæstv. utanrrh. biðist ekki afsökunar á þessum ummælum sínum. Nú er sú spurning orðin enn brýnni í ljósi þess að hæstv. utanrrh. hefur haldið opinberan blaðamannafund í þinghléinu í kvöld og endurtekið þessi ummæli. Ég vil þess vegna beina þeirri fyrirspurn minni til hæstv. forseta: Hvað hyggst forseti gera til þess að bregðast til varnar fyrir hönd þingsins vegna síendurtekinna

árása hæstv. utanrrh. á Alþingi Íslendinga utan þings?