Evrópskt efnahagssvæði

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 23:51:30 (3495)


     Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Steingrímur Hermannsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Mér voru að sjálfsögðu vel kunnug viðhorf hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Ég var þeim ósammála og er þeim ósammála. Þegar yfirýsingin var gefin í Ósló var ekkert þar sem varðaði stjórnarskrána. Það kom ekki fyrr en langtum síðar upp að til greina kæmi að setja upp dómstól. Ég vil líka vekja athygli á því að þegar talað var um forúrskurði í tíð fyrri ríkisstjórnar var leitað álits sérfræðings og ekki talið fært að fallast á það því það stæðist ekki stjórnarskrána. Um þetta gæti ég haft miklu lengra mál en þessar tvær mínútur leyfa.
    Það er alveg rétt hjá hv. þm. að gagnvart stjórnarskránni gildir einu hvaða ríkisstjórn situr. Ég tel það hins vegar mikilsvert hver leiðir íslenskt atvinnulíf fyrstu skrefin í þessu samstarfi. Ég tel það afar mikilvægt. Ég tel það afar slæmt hve veikt íslenskt atvinnulíf er í dag. Ég er kannski meira alþjóðlega sinnaður en hv. þm. Ég tel að við verðum að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi. Ég tel afar mikilvægt að þegar það er gert verði þess vandlega gætt og það talin skylda ríkisstjórnar að standa vörð um íslenskt atvinnulíf, t.d. með því að beita jöfnunarsköttum og öllu öðru sem hægt er til að vernda það eins og aðrar þjóðir gera. Hæstv. ríkisstjórn vill ekki gera það og hefur lýst því yfir að hún vilji engin eða sem minnst afskipti hafa af atvinnulífinu. Þetta tel ég afar mikilvægt og við erum þar ekki sammála.
    Það er sjálfsagt að ég upplýsi það hver afstaða Framsfl. er. Ég vil leyfa mér að fullyrða það að enginn þingmaður framsóknarmanna muni greiða þessum samningi atkvæði sitt.