Evrópskt efnahagssvæði

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 23:48:07 (3494)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér þótti gott að hlýða hér á hv. ræðumann og ekki síst hans lokaorð og lokaniðurstöðu. Hins vegar varð ég fyrir nokkrum vonbrigðum með að hv. þm., formaður Framsfl., gaf ekki til kynna hvernig Framsfl. stæði í þessu máli. Ég ætla ekki að ganga hart að honum í því efni hér og nú en ég vil aðeins nefna vegna málflutnings hv. þm. að mér finnst það ekki skipta máli í svo stóru máli sem þessi samningur er hvaða ríkisstjórn er við völd hverju sinni, ekki einu sinni hvaða stjórnarstefna er hjá viðkomandi ríkisstjórn. Þær gerast hratt sviptingarnar á þeim vettvangi. ( Gripið fram í: Þær koma og fara.) Þær koma og fara. En í þeim samningi, sem hér er verið að fjalla um, er ekki einungis tjaldað til einnar nætur.
    Ég leit þannig á þetta mál örfáum dögum áður en fyrrv. forsrh. stóð að yfirlýsingunni í Ósló 15. mars 1989 að það gæti ekki samræmst yfirlýsingu hans á Alþingi nokkrum dögum áður að undirrita yfirlýsinguna í Ósló vegna þeirra ákvæða sem í henni fólust. Ef hv. þm. og þáv. forsrh. hefði reynt að lesa í spilin og kanna hvaða ráðherrar það voru sem öðrum fremur réðu ferðinni í ríkisstjórn hans í þessu máli hefði ég skoðað mig um tvisvar og ekki aðeins það, líklega þrisvar. Ég leyfi mér að rifja upp að það voru ekki liðnir tveir dagar frá því að hæstv. forsrh. hafði gert sína fyrirvara í ræðu í Ósló að þáv. viðskrh. í ríkisstjórninni lýsti því yfir að engir fyrirvarar hefðu komið fram í Ósló. Það hefðu engir fyrirvarar verið gerðir. Ég hlýddi á hann flytja ræðu um þetta á aðalfundi Félags ísl. iðnrekenda líklega 17. mars 1989.
    Síðan er stjórnarskrárþáttur málsins. Hæstv. forsrh. fyrrv. ríkisstjórnar var ítrekað minntur á það af þeim sem hér talar að þar væru menn heldur betur á tæpu vaði. Mér finnst það tæpast frambærilegt að þessi mál hafi ekki þurft athugunar við engu síður heldur en nú í tíð núv. ríkisstjórnar. Það ber að skoða þetta mál óháð því hverjir sitja í stjórnarstólum því þetta er mál sem varðar framtíð Íslands meira en nokkuð annað.